Fara í efni

Kennarar við VMA lýsa þungum áhyggjum af rekstrarvanda skólans

Kennarar við VMA segja skólann búa við fjársvelti.
Kennarar við VMA segja skólann búa við fjársvelti.

Kennarar við VMA lýsa yfir þungum áhyggjum af rekstrarvanda skólans og segja að hann megi rekja til þess að skólinn hafi búið við viðvarandi fjársvelti allt frá efnahagshruninu árið 2008. VMA glími við sömu erfiðleika í rekstri og fjölmargir aðrir framhaldsskólar í landinu, sem að mestu sé til kominn vegna vanáætlana í fjárlögum. Kennarafélag VMA hefur sent frá sér ályktun þar sem mótmælt er harðlega sem það kallar fjársveltistefnu ríkisvaldsins og stöðvun fjármálaráðuneytis á greiðslu rekstrarfjár til skólans.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hefur fjármálaráðuneytið í tvígang á þessu ári stöðvað greiðslu rekstrarfjár til VMA, fyrst á vorönn og nú aftur í upphafi þessa skólaárs vegna hallareksturs skólans. Þetta hefur þýtt að skólinn hefur átt í erfiðleikum með að kaupa inn rekstrarvörur og ekki hefur verið unnt að greiða aðra rekstrarreikninga eins og fyrir rafmagn og hita.

Í ályktun aðalfundar Kennarafélags VMA sl. föstudag segir að auðvelt sé að sýna fram á að hallarrekstur skólans sé að mestu tilkominn  vegna vanáætlana í fjárlögum til margra ára. Því fari fjarri að bruðlað sé með almannafé í skólanum, fjárveitingar frá ríkinu til skólans dugi einfaldlega ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum. „Ef fram heldur sem horfir þurfa skólayfirvöld að ganga með betlistaf milli fyrirtækja í bænum til að halda skólastarfinu gangandi,“ segir m.a. í ályktuninni.

Hermann Jón Tómasson, formaður Kennarafélags VMA, segir þessa stöðu með öllu óásættanlega. Hún setji skólastarfið í uppnám, starfsfólk sé að vonum áhyggjufullt og það sama megi segja um nemendur og forráðamenn þeirra. „Við óskum einfaldlega eftir því að fá frið til þess að vinna okkar vinnu með nemendum. Sú óvissa sem hefur verið uppi allt þetta ár og í raun meira og minna frá hruni er algjörlega óásættanleg og þessu verður að linna,“ segir Hermann Jón og bætir við að því fari fjarri að VMA sé eini framhaldsskólinn sem glími við þennan rekstrarvanda, um helmingur framhaldsskólanna í landinu sé einnig í mjög erfiðri stöðu. Þetta sé staðfesting á því að fjárveitingar til framhaldsskólanna í landinu séu einfaldlega of lágar og það hafi legið fyrir árum saman án þess að nokkuð sé að gert. Vísar Hermann Jón í þessu sambandi til skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í febrúar 2014 þar sem fjárskortur í framhaldsskólakerfinu sé áréttaður og því beint til viðkomandi ráðuneyta að bregðast við. „Þessi skýrsla segir einfaldlega að það þarf aukna fjármuni til framhaldsskólanna en við því hefur ekki verið brugðist og vandinn hefur bara aukist,“ segir Hermann Jón. Hann segir að hér sé einungis um daglegan rekstur að ræða en þar fyrir utan sé æpandi þörf á endurnýjun tækjabúnaðar í VMA, sem ekki hefur verið unnt að ráðast í til fjölda ára vegna þess að engar fjárveitingar hafi fengist til þess. Þetta eigi bæði við um kennslu í verknáms- og bóknámsdeildum, t.d. sé fyrir löngu tímabært að endurnýja tölvubúnað skólans.

Hermann Jón ítrekar að í grunninn sé ein meginástæða fyrir hallarekstri VMA að fjárveitingar ríkisins dugi ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum, þ.m.t. launagreiðslum og daglegum rekstri. „Svo virðist sem ríkið vanmeti áhrif ýmissa þátta sem fulltrúar þess hafa þó samið um við kennara. Þar má nefna aldursafslátt af kennslutíma, sem er töluverður í VMA vegna lítillar starfsmannaveltu, og viðbótarkostnað vegna síðustu kjarasamninga. Hér skeikar líkast til tugum milljóna í báðum tilvikum. Þessi viðbótarkostnaður hefur ekki fengist viðurkenndur eða leiðréttur af hálfu ríkisins,“segir Hermann Jón Tómasson.

Eftirfarandi er ályktun Kennarafélags VMA:

 

Ályktun um fjármál Verkmenntaskólans á Akureyri

Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur búið við fjársvelti allt frá hruni, ekki síst á síðustu tveimur árum. Skólinn hefur þess vegna verið rekinn með halla en auðvelt er að sýna fram á að sá halli er að mestu tilkominn vegna vanáætlana í fjárlögum. Það er ekki bruðlað með almannafé í VMA, fjárveitingar til skólans duga einfaldlega ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum. 

Verkmenntaskólinn gegnir lykilhlutverki fyrir norðlenskt samfélag og atvinnulíf. Frá skólanum hafa útskrifast milli sjö og átta þúsund nemendur frá upphafi. Á síðasta ári útskrifuðust 270 nemendur, þar á meðal 100 sveinar og meistarar í fjölmörgum og mismunandi iðngreinum.

Á þessu ári hefur tvisvar verið klippt á fjárveitingar til skólans og þannig komið í veg fyrir það að skólinn geti keypt nauðsynlegar rekstrarvörur. Ef fram heldur sem horfir þurfa skólayfirvöld að ganga með betlistaf milli fyrirtækja í bænum til að halda skólastarfinu gangandi. 

Kennarar í Verkmenntaskólanum á Akureyri mótmæla harðlega fjársveltistefnu ríkisvaldsins og stöðvun Fjármálaráðuneytis á greiðslu rekstrarfjár til skólans. Við skorum á alla velunnara skólans að kynna sér þetta mál og leggjast á árar með stjórnendum og starfsmönnum til að tryggja nauðsynlegt rekstrarfé þegar í stað. Við skorum á þingmenn og ráðherra að íhuga afleiðingar fjársveltistefnunnar fyrir nemendur og atvinnulíf og hvetjum þá til að endurskoða þegar í stað stefnu sína gagnvart skólanum.

Aðalfundur kennarafélags VMA