Fara í efni

Fyrsta breiðskífa Axels Flóvents komin út

Axel Flóvent.
Axel Flóvent.

Þann 23. maí 2015 brautskráðust 123 nemendur frá VMA. Eins og gengur gátu ekki allir verið viðstaddir útskriftina, þar á meðal Húsvíkingurinn Axel Flóvent. Hann var fjarverandi vegna þess að sama dag var hann að flytja tónlist sína á lista- og tónlistarhátíðinni Saga Fest í Árborg.

Verkmenntaskólaárin höfðu verið mótandi í tónlist Axels, hann hafði einbeitt sér að því að semja og koma á framfæri tónlist sinni samhliða námi sínu á myndlistarlínu listnám- og hönnunarbrautar VMA, þaðan sem hann útskrifaðist sem stúdent.

Í frétt sem birtist hér á heimasíðunni í nóvember 2014 segir frá því að Axel hafi gert útgáfusamning við lítið fyrirtæki í Newcastle í Bretlandi, Trellis Record og frekari fréttir er af honum í apríl 2015.

Rúmlega fimm árum síðar er Axel Flóvent ennþá á fullu við að semja og flytja tónlist og kom fyrsta stóra platan hans, „You Stay by the Sea“ formlega út sl. föstudag. Hún var plata vikunnar á Rás 2 í síðustu viku.

Óhætt er að segja að margt hafi á daga Axels drifið á þeim rúmlega fimm árum sem liðin eru síðan hann lauk námi frá VMA.

„Þetta er fyrsta breiðskífan sem ég sendi frá mér en á liðnum fimm árum hef ég gefið út um tuttugu lög á smáskífum. Nýja platan er aðgengileg á streymisveitum og er einnig seld í gegnum heimasíðuna mína á vinyl, geisladisk og kassettu. „Á plötunni er blanda af efni sem ég hef verið að vinna að síðustu sjö árin. Hluta af þessum lögum samdi ég meira að segja á meðan ég var í VMA en hef ekki gefið þau út áður,“ segir Axel.

„Ég gaf út mína fyrstu smáskífu, Forest Fires, hjá Trellis Record og í kjölfarið spilaði ég á Iceland Airways í nóvember 2015. Í framhaldinu skrifaði ég undir einskonar prufusamning við Sony í Amsterdam um áramótin 2015-2016 og vann með þeim að útgáfu annarrar smáskífu minnar, Quet Eyes. Ég flutti til Amsterdam árið 2017, mér fannst á margan hátt þægilegra að vera nær skrifstofu Sony og einnig var ég töluvert að túra í Evrópu.
Þegar þarna var komið sögu hafði ég áhuga á því að gefa út heila plötu en umboðsskrifstofa Sony í Amsterdam var ekki á sama máli og vildi bíða með það og taldi betra að gefa út smáskífur og safna efni á stóra plötu og jafnframt að fjölga þeim sem vildu hlusta á tónlistina mína. Ég var ekki alveg sammála þessu og úr varð að ég hætti að vinna með Sony. Á árinu 2018 flutti ég til Brighton á Englandi og gaf sjálfur út mína þriðju smáskífu. Í lok þess árs flutti ég aftur heim til Íslands. Í janúar 2019 hafði útgáfufyrirtækið Nettwerk Music Group, sem er með höfuðstöðvar sínar í Kanada, samband og sýndi áhuga á samstarfi við mig. Sá sem hringdi í mig var á skrifstofu fyrirtækisins í Los Angeles í Bandaríkjunum og sagðist hafa fylgst lengi með mér og sýndi því áhuga að fyrirtækið gerði við mig útgáfusamning. Það varð úr og samningurinn felur í sér útgáfu á þremur plötum. Nýja platan mín, sem kom út sl. föstudag, er sú fyrsta af þremur. Þegar ég fékk símtalið frá Nettwerk Music Group hafði ég safnað lögum sem gætu passað vel á plötuna og ég kláraði síðan að semja efni á hana. Platan var tekin upp í London sumarið árið 2019 og síðan hafa verið gefnar út smáskífur en nú er platan sem sagt loksins komin út,“ segir Axel.

„Draumurinn var að gefa út plötu og nú hefur hann ræst. Tónlistin hefur verið það sem ég hef starfað við síðustu sex árin. Auðvitað hefur þetta gengið upp og niður eins og lífið er sjálft. Þetta hefur verið lærdómsríkt ferli og í raun eins og hörku háskólanám. Ég hef m.a. lært ýmislegt varðandi fjármál og viðskipti við fólk, að vinna með útgáfufyrirtækjum og umboðsmönnum,“ segir Axel. Hann segir að Covid 19 hafi vissulega sett strik í sinn reikning eins og annarra tónlistarmanna. „Ég hef nýtt tímann til þess að semja nýtt efni og undirbúa næstu skref. Það er ólíklegt að ég muni koma fram á tónleikum fyrr en undir lok þessa árs eða í byrjun næsta árs og því vil ég nýta tímann til þess að semja efni á næstu plötu,“ segir Axel og lýsir ánægu með samstarfið við Nettwerk Music Group. „Samningurinn við þá er það besta sem fyrir mig hefur komið í tónlistinni. Þeir veita mér frelsi til þess að þróast í þá átt sem ég vil í tónlistinni en hafa öll tól til þess að hjálpa mér í markaðsetningu og kynningu á tónlistinni minni,“ segir Axel.

Hann tekur undir að tónlistin hans hafi breyst og þróast töluvert á undanförnum árum, hann sé opnari fyrir að prófa ýmislegt nýtt. „Sjálfum finnst mér tónlistin mín hafa breyst en síðan er spurningin hvað fólki finnst,“ segir Axel. „Mér finnst alltaf mjög erfitt að skilgreina það sem ég er að gera en oft set ég hana undir Indie Folk Music, sem er tónlistarheimur sem á íslensku er oft skilgreindur sem nútíma þjóðlagatónlist.“

Síðastliðinn föstudag ræddu Arnar Eggert Thoroddsen og Andrea Jónsdóttir um nýju plötuna hans Axels, You Stay by the Sea, í þættinum Popplandi á Rás 2 og er óhætt að segja að þau hafi farið lofsamlegum orðum um hana. Þau tala um plötuna á 53:50 mínútu þáttarins.

Gaman er að bera saman frændurnar Axel Flóvent og Ásgeir Trausta. Hljóðheimurinn hefur á vissan hátt samsvörun en er þó gjörólíkur. Einar Georg Einarsson, faðir Ásgeirs Trausta og afi Axels (móðir Axels er dóttir Einars Georgs og systir Ásgeirs Trausta) hefur samið marga texta við lög Ásgeirs Trausta en hins vegar hefur Axel ekki sótt texta í smiðju afa síns. Hann semur alla sína texta sjálfur og finnst þeir vera stór hluti og ómissandi í sinni tónlistarsköpun. Allir hafa textarnir hingað til verið á ensku en Axel útilokar ekki að einn góðan veðurdag sendi hann frá sér lag með íslenskum texta.

Hlustunarhópur Axels er nokkuð breiður en hann telur að hlutfallslega hlusti flestir á hann á aldrinum 20-30 ára „en á tónleikum hef ég líka séð marga miðaldra feður og mæður. Á sínum tíma þegar ég var að vinna með Sony var töluverð áhersla lögð á hollenska markaðinn og ég veit að ég hef ennþá töluverða hlustun þar. Það sama má segja um Bandaríkin, því staðreyndin er sú að Bandaríkjamenn elska íslenska tónlist. Einnig veit ég að margir eru að hlusta á tónlistina mína í Kanada, Þýskalandi og Bretlandi.
Nákvæmlega núna er ég staddur á Hallormstað á Héraði, þar sem móðir mín býr, og nýti hér kyrrðina til þess að semja nýja tónlist. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að búa áfram á Íslandi, líklega á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Axel.

Að lokum er vert að vekja athygli á nýju plötunni hans Axels. Hér má heyra og sjá myndband við eitt af lögunum á plötunni, Still Awake.