Fara í efni

Litla hryllingsbúðin að taka á sig mynd í Samkomuhúsinu

Leikarar í Litlu hryllingsbúðinni ásamt leikstjóra
Leikarar í Litlu hryllingsbúðinni ásamt leikstjóra

Ekki verður annað sagt en að í mörg horn sé að líta í Samkomuhúsinu á Akureyri þessa dagana enda er Leikfélag VMA þar að æfa á fullu Litlu hryllingsbúðina sem verður frumsýnd að nákvæmlega viku liðinni, föstudaginn 21. október. Eins og alltaf á lokaspretti slíkrar vinnu eru óteljandi hlutir sem þarf að púsla saman til þess að hin eina og sannna heildarmynd náist. Auk stífra æfinga leikhópsins að undanförnu hefur verið unnið að búningahönnun, smíði leikmyndar, öflun leikmuna, vinnslu á tónlist, gerð leikskrár og svo mætti lengi telja. Allt verður þetta klárt að sléttri viku liðinni þegar leiktjöldin verða dregin frá í Samkomuhúsinu og afrakstur erfiðis undanfarinna vikna verður á borð borinn fyrir leikhúsgesti.

Uppsetning leikrits er jafnan mikil törn fyrir alla þá sem að sýningunni koma en gera má ráð fyrir að á milli 30 og 40 manns komi á einn eða annan hátt að uppfærslu Litlu hryllingsbúðarinnar, þar af eru 11 leikarar. Valið var í hlutverk um mánaðamótin ágúst-september og síðan hófust æfingar af fullum krafti. Lengstaf voru þær innan veggja skólans en sl. mánudag færði leikhópurinn sig inn í Samkomuhúsinu og þar er sýningin að mótast þessa dagana með öllu því sem til þarf.

Birna Pétursdóttir leikstjóri segir þetta fyrsta stóra leikritið sem hún leikstýri en hún er með BA-próf í leiklist og hefur fengist töluvert við að kenna leiklist. Birna er einnig áhorfendum sjónvarpsstöðvarinnar N4 að góðu kunn en þar hefur hún annast dagskrárgerð undanfarin ár. Birna segir þetta verkefni vitaskuld krefjandi en mjög skemmtilegt. Sýningin sé stór en henti ágætlega sem skólasýning. Hún segir bakgrunn leikaranna mismunandi, sumir séu að stíga sín fyrstu skref á leiksviðinu en aðrir hafi aflað sér nokkurrar reynslu. „En það sem er mikilvægast af öllu er að þetta er frábær og samstilltur hópur sem finnst gaman að takast á við þetta verkefni og innan hópsins er rík vinátta,“ segir Birna. Hún segir að þegar svo skammt sé í frumsýningu aukist stressið eilítið, því svo ótal margt þurfi að púslast saman á lokasprettinum. „En umfram allt er þessi vinna mjög skemmtileg og ég verð að segja að þetta hefur gengið bara ljómandi vel.“

Um tónlistina í sýningunni sér Kristján Edelstein og Hera Björk Þórhallsdóttir stýrir söngnum. Hera Björk verður norðan heiða á lokasprettinum í komandi viku. Nemendur í byggingadeild VMA hafa unnið að gerð leikmyndar fyrir sýninguna og Hallgrímur Ingólfsson kennari á listnámsbraut vinnur ásamt nemendum sínum að gerð hinnar ógnvekjandi blómaplöntu.

Birna leikstjóri kemur víða við. Auk þess að leikstýra og vinna þætti fyrir N4 vinnur hún nú að því að skrifa leikrit ásamt „vandræðaskáldunum“ Vilhjálmi Bergmann Bragasyni og Sesselju Ólafsdóttur og verður þess ekki langt að bíða að það verði sett upp. Og nýverið stofnaði Birna ásamt manni sínum, Árna Þór Theodórssyni, fyrirtækið Flugu hugmyndahús, sem m.a. mun fást við gerð heimildamynda af ýmsum toga.