Fara í efni

Hvernig rjúfum við hefðirnar?

Nemendahópurinn sem kynnti lokaverkefni sín.
Nemendahópurinn sem kynnti lokaverkefni sín.

Hvernig er unnt að rjúfa þá ríku hefð að nær eingöngu stelpur fari í ákveðnar námsgreinar í framhaldsskóla og nær eingöngu strákar fari í aðrar ákveðnar námsgreinar? Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. En nemendur í markaðsfræði hjá Sunnu Hlín Jóhannesdóttur leituðust við í lokaverkefnum sínum að svara þessari stóru spurningu, hvernig væru mögulegt að vinna að því að breyta þessum staðalímyndum. Nemendum í áfanganum var skipt niður í þrjá hópa og hver þeirra kynnti verkefni sitt í síðustu tímum annarinnar í markaðsfræði í gær, fimmtudag. Sex nemendanna í áfanganum eru í Menntaskólanum á Akureyri en hinir nemendurnir úr VMA. Svo skemmtilega vildi til að einn nemendanna, Júlía Birta Baldursdóttir, átti afmæli í gær og af því tilefni var að sjálfsögðu boðið upp á köku í lok tímans.

Þessi verkefni eru hugsuð út frá átakinu Rjúfum hefðirnar þar sem horft er til jafnréttis kynjanna í menntun, starfsþjálfun og ráðgjöf ásamt því að brjóta upp kynbundnar staðalmyndir í náms- og starfsvali og vekja áhuga kvenna á hefðbundnum „karlastörfum“ og öfugt. Í VMA hefur sjónum verið beint að því hvernig unnt sé að fjölga stúlkum í tækninámi og strákum í hársnyrtiiðn og á sjúkraliðabraut.

Í þessum þremur verkefnum var mismunandi nálgun á hvernig mætti fá þessu breytt. Í einu verkefni var markhópurinn nemendur í 8. bekk grunnskóla, vegna þess að á þeim aldri séu nemendur ekki farnir í framhaldsskóla en þó farnir að huga að framtíðinni. Nemendurnir sáu fyrir sér að kynna hefðbundin karla- og kvennastörf fyrir báðum kynjum og leyfa grunnskólanemendunum að grípa í að vinna þessi störf. Í því skyni þyrfti að fá fyrirtæki til samstarfs og sömuleiðis að fá fjölmiðla til samstarfs.

Í öðru verkefni var horft til þess að byrja strax á leikskólanum og ná þannig að breyta staðalmyndum í bæði námi og á vinnumarkaði. Haft verði samband við stjórnendur leikskóla til þess að fá leyfi til þess að vinna að málinu og mögulega yrði unnið með foreldrum barnanna líka. „Við ætlum að fara með einhvers konar verkefni inn á leikskólana þar sem krakkarnir fá að spreyta sig á hinum ýmsu námsleiðum svo sem smíðum, hjúkrun, vélvirkjun og hárgreiðslu,“ segir m.a. í skýrslu nemendahópsins.

Í þriðja verkefninu er markhópurinn nemendur í efri bekkjum grunnskóla – frá 5. og upp í 10. bekk. „Við höldum að þetta sé besti aldurinn til þess að herja á. Á aldrinum 10-12 ára eru krakkar aðeins byrjaðir að hugsa um þetta. Krakkarnir á þessum aldri eru með gott ímyndunarafl og hugmyndaflug. En krakkarnir á aldrinum 13-16 ára hugsa mikið um hvað þau vilja gera í framtíðinni og íhuga oft flest sem stungið er upp á við þau. Við teljum að mestu líkurnar á því að þessi herferð muni virka er að vera í sambandi við verkmenntaskóla um allt land og fá þá til að hjálpa að dreifa boðskapnum svo að flestir krakkar á þessum aldri fái upplýsingarnar.“