Fara í efni

Kennarar frá El Palo í Malaga í heimsókn í VMA

Marta Guillén (til vinstri) og Esther López, kennarar við El Palo framhaldsskólann í Malaga á Spáni.
Marta Guillén (til vinstri) og Esther López, kennarar við El Palo framhaldsskólann í Malaga á Spáni.

Í liðinni viku komu í heimsókn í VMA tveir kennarar frá framhaldsskólanum El Palo í Malaga á Spáni, Marta Guillén og Esther López, og kynntu sér kennsluna í VMA og íslenskt skólakerfi almennt. Marta kennir snyrtifræði og er auk þess með erlend samskipti á sinni könnu í El Palo en Esther kennir hársnyrtiiðn. Harpa Birgisdóttir og Hildur Salína Ævarsdóttir, kennarar í hársnyrtiiðn í VMA, hafa í þrígang farið til Malaga með hópa útskriftarnema og m.a. heimsótt El Palo og kynnt sér námið í hársnyrtiiðn og skólastarfið þar. Í þessum ferðum hafa því komist á góð tengsl milli Hörpu og Hildar og Mörtu og Esther og þess vegna kusu þær að koma í VMA og kynnast starfinu hér. Einnig fóru þær í heimsóknir í verknámsskóla á höfuðborgarsvæðinu en til Spánar flugu þær aftur sl. laugardag. Íslandsferð Mörtu og Esther var styrkt af Erasmus+ styrkjaáætlun ESB.

Fyrsta ferð Hörpu og Hildar með brautskráningarnema í hársnyrtiiðn til Malaga var í janúar 2020, aftur var farið í lok janúar 2022 og þriðja ferðin var í febrúar 2023. Núna er námshópur í hársnyrtiiðn á fjórðu önn en stefnt er að því að hann fari til Malaga að ári liðnu, á sjöttu og síðustu önn í náminu. Allar hafa þessar námsferðir verið styrktar af Erasmus+.

Heimsókn Mörtu og Esther til Íslands er liður í símenntun og að víkka út sjóndeildarhringinn og sjá eitthvað nýtt sem getur komið að gagni í kennslunni í El Palo. Þær kynntu sér skólastarfið í VMA eins og kostur var í þá þrjá daga sem þær voru á Akureyri í síðustu viku. Eitt og annað sögðu þær vera líkt í VMA og þær þekki frá El Palo en annað sé ólíkt. Þær höfðu orð á því að almennt þætti þeim ákveðin ró og yfirvegun einkenna skólastarfið í VMA, nemendur ynnu vel og ákveðið að sínum verkefnum. Þá þótti þeim húsakynni vera mun rýmri en þær ættu að venjast frá Malaga, einkum vinnurými kennara, og gaman væri að sjá þá hittast á milli kennslustunda til skrafs og ráðagerða yfir kaffibolla. Slíkt væri vart mögulegt í El Palo, enda dagskrá dagsins svo þéttskipuð. Þær lýstu mikilli ánægju með Íslandsheimsóknina og móttökurnar og sögðust vona að í kjölfarið gætu nemendur frá skólanum þeirra í Malaga sótt Akureyri heim, rétt eins og nemendur í hársnyrtiiðn í VMA víkkuðu út sjóndeildarhringinn með heimsóknum sínum til Malaga.

El Palo í Malaga er ríkisrekinn framhaldsskóli með nemendur í dagskóla og einnig er kvöldnám fyrir fólk sem tekur nám með vinnu. Meðal annars eru þar þrjár verklegar brautir, hársnyrtiiðn, snyrtifræði og garðyrkju, sem er raunar ný námsgrein við skólann.

Á vorönn stefna Harpa Birgisdóttir og Hildur Salína Ævarsdóttir að því að fara til Malaga og kynna sér skólastarf þar enn frekar. Mögulega fara einnig fleiri kennarar úr öðrum starfsnámsbrautum VMA, það kemur í ljós þegar nær dregur.