Fara í efni

Vel heppnuð námsferð til Malaga

Í heimsókn í skólann El Palo Instituto í Malaga.
Í heimsókn í skólann El Palo Instituto í Malaga.

Um liðna helgi komu nemendur og kennarar í hársnyrtiiðn í VMA heim eftir vel heppnaða hálfs mánaðar námsdvöl í Malaga á Spáni. Hildur Salína Ævarsdóttir kennari segir að ferðin hafi tekist mjög vel og verið lærdómsrík.

Sex nemendur á sjöttu önn í hársnyrtiiðn og kennarar þeirra, Hildur Salína og Harpa Birgisdóttir, fóru til Malaga 30. janúar sl. og þar tók við skipulögð dagskrá í m.a. hárakademíunni Grupo Nebro og í El Palo Instituto, sem er ríkisrekinn verkmenntaskóli sem kennir m.a. hársnyrtiiðn. Hildur segir að kynningarnar sem nemendur hafi notið á báðum stöðum hafi tekist mjög vel, nemendum sé mikilvægt að kynnast nýjum og spennandi hlutum.

El Palo Instituto var heimsóttur sl. miðvikudag og þar var m.a. kynning á umhverfisvænni hársnyrtingu, sem byggir á eigin ræktun. Nemendur fá að kynnast öllu ferlinu í framleiðslu á snyrtivörum, frá þróun og framleiðslu vöru til markaðssetningar.

Hér má sjá myndir sem voru teknar í þessari heimsókn í skólann, á myndunum eru nemendur og kennarar úr VMA og kennarar úr El Palo Instituto.

Hildur Salína segir að gagnkvæmur áhugi sé á nánari samskiptum og samstarfi VMA og El Palo Instituto og því hafi verið ákveðið í þessari heimsókn að báðir skólarnir sæki um Erasmus styrki til þess að kosta kennaraskipti í hársnyrtiiðn milli þeirra. Vonandi geti þessar hugmyndir orðið að veruleika.