Fara í efni

Leggst mjög vel í mig

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA.
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA.

Sigríður Huld Jónsdóttir hóf störf sem skólameistari VMA um áramót en frá haustinu 2006 hefur hún verið aðstoðarskólameistari skólans. Á sínum tíma sótti hún um þá stöðu og fékk en hafði áður verið stundakennari á sjúkraliðabraut VMA. Sigríður Huld er fyrsta konan til þess að gegna stöðu skólameistara á Akureyri og jafnframt fyrsti skólameistarinn í bænum sem hefur sinn bakgrunn úr starfsnámi.

Sigríður Huld er fædd í Reykjavík 25. nóvember 1969 en ólst upp og gekk í grunnskóla á Sauðárkróki. Stúdentsprófi lauk hún frá VMA vorið 1993, þá 23ja ára gömul. Það er skemmtileg tilviljun að hópmynd af útskriftarhópnum 1993 er til vinstri við hurðina að skrifstofu skólameistara. Haustið 1994 lá leið Sigríðar Huldar í Háskólann á Akureyri þar sem hún lauk BSc-námi í hjúkrunarfræði.

Maki Sigríðar Huldar er Atli Snorrason rafvirki og eiga þau þrjú börn; Snorra Björn, sem er nemi í véla- og orkutæknifræði við Háskólann í Reykjavík, Þórhildi Amalíu, nema í 8. bekk Giljaskóla og Arnþór Atla, nema í 6. bekk Giljaskóla.

Sigríður Huld var ein sex umsækjenda um stöðu skólameistara en hinir umsækjendurnir eru Benedikt Barðason, Bjargey Gígja Gísladóttir, Hamidreza Jamshidnia, Hermann Jón Tómasson og Laufey Petrea Magnúsdóttir.Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaherra skipaði Sigríði Huld skólameistara 22. desember sl. til fimm ára frá 1. janúar 2016.

Sem fyrr segir er Sigríður Huld með BSc-próf í hjúkrunarfræði, auk þess að hafa lokið námi til kennsluréttinda í framhaldsskóla og diplóma í opinberri stjórnsýslu. Frá 2006 hefur hún verið aðstoðarskólameistari VMA og skólaárið 2011–2012 var hún settur skólameistari í leyfi Hjalta Jóns Sveinssonar, fyrrv. skólameistara. 

„Það verða engar stórar breytingar hér í skólanum við það eitt að skipta um skólameistara. Ég hef ekki í hyggju að vera hér með einhvern berserksgang og umpóla öllu. Hér er fjölmargt sem virkar mjög vel og engin ástæða til að breyta. VMA hefur verið þekktur fyrir góðan starfsanda og því hefur starfsmannavelta hér verið hverfandi. Það skiptir öllu máli að þessi góði andi verði hér áfram,“ segir Sigríður Huld. „Auðvitað veit ég að miklu leyti að hverju ég geng því ég leysti Hjalta Jón af skólaárið 2011-2012, en vissulega eru aðstæður aðrar núna þegar ég hef verið skipuð í þetta starf. Verkmenntaskólinn stendur á traustum grunni og hefur alltaf verið í nánu samstarfi við okkar upptökusvæði og atvinnulífið.  Á því verður engin breyting og ég vonast til að skólinn verði alltaf opinn fyrir því að bregðast við ef krafa kemur úr nærsamfélaginu um t.d. nýtt námsframboð. Skólinn hefur verið að ganga í gegnum miklar breytingar á námsskrá til stúdentsprófs og sl. haust hófum við að kenna samkvæmt nýjum áherslum á stúdentsbrautunum. Eftir sem áður er megináherslan að búa nemendur á stúdentsbrautunum undir nám í háskóla. Við eigum hins vegar eftir að vinna nýjar brautarlýsingar í verknáminu og ég vonast til þess að við getum unnið markvisst að því núna á vorönn. Það liggur þó ekki fyrir nægilega skýr forskrift eða rammi af hálfu ráðuneytisins um verknámið, eins og lá fyrir vegna stúdentsbrautanna. En vonandi skýrast þau mál mjög fljótlega.“

Sigríður Huld segir það leggjast mjög vel í sig að taka við starfi skólameistara VMA. „Ég er mjög ánægð að geta haldið áfram með þessa námsskrárvinnu. Við höfum þá trú að við séum á réttri leið í þessum breytingum og að þessu verki hafa komið allir brautar- og fagstjórar hér og kennararnir og þannig hefur stór hópur fólks lagt hönd á plóg sem er mjög mikilvægt."

Verkmenntaskólinn á Akureyri er sem kunnugt er einn af stærstu og fjölbreyttustu skólum landsins. „Það eru ekki margir verknámsskólar hér á landi með svo fjölbreytt námsframboð og eru um leið bóknámsskólar. VMA hefur alltaf lagt áherslu á að bregðast við áskorunum úr nærsamfélaginu og á því verður engin breyting. Við erum með sveigjanleika í námsframboði og það er einnig mikill sveigjanleiki fyrir nemendur í sínu námi, varðandi til dæmis á hvaða hraða þeir taka nám sitt, möguleika þeirra á að taka fleiri en eina námsbraut o.s.frv. Það er í mínum huga afar mikilvægt að skólinn fái áfram að hafa þennan sveigjanleika.“

Sigríður Huld segir spennandi að byggja ofan á það góða starf sem hafi verið unnið í VMA í þau rösku þrjátíu ár sem skólinn hefur starfað. „Mín bíða mörg áhugaverð verkefni. Ég nefni til dæmis Fab Lab smiðjuna, sem ætlunin er að setja upp hér í skólanum og er miðað við að hún verði tilbúin næsta haust,“ segir Sigríður Huld, en hún er formaður stjórnar FabEy, hollvinafélags um stofnun og rekstur Fab Lab smiðjunnar. Í stjórninni eiga einnig sæti fulltrúar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, VMA (Benedikt Barðason), Akureyrarbæjar og Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar. „Annað verkefni sem ég tel mikilvægt að vinna að er svokölluð starfsþróun kennara. Í því felst að hlú að og styrkja starf kennarans með m.a. auknu framboði á styttri námskeiðum sem kennurum standi til boða, bæði hér innanhúss og utan, og leggja almennt meiri áherslu á að bjóða upp á fjölbreytta endurmenntun fyrir framhaldsskólakennarana. Í þessu tel ég að við þurfum að gera átak og ég vil beita mér fyrir því.“

Það er í mörg horn að líta þessa dagana hjá Sigríði Huld því hún er í senn skólameistari og aðstoðarskólameistari. Staða aðstoðarskólameistara hefur þegar verið auglýst á Starfatorgi og er umsóknarfrestur um stöðuna til og með 17. janúar nk. Sigríður Huld væntir þess að  aðstoðarskólameistari verði ráðinn fljótlega eftir að umsóknarfresturinn rennur út. Eins og nærri má geta vinnur aðstoðarskólameistari náið með skólameistara við stjórnun skólans, auk þess að vera staðgengill hans.

Og Sigríður Huld er einnig bæjarfulltrúi á Akureyri, var kjörin í bæjarstjórn í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Hún segist taka sér leyfi frá þeim störfum til að byrja með, á meðan hún sé að komast af stað í nýju starfi skólameistara, en hún muni síðan ljúka kjörtímabilinu sem bæjarfulltrúi við hlið hins daglega starfs skólameistara VMA, eins og hún hafi verið kjörin til.