Fara í efni

Kynna sér námsfyrirkomulag á Akureyri

Raili Sirgmets (t.v.) og Kristi Parm.
Raili Sirgmets (t.v.) og Kristi Parm.

Þessa viku eru tvær konur úr stjórnendateymi Rakvere verkmenntaskólans í Eistlandi – Kristi Parm og Raili Sigmets - í heimsókn í VMA til þess að kynna sér námsfyrirkomulag í skólanum og fá nýjar hugmyndir sem þeir hyggjast nýta sér við breytt fyrirkomulag náms í skólanum þeirra - sem er ríkisskóli - í Rakvere. Hér eru þær á fundi með Sigríði Huld Jónsdóttur skólameistara VMA.

Rakvere er um 16 þúsund manna bær austur af höfuðborginni Tallinn. Samnefndur verkmenntaskóli þar er rótgróinn – um aldargamall – en hefur tekið breytingum á síðustu áratugum og mun breytast enn frekar á næstu árum. Þær Kristi og Raili komu til Akureyrar til þess að kynna sér strauma og stefnur í skólamálum með það í huga að færa góðar hugmyndir heim í skólann þeirra í Rakvere, sem í eru á níunda hundrað nemendur. Auk VMA hafa þær í þessari viku m.a. heimsótt Menntaskólann á Akureyri, Háskólann á Akureyri og Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar.

Grundvallarmunurinn á VMA og Rakvere verkmenntaskólanum í Eistlandi felst í því að nemendur þar ytra eiga ekki jafn auðvelt með að velja saman námsáfanga og unnt er að gera í VMA. Þessu segja Kristi og Raili að vilji sé til þess að breyta. Raunar hafi fyrirkomulagið verið á þá lund að sextán ára gamlir þurfi nemendur meira og minna að velja sína námsleið og eftir það sé örðugt að víkja af þeirri braut. En þær segja að til standi að gera breytingu á þessu á haustmisseri þannig að að því loknu geti nemendur valið sína námsleið. Þannig fái nemendur innsýn í ólíkar brautir áður en til vals þeirra um framtíðarnám komi. Innsýn í námið í VMA og öðrum skólum á Akureyri segja Kristi og Raili að styrki þær mjög í því að breytingin á náminu í Rakvere verkmenntaskólanum í haust sé í rétta átt og eitthvað sem gæti orðið nokkuð almennt í skólakerfinu í Eistlandi.

Athyglisvert er að samkvæmt samtölum við þær stöllur er það nákvæmlega sama upp á teningnum í Eistlandi og hér á landi að of fáir nemendur velja að fara í verk- og tækninám – hlutfallið þar í landi er nálægt 30% en þyrfti að vera mun hærra til þess að anna eftirspurn á vinnumarkaði. Og það sama á við um Eistland og Ísland að tvær af fjölmennustu námsleiðunum á háskólastigi eru lögfræði og viðskiptafræði – og erfiðlega og nánast útilokað er fyrir alla þá sem útskrifast úr þessum greinum að fá vinnu við hæfi.