Fara í efni

Í listsköpun og lærir rafeindavirkjun

Egill Logi Jónasson.
Egill Logi Jónasson.

Það er aldrei of seint að feta nýja slóð í námi og prófa eitthvað nýtt og framandi. Egill Logi Jónasson er skýrt dæmi um þetta.  Eftir að hafa lokið stúdentsprófi fyrir meira en áratug fór hann í listnám og síðar fór hann í grunndeild rafgreina í VMA. Þrjátíu og þriggja ára gamall stundar hann nú nám í rafeindavirkjun í VMA.

Egill Logi er Akureyringur. Hann fór á sínum tíma í MA og lauk þaðan stúdentsprófi árið 2009. Síðan lá leiðin í Myndlistaskólann á Akureyri og í framhaldinu fór Egill í myndalistanám í Listaháskóla Íslands. Um tíma var hann í skiptinámi í Finnlandi en lauk Listaháskólanum 2016. Egill bjó um tíma í Berlín en flutti síðan aftur heim til Akureyrar, hélt áfram í listsköpuninni og fór í nám í VMA.

Egill rifjar upp að þegar hann hafi lokið stúdentsprófi hafi hann verið mjög óráðinn hvað hann vildi taka sér fyrir hendur. Meðal annars hafi hann velt fyrir sér að nema sjávarútvegsfræði við HA, fannst það fljótt á litið nokkuð hagnýtt nám. Af því varð þó ekki og leiðin lá í Myndlistaskólann á Akureyri. Einn kennaranna þar, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, hvatti Egil til þess að halda áfram á listabrautinni. Fyrir hennar orð fór hann í Listaháskólann.

Til Berlínar fór Egill í kjölfar Listaháskólans og segir að það hafi verið áhugaverður tími, Berlín sé skemmtileg borg. Fyrir um fjórum árum segist Egill hafa ákveðið að  skipta um gír. Hann hafi hætt að drekka áfengi, hætt að reykja, gerðist vegan og fór að stunda ræktina.

Ný braut var einnig fetuð í námi á slóð rafiðngreina í VMA. Í þeim heimi hefur Egill verið undanfarin ár en jafnframt stundað myndlist og nú sýnir hann m.a. verk sín í Listasafninu á Akureyri. En af hverju að fara í grunndeild rafiðngreina í VMA og áfram í rafeindavirkjun? Egill rifjar upp að í áfanga hjá Finnboga Péturssyni í Listaháskólanum hafi hann fengið tækifæri til þess að læra að lóða og það hafi kveikt í honum að kíkja inn í rafheiminn. Og þegar kom að því að velja á milli rafvirkjunar og rafeindavirkjunar varð síðarnefnda greinin fyrir valinu. Egill sér ekki eftir því, námið sé áhugavert, kennararnir mjög góðir og nemendahópurinn skemmtilegur.

Í Kaktus í Listagilinu stundar Egill list sína við hliðar við námið í rafeindavirkjun. Ekki aðeins er hann í myndlistinni, sem fyrr skapar hann tónlist í ríkum mæli. Lærði m.a. á bassa hér á árum áður í Tónræktinni og Tónlistarskólanum á Akureyri. Egill er iðinn við kolann við að gefa út tónlist á streymisveitum, raunar vill hann halda því fram að hann sé afkastamesti tónlistarmaður landsins í útgáfu tónlistar.

Egill var með fyrirlestur um listsköpun sína í síðustu viku fyrir nemendur listnáms- og hönnunarbrautar VMA. Þar voru þessar myndir teknar.