Fara í efni

Hvernig er að vinna sem hönnuður á Íslandi?

Herdís Björk Þórðardóttir.
Herdís Björk Þórðardóttir.

Í dag, þriðjudaginn 13. mars, kl. 17-17.40 heldur Herdís Björk Þórðardóttir, hönnuður, fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Hönnuður á norðurslóðum - sjálfstætt starfandi á hjara veraldar

Í fyrirlestri sínum mun Herdís Björk fjalla um feril sinn og hvernig það er að vinna sjálfstætt sem hönnuður á Íslandi. Hún mun jafnframt segja frá vinnuferlinu og hvernig hún geti í raun unnið hvar sem er í heiminum svo framarlega að þar sé gott netsamband.

Herdís Björk Þórðardóttir útskrifaðist úr fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2003 og úr grafískri hönnun við sama skóla 2011. Hún útskrifaðist með kennsluréttindi á grunn- og framhaldsskólastigi 2009 frá Háskólanum á Akureyri. Hún starfar sem sjálfstæður hönnuður en sinnir jafnframt stundakennslu í lista- og hönnunarsögu við Menntaskólann á Akureyri. Hún hefur bæði unnið að eigin hönnun sem og tekið að sér verk fyrir aðra, allt frá merkingum til bókahönnunar og umbrots. Herdís Björk hefur einnig tekið þátt í ýmsum sýningum og ráðstefnum en þar má nefna: Arctic Design Week í Finnlandi á vegum Creative Momentum, HönnunarMars og sýningu Listasafnsins á Akureyri, Not – vöruhönnun á Norðurlandi.

Fyrirlestur Herdísar Bjarkar er í fyrirlestraröðinni Þriðjudagsfyrirlestrar í Ketilhúsinu sem er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri.

Aðgangur er ókeypis.