Fara í efni

Hvað er nauðsynlegt og hvað er ekki nauðsynlegt?

Kristján Loftur Jónsson.
Kristján Loftur Jónsson.

Kristján Loftur Jónsson er átján ára Akureyringur – á raunar ættir að rekja út í Svarfaðardal – og stundar nám á listnáms- og hönnunarbraut VMA. Hann var fyrsta árið í grunnskóla í Lundarskóla og fór síðan í Síðuskóla. Hann rifjar upp að þegar komið var að því að velja framhaldsskóla hafi VMA verið valkosturinn vegna þess hversu fjölbreytt nám væri þar í boði. Hann segist ekki hafa verið harðákveðinn í því að fara á listnámsbraut en sá kostur hafi þó orðið ofan á og hann sjái ekki eftir því, námið sé afar fjölbreytt og gefi sýn á ólíka þætti listsköpunar.

“Ég hafði fundið mig ágætlega í myndmennt í grunnskóla og því má kannski segja að ekki hafi verið órökrétt að fara á listnámsbraut hér í VMA. Stóri kosturinn við þetta nám að mínu mati er hversu margt við fáum að prófa – grafík, skúlptúrar, málverk eða tölvuvinnsla. Módelteikningin hefur höfðað sterkt til mín og skúlptúrar – að móta eitthvað með höndunum,” segir Kristján Loftur. Hann stefnir að því að ljúka náminu um næstu jól.

Hér má sjá akrílverk sem Kristján Loftur málaði í áfanga hjá Björgu Eiríksdóttur og kallar "Flæktur auðveldleiki". Verkið hangir nú upp á vegg mót austurinngangi skólans. Það er um margt óvenjulegt og samanstendur af nokkrum litlum myndum þar sem snjallsíminn er í miðjunni. Verkið segir Kristján að  sé ákveðin skilaboð um það mikla áreiti sem sé fylgifiskur snjallsímans og sé ætlað að velta upp spurningunni um hvað sé nauðsynlegt í daglegu lífi og hvað ekki.

Kristján Loftur segir að nýir hlutir heilli sig, að takast á við eitthvað alveg nýtt og óþekkt. Hann stefnir að því að halda áfram á listabrautinni að lokinni útskrift úr VMA og skella sér í tónlistarnám. Hann segist ekki hafa mikið fengist við tónlist en langi að læra hana frá grunni og horfi því til þess að fara í tónlistarskóla. Hvað síðan gerist komi bara í ljós.

Með skólanum segist Kristján Loftur vinna við að elda fyrir gesti Hamborgarafabrikkunnar á Akureyri og hafi gert í hartnær tvö ár – í fullu starfi yfir sumarið og í hlutastarfi yfir veturinn með skólanum.