Fara í efni

Allt að gerast hjá Axel Flóvent

Axel Flóvent Daðason.
Axel Flóvent Daðason.

„Það hefur verið svo mikið að gera að undanförnu að ég hef ekki haft mikinn tíma til þess að setjast niður og semja nýja tónlist en núna þegar ég sé fyrir endann á náminu hér í VMA gefst mér meiri tími til þess að semja nýtt efni. Það liggur fyrir að ég mun algjörlega einbeita mér að tónlistinni næsta sumar og áfram,“ segir Axel Flóvent Daðason, nemandi á listnámsbraut VMA og tónlistarmaður. Axel útskrifast af myndlistarkjörsvviði listnámsbrautar í maí.

Tónlistin hefur átt hug Axels og hjarta frá því að hann var ungur drengur. Hann byrjaði að semja tónlist þegar hann bjó með fjölskyldu sinni í Danmörku, þá ellefu ára gamall. Tveimur árum síðar lá leiðin til Húsavíkur og allar götur síðan hefur Axel fengist við að semja, spila og hljóðrita eigin tónlist. Á síðasta ári gerði Axel samning við útgáfufyrirtæki í Newcastle í Englandi, Trellis Records og síðan hefur ýmislegt gerst.

„Ég  fékk umboðsmann, Sindra Ástmarsson, í byrjun þessa árs og hann hefur hjálpað mér gríðarlega mikið, bæði hér á landi og erlendis. Trellis Records, sem mun 25. maí næstkomandi gefa út smáskífu með lögunum mínum, gaf þann 1. apríl út lag af henni, titillagið „Forest Fires“, og það hefur fengið mjög góðar viðtökur.  Lagið fékk góða kynningu á nokkrum stöðum sem skipti verulegu máli, m.a. á „The Line of Best Fit“, sem er þekkt tónlistarblogg í Bretlandi, og eftir það komst lagið inn á topp fimmtán lista á vefsíðunni Hype Machine, sem má segja að sé einskonar topplisti fyrir nýja tónlist. Þar komst „Forest Fires“ í þrettánda sæti. Og á þessum tæpa mánuði sem lagið hefur verið inni á Soundcloud tónlistarveitunni hafa meira en hundrað þúsund manns hlustað á lagið. Það hefur einnig fengið fínar viðtökur hér á landi og komst á vinsældalista Rásar 2,“ segir Axel og upplýsir að annað lag af væntanlegri smáskífu (EP – Extended Play) verði innan fárra daga sett í hlustun. Lögin af smáskífunni verður hægt að hlusta á og hlaða niður á Spotify og iTunes tónlistarveitunum. Í framhaldinu mun Axel fara að vinna að upptökum á breiðskífu, hann áætlar að gera það á komandi sumri, og hún komi út bæði á geisladiski og vinylplötu.

Axel segir að „Forest Fires“ og önnur lög sem væntanleg eru 25. maí á EP séu eldri lög sem hann hafi hljóðritað upp á nýtt í hljóðveri í Reykjavík fyrr á þessu ári. Það hafi skipt miklu máli til þess að ná betri hljómi og fyllingu í tónlistina. Öll lögin og textar, sem allir eru á ensku, syngur Axel sjálfur og hann spilar á bróðurpart hljóðfæranna.

Ljóst er að á næstunni mun Axel kynna tónlistina sína hér á landi og hefur hann fengið nokkra hljóðfæraleikara í lið með sér. „Það verður nóg að gera hjá mér í sumar í tónlistinni. Auk þess að vinna að breiðskífunni í hljóðveri vonast ég til þess að spila sem mest. Það liggur fyrir að ég mun koma fram á lista- og tónlistarhátíðinni Saga Fest í Árborg helgina 23.-24. maí, sem þýðir að ég get því miður ekki verið við útskrift VMA 23. maí. Einnig kem ég fram á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í Reykjavík 19.-21. júní.“

En áður eiga Akureyringar og nærsveitamenn þess kost að sjá Axel Flóvent flytja tónlist sína hér norðan heiða því hann kemur fram á Græna hattinum nk. föstudagskvöld ásamt hljómsveitinni Vio, sem sigraði Músíktilraunir árið 2014.

Axel segist vera virkilega ánægður með hvernig hlutirnir hafi þróast fyrir hann í tónlistinni á síðustu mánuðum. Hann hafi lengi átt sér þann draum að koma tónlistinni sinni á framfæri og sá draumur sé nú að verða að veruleika. „Ég var þó alltaf með það í huga að hella mér ekki allt of mikið út í þetta fyrr en ég væri búinn með listnámið hér í VMA. Og þetta hefur alltaf smellpassað. Hlutirnir eru núna virkilega að gerast þegar ég er að klára námið. Ég er mjög sáttur,“ segir Axel en sem fyrr segir er hann að ljúka námi af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar.

Eins og áður hefur komið fram hefur áherslan til þessa verið á Bretland en Axel seigr að Bandaríkin séu líka spennandi markaður, enda eigi tónlist eins og hann sé að skapa ekki síður upp á pallborðið þar. „Forest Fires hefur vissulega vakið athygli í Bretlandi, t.d. komst það inn á „play-lista“ í BBC. En ég veit einnig af útvarpsstöð í Bandaríkjunum þar sem lagið hefur verið spilað. Ég veit að ég er oft borinn saman við þá tónlistarmenn sem hafa verið mínir helstu áhrifavaldar í gegnum tíðina og það er mjög skemmtilegt. Mér finnst mjög gaman þegar ég fæ e-meil frá fólki sem er að hlusta á tónlistina mína og biður mig um að senda sér textana. Og það er líka mjög skemmtilegt að sjá þegar fólk tekur sig til úti í heimi og gerir flott myndband við „Forest Fires“ og setur á netið. Það er gaman að fylgjast með því hvaðan fólkið er sem er að hlusta á lagið á netinu. Þessa vikuna eru flestir hlustendur frá Suður-Kóreu en einnig er mikil hlustun á það í t.d. Bandaríkjunum og Kanada,“ segir Axel Flóvent.