Fara í efni

Lífsleiknin er mikilvæg

Lífsleikni í sól og blíðu.
Lífsleikni í sól og blíðu.

Eins og venja er taka allir nýnemar í VMA áfanga í lífsleikni. Nýnemum er skipt upp í hópa og er kennari hvers hóps jafnframt umsjónarkennari hans. Harpa Jörundardóttir, sviðsstjóri brautabrúar og starfsbrautar, segir lífsleiknina afar mikilvæga fyrir nemendur sem séu að taka sín fyrstu skref í skólanum. Hún segir að áherslurnar í lífsleikninni í vetur séu eilítið aðrar en undanfarin ár.

„Nokkrir þættir sem hafa verið kenndir í lífsleikninni hafa færst yfir í aðra áfanga en við leggjum meiri áherslu á að nemendur fái góða kynningu á skólanum og fyrir hvað hann stendur. Við kynnum vel fyrir nemendum þau námskerfi sem við vinnum með eins og Moodle og Innu og einnig er lögð mikil áhersla á námstækni og hvaða þjónusta og stuðningur við nemendur er í boði hér innan veggja skólans – námsráðgjafar, sálfræðiþjónusta og fleira.  Við leggjum mikla áherslu á að halda mjög vel utanum þá nemendur sem hingað koma því fyrir marga sem eru að byrja hér nám er um verulega stórt skref að ræða, t.d. fyrir nemendur sem koma úr fámennum skólum. Í þessu felst að við fylgjumst vel með líðan og velferð krakkanna. Við skiptum nemendum í lífsleikninni upp í 11 hópa og kennari hvers hóps er jafnframt umsjónarkennari hópsins. Eðlilega leita nemendur mikið til sinna umsjónarkennara ef þeir þurfa aðstoð af einhverjum toga. Það hefur sýnt sig að lífsleiknin er mjög mikilvæg fyrir nemendur,“ segir Harpa Jörundardóttir.

Meðfylgjandi mynd tók Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir á góðviðrisdegi á dögunum af lífsleikninemendum sínum á Brautabrú.