Fara í efni

Haukur Eiríksson tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna

Haukur Eiríksson, brautarstjóri og kennari við rafiðnbraut VMA, er tilnefndur til Íslensku menntaver…
Haukur Eiríksson, brautarstjóri og kennari við rafiðnbraut VMA, er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2023.

„Þetta er skemmtilegt og mikill heiður. En fyrst og fremst er ég stoltur af því að vera tilnefndur sem kennari við þennan skóla,“ segir Haukur Eiríksson, kennari og brautarstjóri við rafiðndeild VMA, sem er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2023 í flokknum Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun. Tilnefningarnar voru gerðar opinberar í gær, á Alþjóðadegi kennara. Verðlaunin verða afhent á Bessastöðum í næsta mánuði.

Haukur er tilnefndur til verðlaunanna fyrir að leiða þróun rafiðnnáms í VMA með áherslu á farsæld nemenda og stöðugar umbætur í námi og kennslu. Í umsögn með tilnefningunni segir:

Haukur hefur undanfarin ár verið leiðandi í þróun og framsetningu á kennsluefni í rafiðngreinum. Hann var afar hugmyndaríkur og lausnamiðaður í Covid faraldrinum og hélt kennslu gangandi á frumlegan og skapandi hátt. Hann er yfirvegaður og hefur góða nærveru. Fyrir honum eru nemendur allir jafnir og hver og einn fær tækifæri til að nálgast námið á sínum forsendum. Haukur er afar góð fyrirmynd í starfi og einkalífi, bæði fyrir nemendur sína og samstarfsfólk.

Þessar myndir voru teknar í gær. Haukur Eiríksson fyrir utan VMA og einnig er hann að leiðbeina nemendum á fyrstu önn í grunndeild rafiðna.

Fyrrverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, stofnaði til Íslensku menntaverðlaunanna og veitti þau á árunum 2005-2011, þegar þau lögðust af í kjölfar efnahagshrunsins. Verðlaunin voru síðan aftur tekin upp árið 2020 og eru veitt í nóvember ár hvert. Tilnefningarnar eru gerðar opinberar á Alþjóðadegi kennara, 5. október.

Markmið Íslensku menntaverðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum.

Að Íslensku menntaverðlaununum standa:
Embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Mennta­vísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Samtök iðnaðarins og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.

Íslensku menntaverðlaunin eru veitt í fimm flokkum:

 1. Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur.
  Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr.
 2. Framúrskarandi kennari.
  Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki til kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
 3. Framúrskarandi þróunarverkefni.
  Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hafa ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.
 4. Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun.
  Ein verðlaun veitt kennara, námsefnishöfundi, skóla- eða menntastofnun fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar.
 5. Hvatningarverðlaun til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

Hér eru tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna árið 2023.

Þetta er þriðja árið í röð sem VMA/kennarar við VMA fá tilnefningu til Íslensku menntaverðlaunanna. Hilmar Friðjónsson, kennari í stærðfræði og viðskiptagreinum, var tilnefndur árið 2021 og árið 2022 var hársnyrtibraut VMA/ Hildur Salína Ævarsdóttir og Harpa Birgisdóttir, tilnefnd

VMA óskar Hauki Eiríkssyni innilega til hamingju með tilnefninguna.