Fara í efni

Hér hefur mér liðið vel

Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari VMA.
Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari VMA.

Benedikt Barðason hefur verið ráðinn aðstoðarskólameistari VMA og hefur hann þegar hafið störf. Hann þekkir skólann mjög vel eftir að hafa starfað þar innan veggja í hartnær aldarfjórðung og starf aðstoðarskólameistara þekkir hann sömuleiðis eftir að hafa gegnt því tímabundið veturinn 2011-2012. Og nú færir hann sig um set innan VMA – úr stóli áfangastjóra yfir í stól aðstoðarskólameistara þar sem nýráðinn skólameistari, Sigríður Huld Jónsdóttir, hefur setið undanfarin ár.

„Að loknum níunda bekk grunnskóla hætti ég í skóla, vann fyrst um sumarið í fiski í landi og fór síðan á sjó. Næsta haust kom ég hingað í Verkmenntaskólann og tók grunndeild málmiðnaðar og á kvöldin tók ég nám til sjókokks og lauk því með réttindum til að vera sjókokkur á öllum fiskiskipum að 999 rúmlestum að stærð. Ég hafði í hyggju að halda áfram á sjónum en í stað þess að fara í Stýrimannaskólann, sem ég hafði hugsað mér, ákvað ég að stefna á að læra útgerðartækni, sem þá var kennd í Tækniskólanum. Ég fór í undirbúningsdeild hér, síðan raungreinadeild og lauk sem þá hét tæknistúdentsprófi á tveimur árum. Ég var síðan á leiðinni suður í útgerðartækninámið en í stað þess fór ég í Háskólann á Akureyri, sem þá var að hefja starfsemi, og nam iðnrekstrarfræði og útskrifaðist með tveggja ára diplómanám árið 1989. Ég fór síðan að huga að starfi og hafði raunar áður heyrt í Baldvini Bjarnasyni, sem þá leysti Bernharð Haraldsson af sem skólameistari VMA, og hann spyr mig hvort ég hafi einhverja tölvukunnáttu. Ég sagði honum að ég ætti að geta bjargað mér út úr því. Síðan fékk ég upphringingu um mitt sumar 1989 og ég spurður hvort ég væri fáanlegur til þess að koma og kenna við VMA. Ég hugsaði mig ekki um og spurði; „hvenær á ég að byrja?“ „Á morgun,“ var svarið. Það varð sem sagt úr að ég réð mig til starfa við VMA sumarið 1989 og hef verið hér meira og minna síðan. Ég fór að vísu síðar í uppeldis- og kennslufræði og á árunum 1994 til 1997 fór ég til Danmerkur og lærði þar efnatæknifræði. Þar rættist gamall draumur því ég hafði alltaf mikinn áhuga á raungreinum og ætlaði annað hvort í efnafræði eða líffræði. Að þessu námi loknu réðst ég aftur til starfa við Verkmenntaskólann og hef verið hér síðan,“ segir Benedikt. Áður en haldið var til Danmerkur kenndi hann í bland viðskipta- og raungreinar en að lokinni Danmerkurdvölinni var hann fyrst og fremst raungreinakennari.

Benedikt hefur langa reynslu af stjórnunarstörfum í VMA. Hann leysti fyrst af sem kennslustjóri öldungadeildar í leyfi Margrétar Kristinsdóttur um áramótin 1993-1994. Að loknu námi í Danmörku  1997 var hann fagstjóri raungreina og síðar var hann í afleysingum kennslustjóri viðskiptasviðs, sjúkraliða- og náttúrufræðibrautar og þar á eftir samfélagssviðs. „Ég hafði sjálfur ekki séð fyrir mér að mitt starf yrði að stórum hluta stjórnun en málin færðust smám saman í þann farveg. Ég kenndi síðan á árunum 2006 til 2008 en haustið 2008 leysti Sigríður Huld Hjalta Jón af sem skólameistara í nokkrar vikur og þá tók ég að mér með öðru nokkur verkefni sem aðstoðarskólameistari hafði með höndum. Um áramótin 2008-2009 hætti Jóhannes Árnason sem áfangastjóri og þá var ég fenginn til þess að taka það starf að mér og ég hef verið annar tveggja áfangastjóra skólans síðan, að því frátöldu að ég var hér aðstoðarskólameistari skólaárið 2011-2012 þegar Sigríður Huld gegndi starfi skólameistara í námsleyfi Hjalta Jóns. Ég hef því lítið verið í kennslu hér síðan í ársbyrjun 2009,“ segir Benedikt.

Þar sem Benedikt hefur gegnt starfi aðstoðarskólameistara um eins árs skeið, 2011-2012, þekkir hann það vel. Hann segir að efst á blaði í starfslýsingu aðstoðarskólameistara sé að vera staðgengill skólameistara. „Stóri munurinn á starfi áfangastjóra og aðstoðarskólameistara er sá að núna verða starfsmannamál á mínu borði. Aðstoðarskólameistari ber ábyrgð á kennsluskiptingu og launaröðun og útreikningar á vinnumati eru á hans borði. Áfangastjóri er í miklum samskiptum við nemendur í tengslum við stundatöflur en ýmis stærri nemendamál og samskipti við foreldra koma í hlut aðstoðarskólameistara og skólameistara og sömuleiðis ýmis mál er lúta að samskiptum við nemendaráð vegna félagslífsins í skólanum,“ segir Benedikt.

Nýráðinn aðstoðarskólameistari VMA telur að staða skólans sé sterk og hann njóti almennt virðingar. „Skólinn er í mjög góðu samstarfi við atvinnulífið og ég tel að hann njóti í auknum mæli velvilja í samfélaginu. Við höfum lagt áherslu á að skólinn einangrist ekki. Í því felst m.a. að nemendur fari í skiptinám út fyrir landssteinana og sömuleiðis hafa margir starfsmenn skólans tekið þátt í  athyglisverðum, evrópskum samstarfsverkefnum. Skólinn hefur ríku hlutverki að gegna fyrir Akureyri og allt Norðurland í atvinnusköpun. Það er athyglisvert að fjölmargir nemendur úr bæði verknámi og bóknámi hér í VMA hafa sett á stofn og stýra nýsköpunarfyrirtækjum sem hafa verið að gera góða hluti út um allan heim. Það gleður mig alltaf þegar ég sé að nemendur héðan reka fyrirtæki sem eru að spjara sig vel. Það er því engin spurning að Verkmenntaskólinn og það starf sem hér fer fram skiptir gríðarlega miklu máli fyrir allt þetta svæði. Og því má ekki gleyma að VMA er sá skóli sem skilar hlutfallslega flestum nemendum í nám við Háskólann á Akureyri. Við eigum mjög gott samstarf við þá stofnun og sömuleiðis erum við í nánu samstarfi við grunnskólastigið, sem er mjög mikilvægt til þess að draga úr því sem við getum kallað spennu á milli skólastiga. Við vinnum út frá þeim gildum og markmiðum sem sjá má á heimasíðu skólans. Við leggjum áherslu á að nemendum og starfsfólki líði vel í skólanum því að vellíðan skilar sér í betri vinnu og árangri. Hér hefur mér liðið vel og ef svo væri ekki væri ég fyrir löngu hættur og hefði snúið mér að öðru. Það kom mörgum á óvart þegar ég kom aftur til starfa hér eftir námsdvölina í Danmörku en það helgaðist fyrst og síðast af því að hér er góður starfsandi og hér hefur mér alltaf liðið vel,“ segir Benedikt Barðason.