Fara í efni

Fyrsta útskrift nýsveina í hársnyrtiiðn á Akureyri

Fjórar af fimm nýsveinum í hársnyrtiiðn.
Fjórar af fimm nýsveinum í hársnyrtiiðn.

Fimm nýsveinar í hársnyrtiiðn voru formlega útskrifaðir sl. laugardag og fór útskriftarathöfnin fram í Þrúðvangi, húsakynnum matvælabrautar VMA. Nemendurnir tóku sveinsprófið á Akureyri í febrúar sl. en sl. laugardag var komið að útskrift og er þetta í fyrsta skipti sem nýsveinar í hársnyrtiiðn fá skírteini sín afhent við útskrift á Akureyri. Þrír nemanna luku á sínum tíma grunnnáminu í VMA en tveir í Hárakademíunni í Reykjavík.

Ívar Sigurharðarson og Helga Hafsteinsdóttir, hársnyrtimeistarar á Akureyri, sem bæði eru í sveinsprófsnefnd, afhentu nýsveinunum sveinsprófsskírteinin.

Helga Hafsteinsdóttir segir sérlega ánægjulegt að loksins hafi það skref verið stigið að útskrifa nýsveina hér norðan heiða með formlegum hætti og vonandi sé þetta fyrirkomulag komið til að vera. Hún segir einnig ánægjulegt að ekki sé lengur sú regla í gildi að ákveðinn lágmarksfjölda þurfi til þess að sveinspróf í hársnyrtiiðn sé haldið á Akureyri.

Allar fimm konurnar sem fengu afhent sveinsprófskírteini sín afhent sl. laugardag starfa á hársnyrtistofum á Akureyri.

Fjölskyldur nýsveinanna voru við útskriftina sem og hársnyrtimeistarar og kennarar við grunnbraut hársnyrtiiðnar í VMA.

Hér eru myndir sem voru teknar við þetta tækifæri.