Fara í efni

Grís rokkar - þriðja sýningarhelgin

Grís verður sýndur í kvöld og annað kvöld.
Grís verður sýndur í kvöld og annað kvöld.

Þá er komið að þriðju sýningarhelginni á rokksöngleiknum Grís í uppfærslu Leikfélags VMA. Óhætt er að segja að sýningin hafi fengið frábærar viðtökur leikhúsgesta enda er hún afar fjörleg og litrík og ljóst að leikhópurinn hefur lagt gríðarlega mikið á sig til þess að koma þessu öllu heim og saman. 

Sýnt verður í kvöld, föstudaginn 5. mars kl. 20:00, og voru síðdegis í gær aðeins örfáir miðar eftir á þá sýningu. Einnig verður sýning annað kvöld, laugardagskvöldið 6. mars kl. 20:00, og þar voru líka eftir nokkrir miðar síðdegis í gær. Sýningarnar verða í Gryfjunni í VMA.

Síðustu auglýstar sýningar á Grís verða að viku liðinni, föstudaginn 12. mars og laugardaginn 13. mars, kl. 20:00 bæði kvöldin. Ef selst upp á þær sýningar verður skoðað að bæta við fleiri sýningum. Nú þegar er búið að opna fyrir miðasölu á þessar síðustu auglýstu sýningar.

Hægt er að panta miða með því annað hvort að hringja í síma 7934535 milli kl. 16 og 19 virka daga eða senda tölvupóst á netfangið midasala@thorduna.is. Miðana fá sýningargestir afhenta við innganginn og greiða þar fyrir þá – hvort sem er með kortum eða peningum. Miðinn kostar 3.900 fyrir fullorðna en fyrir börn f. 2005 og yngri kostar miðinn kr. 3.400.