Fara í efni

Listnámsbrautarnemar í menningarferð í Reykjavík

Nemendur á listnámsbraut í höfuðborginni.
Nemendur á listnámsbraut í höfuðborginni.
Í síðustu viku fór hópur nemenda á listnámsbraut VMA ásamt þremur kennurum sínum í menningarferð í höfuðborgina þar sem þeir skoðuðu m.a. listsýningar og kynntu sér starfsemi listaskóla. Björg Eiríksdóttir, kennari við listnámsbraut, segir ferðina hafa verið mjög gagnlega fyrir bæði nemendur og kennara.

Í síðustu viku fór hópur nemenda á listnámsbraut VMA ásamt þremur kennurum sínum í menningarferð í höfuðborgina  þar sem þeir skoðuðu m.a. listsýningar og kynntu sér starfsemi listaskóla. Björg Eiríksdóttir, kennari við listnámsbraut, segir ferðina hafa verið mjög gagnlega fyrir bæði nemendur og kennara.

Í ferðina fóru 36 nemendur á þriðja og fjórða ári listnámsbrautar. Haldið var af stað suður yfir heiðar sunnudagsmorguninn 24. febrúar og farið beint á sýningar í Þjóðminjasafninu, Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu og Listasafni Íslands.

Daginn eftir fór hópurinn í heimsóknir í nokkra skóla. Í Myndlistaskólanum í Reykjavík var kynning á diplómanámi í textíl, teikningu og mótun. Þá lá leiðin í Listaháskólann í annars vegar hönnunarhlutann, sem er staðsettur í Þverholti og hins vegar mynddeildina í Laugarnesi. Þriðji skólinn sem hópurinn sótti heim er Tækniskólinn – skóli atvinnulífsins, þar sem hann fékk kynningu á annars vegar klæðskeranámi og hins vegar margmiðlunardeildinni.

Hópurinn kom síðan norður aftur sl. þriðjudag eftir vel heppnaða ferð.

„Ferðin tókst mjög vel og var afar gagnleg fyrir bæði nemendur og okkur kennarana, því það er nokkuð síðan við komum síðast í þessa skóla og margt hefur tekið þar breytingum og þróast.  Ég er ekki í vafa um að ferðin hjálpaði mörgum úr hópnum til þess að átta sig á því hvar þeirra áhugasvið liggur að loknu námi sínu í VMA. Auk þess að fá kynningu á nokkrum námsbrautum var umsóknarferli í hverjum skóla kynnt fyrir nemendunum. Og félagslega skiptir ferðin miklu máli, hún þjappaði hópnum saman og nemendur kynntust á annan hátt en dags daglega í skólanum,“ segir Björg Eiríksdóttir.