Fara í efni

Gaman á grunnskólakynningu!

Áhugasamir nemendur kynna sér listnámsbraut.
Áhugasamir nemendur kynna sér listnámsbraut.

Það var sannarlega líflegt í VMA í gær þegar á fimmta hundrað grunnskólanemendur sóttu skólann heim og kynntu sér hvað hann hefði upp á að bjóða. Nemendur komu víðs vegar að af Norðurlandi og margir nemendur – í það minnsta úr skólum fjarri Akureyri – notuðu tækifærið og kynntu sér einnig starf MA. Slógu sem sagt tvær flugur í einu höggi í haustblíðunni.

Kennarar tóku á móti nemendahópunum og fóru með þá í skólastofur þar sem þeir fræddu nemendur um skólastarfið frá ýmsum hliðum. Síðan lá leið þeirra í miðrými skólans – M01, þar sem nemendur úr deildum skólans fræddu gesti um hverja deild. Margt fangaði auga nemenda, eitt af því var lukkuhjól viðskipta- og hagfræðibrautarnema. Síðan fóru nemendur um skólann og kynntu sér deildirnar. Þar á meðal var ýmislegt að sjá í rafiðnaðarbaut, sömuleiðis lá leið margra á matvælabraut, á málmiðnaðarbraut og listnámsbraut.

Sem fyrr segir komu nemendur víða að af Norðurlandi – flestir komu frá Akureyri, en síðan komu fjölmargir úr skólum í Eyjafirði, t.d. Dalvíkurskóla og Valsárskóla á Svalbarðsströnd og þá kom fjöldi nemenda úr byggðum vestan Tröllaskaga og einnig austan Vaðlaheiðar, t.d. mættu galvaskir nemendur 10. bekkjar í Reykjahlíðarskóla í Mývatnssveit.

Þetta var ánægjulegur dagur í alla staði og sérstaklega gaman að fá þessa áhugasömu grunnskólanemendur í skólann. Bestu þakkir fá nemendur og kennarar þeirra fyrir komuna í VMA í gær og sömuleiðis er nemendum VMA færðar þakkir fyrir þeirra þeirra góðu vinnu við námskynninguna.