Fara í efni

Axel Flóvent gerir útgáfusamning í Bretlandi

Myndlistarneminn og tónlistarmaðurinn Axel Flóvent
Myndlistarneminn og tónlistarmaðurinn Axel Flóvent

Axel Flóvent Daðason, nítján ára nemandi á myndlistarkjörsviði listnámsbrautar VMA, hefur gert samning við breska fyrirtækið Trellis Records um útgáfu á tónlist hans á annars vegar netinu og hins vegar smáskífu sem mun heita „Forest Fires“. Fyrsta lagið sem útfgáfan gefur út er „Beach“ sem Axel samdi sl. sumar og setti í júlí sl. á netið á síðuna https://soundcloud.com/ Eftir það fóru hlutirnir heldur betur að rúlla og nokkur útgáfufyrirtæki sýndu hinum unga tónlistarmanni áhuga. Hlutirnir þróuðust þannig að Axel samdi við Trellis Records, sem er lítið útgáfufyrirtæki í Newcastle, og mun það gefa út tónlist Axels í Bretlandi næstu tvö árin. Það lokar þó ekki á útgáfu annarra fyrirtækja á tónlist hans í öðrum löndum, þar á meðal Íslandi.

Ellefu ára gamall byrjaði Axel að semja tónlist þegar hann bjó með fjölskyldu sinni í Danmörku og hefur gert það síðan.  Þegar hann var þrettán ára flutti hann til Húsavíkur . Móðir hans, Anna Birna Einarsdóttir, býr á Húsavík en faðir hans, Þorvaldur Daði Halldórsson í Hafnarfirði. Tónlistargenin koma  úr báðum ættum. Faðir hans er liðtækur hljóðfæraleikari og tónlistin er sannarlega fyrir hendi í móðurættinni því Anna Birna, móðir hans, og Ásgeir Trausti eru hálfsystkini, samfeðra. Einar Georg Einarsson, faðir þeirra og afi Axels, samdi stóran hluta af textunum á metsöluplötu Ásgeirs Trausta, Dýrð í dauðaþögn, sem kom út fyrir tveimur árum. Axel semur hins vegar öll sín lög og sömuleiðis texta, sem eru á ensku.

Axel samdi „Beach“ sl. sumar þegar vann sumarlangt á Hótel Hallormsstað. Dags daglega vann hann við uppvask en frítímann nýtti hann m.a. til þess að semja tónlist. Þetta lag varð þannig til að hann samdi það um leið og hann spilaði það inn. Öll þau fjölmörgu lög sem Axel hefur samið og má víða finna, m.a. á Soundcloud.com og einnig á tónlistarveitunni Youtube, hefur hann að hljóðritað sjálfur og í flestum lögunum spilar hann á öll hljóðfærin og syngur. Þannig er það í „Beach“ sem verður formlega gefið út í Bretlandi á vegum Trellis Record 15. desember nk. Þá verður það aðgengilegt á Spotify tónlistarveitunni og fyrir iTunes.  Eftir áramót er áætlað að gefa út annað lag Axels í Bretlandi en seinna á næsta ári mun smáskífan „Forest Fires“ koma þar út en á henni verða fimm lög; Forest Fires, Dancers, Beach, Northern Lights og Nightlife. Smáskífan verður gefin út á netinu og einnig verður hún gefin út á diski í 300 eintökum. Eins og sjá má á heimasíðu Trellis Records er fjallað um Axel Flóvent á forsíðu síðunnar, enda er hann nýjasti tónlistarmaðurinn á vegum útgáfunnar.

Í kringum páska á næsta ári er verið að skipuleggja tónleikaferð Axels og hálfbróður hans, Þóris Georgs Jónssonar, sem einnig hefur lengi verið í tónlistarsköpun, í Bretlandi. Gert er ráð fyrir að tónleikunum skipti þeir bræður með sér, Axel flytji sjálfur sitt efni og Þórir Georg sitt efni.

Axel flutti tónlist sína á Iceland Airways í október sl. og fékk þar fínar viðtökur. Með honum var Rakel Sigurðardóttir, 22ja ára söngkona og fiðluleikari á Akureyri. „Við kynntumst síðastliðið sumar á Hótel Hallormsstað þar sem við unnum bæði. Við fórum að prófa að spila saman og síðan hefur þetta þróast á þann veg að við höfum komið fram saman og spilað og sungið lögin mín. Þetta gekk mjög vel á Iceland Airways og við munum næst koma fram miðvikudagskvöldið 3. desember á Backpackers hér á Akureyri,“ segir Axel. „Ég gaf út sex lög á diski í janúar á þessu ári. Þetta var meira svona til gamans gert. Starfsfólkið á Hótel Hallormsstað spilaði diskinn gjarnan á meðan á morgunmatnum stóð og gestunum virtist líka það vel við tónlistina að ég seldi slatta af disknum þar.“

Þegar hlustað er á tónlist Axels kemur upp í hugann að hún smellpassi við kvikmyndir. Axel segist oft hafa heyrt þetta og hann geti vel hugsað sér að vinna einhvern tímann tónlist fyrir kvikmyndir. En hvernig skilgreinir Axel sjálfur tónlist sína? Hann segir að kannski megi skilgreina hana sem „Indie Folk Music“.  Þessi skilgreining segir kannski ekki mikið, en óhætt er að segja að tónlist hans er öðruvísi, hann fer sínar eigin leiðir og fyrir það vekur tónlistin athygli, rétt eins og þegar frændi hans Ásgeir Trausti kom fyrst fram með sína tónlist.

„Ég er mjög sáttur við að taka það skref að koma tónlist minni á framfæri í Bretlandi og vonandi fæ ég góð viðbrögð þar. Nú þegar hafa um 24 þúsund manns hlustað á „Beach“ í gegnum  https://soundcloud.com/ og ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð og fólk hefur haft samband við mig og spurt hvenær von sé á meira efni frá mér. Ég hef alltaf átt mér þann draum að vinna við tónlist og ég vona að þetta sé fyrsta skrefið í þá átt. Til þessa hef ég hljóðritað sjálfur alla mína tónlist en ég hef mikinn áhuga á því að hljóðrita efni  í stúdíói undir stjórn annarra,“ segir Axel.

Hann segist í gegnum tíðina hafa hlustað á allskyns tónlist. Þegar hann var polli á Húsavík segist hann hafa meðal annars hlustað á AC/DC og Iron Maiden og samið tónlist í anda þessara þungarokkshljómsveita. „Ég hlusta nú ekki mikið á þessa tegund tónlistar lengur. En mér finnst gott að hlusta á öðruvísi tónlist en ég er sjálfur að semja. Til dæmis finnst mér gott að hlusta á tónlist þegar ég er úti að ganga. Ég hef töluvert verið að horfa að undanförnu á sjónvarpsþætti frá sjöunda áratugnum og þar má oft heyra djasstónlist. Ég hafði ekki áður hlustað á djass en núna elska ég hann,“ segir Axel.

Sem fyrr segir er Axel nemandi á myndlistarkjörsviði listnámsbrautar VMA. Hann tók á sínum tíma fyrsta árið í framhaldsskóla í sínum heimabæ, Húsavík, en fór síðan á listnámsbraut VMA og sér ekki eftir því. Hann segist mjög sáttur við námið og það henti sér vel. Stefnan er að ljúka náminu næsta vor og eftir það segist hann stefna suður og ef allt gangi upp horfi hann til þess að vinna þar áfram að sinni tónlistarsköpun.

Á meðfylgjandi mynd af Axel Flóvent situr hann fyrir framan akrílmálverk sem hann hefur verið að vinna að núna á haustönn. Í myndinni koma fyrir öll nöfnin á lögunum á hinni væntanlegu smáskífu hans, „Forest Fires“ – þ.e.  Forest Fires, Dancers, Beach, Northern Lights og Nightlife.