Fara í efni

Hvað er Launi launakarl?

Ingigerður og Hafsteinn með
Ingigerður og Hafsteinn með

Nemendur í áfanga í frumkvöðlafræði glíma við mörg áhugaverð verkefni. Eitt þeirra er stofnun vefsetursins www.launi.is sem er sérstaklega ætlað ungu fólki til þess að varpa ljósi á réttindi þess og skyldur á vinnumarkaði.

Í fréttum fyrr á þessu ári hefur komið fram að misbrestur hefur verið á því hversu vel  ungt fólk er meðvitað um réttindi sín og skyldur á vinnumarkaði. Í ljósi þess þótti nemendum í áfanga í frumkvöðlafræði hjá Helgu Ragnheiði Jósepsdóttur vöruhönnuði ástæða til að leggja höfuðið í bleyti og finna leið til þess að upplýsa ungt fólk betur um þessi mál. Út úr þessu hugarflugi nemendanna kom vefsetrið www.launi.is og einnig mun koma síðan um verkefnið á Facebook. Merki eða lógó verkefnisins er „Launi launakarl“.

Í þessum áfanga eru 22 nemendur og helmingur þeirra vann að launi.is og hinn helmingurinn þróaði aðra vöru sem verður gerð skil síðar á þessum vettvangi. Tveir nemendanna sem unnu að þróun www.launi.is eru Ingiríður Halldórsdóttir og Hafsteinn Svansson, sem bæði eru á viðskipta- og hagfræðibraut.  Þau  segja að það sé afar lærdómsríkt að takast á við slíkt raunhæft verkefni.

Ingiríður: Mér þykir mjög áhugavert að fá að fara nýjar leiðir með það sem maður er þegar búinn að læra. Í þessum áfanga erum við nemendurnir af ólíkum námsbrautum í skólanum og það er mjög gott að hafa mismunandi sýn á hlutina.
Hafsteinn: Við lærum mjög margt á því að vinna saman að svona verkefni. Við kynnumst því vel hvernig er að vera í sporum frumkvöðla, að afla peninga til verkefnisins, að koma sér á framfæri o.s.frv.
Ingiríður: Þetta vefsetur, www.launi.is, sem þegar er komið í loftið á netinu, gengur út á það að fá ungt fólk til þess að passa upp á sjálft sig á vinnumarkaði. Því  miður eru þess dæmi að fyrirtæki hafa ekki farið eftir settum reglum gagnvart ungu fólki við greiðslu launa o.fl. og því töldum við þörf á því að bæta úr þessu með því að setja upp einskonar upplýsingaveitu um þessi mál á netinu. Slagorðið okkar er; „Ekki láta svindla á þér“.
Hafsteinn: Hugmyndin er sú að þegar viðkomandi skráir sig inn á vefsíðuna geti hann fengið kynningu á því hvernig hann setur app með þessum upplýsingum inn í símann sinn.
Ingiríður: Við höfum átt samstarf um verkefnið við stéttarfélögin og þau eru mjög ánægð með þessa nýju leið til þess að koma upplýsingum á framfæri við ungt fólk. Það segir sína sögu um hversu illa ungt fólk er upplýst um þessi mál að samkvæmt könnun sem við gerðum meðal nemenda hér í VMA vissi aðeins um helmingur þátttakenda til hvaða stéttarfélags þeir höfðu greitt af launum sínum. Þetta segir okkur að það er mikil þörf á því að fara nýjar leiðir í því að koma nauðsynlegum upplýsingum til ungs fólks á vinnumarkaði.

Sjónvarpsstöðin N4 fjallaði um málið í fréttaþætti sínum 11. nóvember sl.