Fara í efni

Kynjafræði er búin að eyðileggja líf mitt!

Helga Guðrún Kristjánsdóttir.
Helga Guðrún Kristjánsdóttir.
Í tilefni af 16 daga átaki gegn kynjabundnu ofbeldi, sem hófst 25. nóvember sl. og lýkur á morgun, 10. desember, hafa nokkrir nemendur í VMA sett hugleiðingar sínar á blað. Áður höfum við birt hér á vefnum tvær slíkar greinar og hér birtist sú þriðja og síðasta, sem Helga Guðrún Kristjánsdóttir, nemandi í kynjafræði, skrifar.

Í tilefni af 16 daga átaki gegn kynjabundnu ofbeldi, sem hófst 25. nóvember sl. og lýkur á morgun, 10. desember, hafa nokkrir nemendur í VMA sett hugleiðingar sínar á blað. Áður höfum við birt hér á vefnum tvær slíkar greinar og hér birtist sú þriðja og síðasta, sem Helga Guðrún Kristjánsdóttir, nemandi í kynjafræði, skrifar.

"Klámvæðing kallast það þegar klám læðir sér inn í daglegt líf okkar án þess að við tökum eftir því. Það er hægt að rökræða það fram og til baka hvort það sé í raun eitthvað til sem heitir klámvæðing en að mínu mati þá ætti ekki að vera neinn efi um það. Klám er ekki lengur það sem það var. Með tilkomu internetsins er klám búið að þróast og orðið miklu öflugra en við gerum okkur grein fyrir. Með tímanum erum við líka orðin ónæm fyrir þessu. Þetta er bara eins og það er og hví ættum við eitthvað að vera að æsa okkur yfir þessu? Ég gerði mér til dæmis ekki fyllilega grein fyrir skaðsemi kláms og klámvæðingar fyrr en ég fékk markvissa fræðslu í kynjafræði.

Í gegnum önnina þá opnuðust augu mín fyrir því hvað klám umkringir okkur og hefur gegnumsýrt hegðun okkar og viðhorf. Frá því að við erum börn verðum við fyrir stanslausu áreiti af hálfu kláms. Vegna þess að þetta er allstaðar. Þetta er í auglýsingum, tónlistarmyndböndum og kvikmyndum. Eins og Gail Dines sagði í fyrirlestri sem hún hélt í Háskóla Íslands 2012, þá er ekkert til lengur sem heitir „softcore porn“ eða „mjúkt“ klám, þetta heitir í dag poppmenning. Það sést greinilega á tónlistarmyndböndum poppstjarnanna í dag. Rihanna er afbragðs dæmi um það. Í einu af hennar nýjustu tónlistarmyndböndum þá er hún auðvitað fáklædd og eru danshreyfingarnar vægast sagt tvíræðar. Hún situr öfug í stól og riðlast á honum. Hvað það hefur með lagið að gera er ég ekki alveg viss um. Þetta virðist snúast meira um að glenna sig og sýna á sér rassinn heldur en einhverja sönghæfileika. Listform sem áður gekk út á það að koma frá sér einhverjum skilaboðum er núna orðið keppni um hver getur sýnt sem mest hold án þess að það tæknilega teljist klám. Þetta eru skýr og greinileg merki klámvæðingar.

En klámvæðingu gætir ekki aðeins hjá poppstjörnunum heldur sjáum við þetta einnig í hegðun barna í íslensku samfélagi. Tökum sem dæmi facebook myndir stúlkna. Það er ekkert eðlilegt við stellingarnar sem kornungar stúlkur setja sig í á myndum. Þetta er lærð hegðun. Að fetta sig og bretta; rassinn og brjóstin út, maginn inn og myndavélin á helst að vísa niður til að sýna sem mesta skoru. Það að setja stút á varirnar er líka gríðarlega vinsælt, að virka fullorðinsleg en samt sem áður barnaleg og sakleysisleg á sama tíma. Það er engin tilviljun að þetta séu stellingar sem við sjáum í auglýsingum, tímaritum og tónlistarmyndböndum. Samfélagið er að gera kröfur til yngri og yngri barna að fullorðnast sem fyrst. Fatnaður þeirra verður fullorðinslegri og fullorðinslegri. Tólf ára stúlkur í magabolum og mínipilsum sem alla sína ævi hafa leikið með dúkkur í svipuðum fatnaði. Krakkar fá þessi skilaboð um hvernig þau eiga að líta út og hvernig þau eiga að hegða sér frá blautu barnsbeini.

Að halda að klámvæðingin hafi engin áhrif á okkar daglega líf hérna á litla Íslandi er barnaskapur. Við segjum við litlu stúlkurnar okkar að strákar sem stríða séu skotnir í þeim og svo fordæmir samfélagið konur sem skilja ekki við ofbeldisfulla eiginmenn. Samfélagið hyllir karlmenn fyrir að vera kvennagull vegna þess að það er karlmannlegt að sofa hjá mörgum konum en við köllum ekki konur kallagull. Við köllum þær lauslátar. Okkur er kennt að aðeins karlmenn vilja stunda kynlíf, að það sé það eina sem þeir hugsa um á meðan konur geri það bara af skyldurækni. Ótal grínþættir nota þetta sem brandara, karlinn gerir eitthvað af sér og þá segir konan „ekkert kynlíf fyrir þig“. Kynlíf er vopn í höndum okkar kvenna sem við notum gegn karlmönnum.

Vandamálið liggur í því að ungir krakkar eða unglingar fá kynfræðslu í gegnum klámið. Börn eru skuggalega ung þegar þau sjá klám í fyrsta skiptið. Er hægt að ætlast til að þau geri sér grein fyrir því að klám gefi ekki rétta mynd af kynlífi?

Undanfarin ár hafa svo lýtaaðgerðir á kynfærum kvenna aukist og fyrir því er oft engin læknisfræðileg ástæða. Unglingsstúlkur og konur eru að upplifa að það sé eitthvað að þeim og kynfæri þeirra séu ljót vegna þess að í klámi eru aðeins sýnd kynfæri með ákveðið útlit. Allt annað er ógeðslegt og ljótt. Auðvitað þarf líka að laga lafandi brjóst eftir brjóstagjöf. Það gengur ekki að það sjáist á líkamanum að konan sé búin að ganga í gegnum meðgöngu og barnsburð.

En klámvæðingin bitnar ekki einungis á konum. Þær eru augljósustu fórnarlömbin en þetta hefur líka neikvæð áhrif á karlmenn. Vegna þess að klám kennir ekki aðeins ákveðna kynferðislega hegðun heldur einnig ákveðna hegðun gagnvart konum. Klám kennir karlmönnum að koma fram á ákveðin hátt og geri þeir það ekki eru þeir minni karlmenn fyrir vikið. Þetta er skaðlegt fyrir samfélagið í heild og við ættum að sporna við þessu en ekki bara taka þessu sem eðlilegri þróun. Við þurfum ekkert að sætta okkur við þetta.

Kynjafræði hefur opnað augu mín fyrir þessu og gert það að verkum að ég er mun meðvitaðri um samfélagið í heild. Kynjafræði hefur eyðilagt líf mitt og gert það betra."