Fara í efni

Útivist er endalaust nám

Göngufólk í Gamla sl. þriðjudag.
Göngufólk í Gamla sl. þriðjudag.

Útivist er einn af valáföngum vorannar. Eins og nafnið gefur til kynna er áhersla lögð á útivist og hvað beri að hafa í huga þegar glímt er við íslenska náttúru. Einnig er skotist inn, t.d. farið á skauta og í klifur.

Fyrsta útivistarferð vorannar var sl. þriðjudag þegar Kristján Bergmann Tómasson (Mummi) kennari fór með nemendur, sem eru skráðir átján í útivistaráfangann af hinum ýmsu brautum skólans, í göngutúr frá Hömrum, sunnan Akureyrar, og upp í skálann Gamla. Annar kennari, Arnór Bliki Hallmundsson, var með í för.

Þetta var um tveggja tíma ganga, fram og til baka, við nokkuð krefjandi aðstæður. Mikla aðgæslu þarf að sýna eftir þá miklu hláku sem hefur verið að undanförnu. Svell hafa myndast víða og því betra að hafa varann á. Í ljós kom að aðeins tveir úr hópnum höfðu áður komið upp í Gamla, en full ástæða er til að hvetja fólk til þess að ganga þangað og njóta útivistar, árið um kring.

Mummi sagði að gangan í Gamla hafi verið mjög ánægjuleg og góð byrjun á önninni. Framundan sé ýmislegt skemmtilegt. Hann muni hitta hópinn í hverri viku fram á vorið og margt verði á dagskrá, m.a. bretti og skíðaganga í Hlíðarfjalli og margt fleira. Næsti tími verður hins vegar í Skautahöllinni á Akureyri, þar sem reynir á færni og jafnvægi í skautaíþróttinni.

Mummi er heldur betur á heimavelli þegar kemur að útivist. Hvergi líður honum betur en út í náttúrunni, hvort sem er á hjóli, tveimur jafnfljótum í göngutúr upp um fjöll og firnindi eða á skíðum eða bretti. Og það má halda því fram að Mummi sé atvinnu útivistarmaður því hann er leiðbeinandi hjá Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar og er einn fjögurra höfunda bókarinnar Snjóflóð: Ferðahegðun, mat og björgun sem kom út á síðasta ári. Hann hefur því mikla reynslu af útivist og segist ætla að ausa úr sínum þekkingarbrunni á önninni.

Hér er viðtal við Mumma frá því í mars á síðasta ári í hlaðvarpinu Fjallakastið, þar sem rætt er m.a. um snjóflóð frá ýmsum hliðum en Mummi hefur persónulega reynslu af ofurkrafti snjóflóða.

Í upphafi gönguferðar segist Mummi fræða nemendur um mikilvægi þess að vera í góðum gönguskóm og að göngufólk klæði sig miðað við aðstæður. Hann geri grein fyrir tilgangi göngustafa og ræði almennt um mikilvægi góðra samskipta innan gönguhóps. „Staðreyndin er sú að flest slys á fjöllum verða vegna þess að samskiptin eru af ýmsum ástæðum ekki í lagi,“ segir Mummi og bætir við að ferðafélagar þurfi að fara yfir og vera vel meðvitaðir í upphafi ferðar um hvað gera skuli ef vandamál komi upp.

„Þá skiptir máli að vera sveigjanlegur í markmiðum, við verðum að vera með plan b og helst líka c ef aðstæður eru ekki eins og gert var ráð fyrir eða þær breytast. Og það sem er mikilvægast; það er aldrei skömm að því að snúa við,“ segir Mummi og bætir við: „Ég fer líka yfir hvað ég er með í bakpokanum mínum; sjúkrapúði, gps, súkkulaði og rúsínur, auka úlpa, auka vettlingar, vatn og fleira. Þá er mikilvægt að skilja eftir sig áætlun eða hið minnsta láta aðra vita hvert förinni er heitið og vera með fullhlaðinn síma ef eitthvað fer úrskeiðis. Þetta ásamt ýmsu öðru er það sem ég fræði nemendur um í svona ferðum og bendi þeim á að í hverri einustu ferð sem ég fer er ég alltaf að læra eitthvað nýtt. Útivist er endalaust nám,“ segir Mummi.