Fara í efni

Gera við raftækin og lengja líftímann

Guðmundur Geirsson gerir við KitchenAid hrærivél.
Guðmundur Geirsson gerir við KitchenAid hrærivél.

Á síðasta ári var ýtt úr vör einskonar vinnusmiðju á Akureyri þar sem fólki er boðið að koma með biluð raftæki og njóta aðstoðar fagfólks við að laga það sem aflaga hefur farið. Þessi ratækjavinnusmiðja er til húsa í húsnæði FabLab í VMA og þar var opið hús í síðustu viku. Þrír fagmenn voru á svæðinu og lögðu fólki lið endurgjaldslaust, Guðmundur Geirsson, kennari í rafiðngreinum í VMA, Jón Þór Sigurðsson, sem stýrir FabLab Akureyri, og Ólafur Pálmi Guðnason, forritari og kennari á námskeiðum í FabLab.

Þetta verkefni heitir á ensku „Restart project“  og byggir á erlendri fyrirmynd. Nú þegar hefur slíkri vinnustofu verið komið á fót á Ísafirði og á síðasta ári hóf hún starfsemi á Akureyri. Hugmyndafræðin er að fólk getið komið með biluð raf- og rafeindatæki og notið aðstoðar sjálfboðaliða sem kunna til verka til þess að koma tækjunum í lag, endurgjaldslaust. Ætlunin er, að sögn Hólmars Svanssonar, sem var einn þeirra sem kom þessu verkefni af stað á Akureyri, að hafa slíkar vinnustofur einu sinn í mánuði í vetur og því er um að gera að fara að huga að því að koma með raftæki, sem kynnu að þjást af einhverri smávægilegri bilun sem fyrir fagfólk er auðvelt að laga, á næstu vinnustofu.

Hér leggst fjölmargt á eitt. Í fyrsta lagi að lengja líftíma tækjanna og spara eigendum þeirra þar með fjármuni. Í öðru lagi er umhverfisvitundin hér mikilvægur þáttur. Í síðustu viku var greint frá úttekt Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaviðskiptabankans þar sem koma fram afar sláandi upplýsingar. Ætla megi að að 50 milljónir tonna af raftækjum endi á ruslahaugum heimsins á ári hverju, að verðmæti um 7.000 milljarðar króna.

Á viðgerðarvinnustofunni í liðinni viku kom fólk með ýmsa hluti til lagfæringar – snjallsíma, spjaldtölvu, geislaspilara, lampa og KitchenAid hrærivél. Í flestum tilfellum var unnt að laga það sem aflaga hafði farið og þar með var líftími tækjanna lengdur og komið í veg fyrir að þyrfti að fara með þau á gámasvæði til endurvinnslu/förgunar. Þar með er tilgangi Restart-Ísland náð.