Fara í efni

Íþróttafræði og hreyfing í fjarnámi

Nám á íþrótta- og lýðheilsubraut er blanda af bóklegu og verklegu. Í verklega hlutanum kynnast nemendur m.a. ýmsum íþróttagreinum og hefur sjónum verið beint að badminton og blaki á þessari önn. Þessum áfanga, sem Ólafur H. Björnsson og Ásdís Sigurvinsdóttir, hafa skipt með sér, hefur að vonum þurft að breyta en Ólafur segir að í þessu eins og öðru hafi nemendur og kennarar í samvinnu hagað seglum eftir vindi.

Ólafur kennir nemendum á íþrótta- og lýðheilsubraut íþróttafræði, sem er nokkuð viðamikill áfangi. Kennsla í þessum áfanga segir Ólafur að hafi færst í fjarkennslu í gegnum Google Meet og almennt hafi hún gengið nokkuð vel.

Ólafur kennir einnnig nemendum á fyrsta ári heilsueflingu, sem er blanda af verklegum og bóklegum kennslustundum. Í fjarnámi segir Ólafur að hafi verið farin sú leið að leggja fyrir nemendur að gera grein fyrir einhverri hreyfingu tvisvar í viku, eins og væri í stundaskrá í dagskóla, og senda af því myndir og myndbönd. Almennt segir Ólafur að þetta hafi gengið vel og hreyfing nemenda hafi greinilega verið af ýmsum toga, t.d. ganga, hlaup, styrktaræfingar og fjallganga. Auk þessarar hreyfingar séu lögð skrifleg verkefni fyrir nemendur.

„Þetta er vissulega mjög frábrugðið kennslu í dagskóla þar sem maður getur unnið beint með nemendum og maður er ekki vanur því sem íþróttakennari að sitja löngum stundum við tölvuna og kenna í gegnum hana. En þetta hefur engu að síður gengið bærilega vel, miðað við aðstæður. Ég lagði á dögunum heimapróf fyrir nemendur. Þetta var öðruvísi próf en gengur og gerist en þetta virkaði engu að síður. Í þessari stöðu þarf öðruvísi hugsun og nálgun,“ segir Ólafur.