Fara í efni

Fyrrum nemandi VMA doktor í sameindalíffræði

Ásmundur Oddsson fyrir utan gamla skólann sinn.
Ásmundur Oddsson fyrir utan gamla skólann sinn.
Ásmundur Oddsson útskrifaðist stúdent frá VMA árið 2001 og fór að því loknu til náms í Þýskalandi. Fyrr á þessu ári lauk hann doktorsprófi í sameindalíffræði í Stokkhólmi. Hann flutti í kjölfarið heim til Íslands og starfar nú hjá Íslenskri erfðagreiningu við erfðarannsóknir. Ásmundur var einn þeirra starfsmanna Íslenskrar erfðagreiningar sem voru í VMA í gær og fyrradag að safna lífsýnum fyrir ÍE.

Ásmundur Oddsson útskrifaðist stúdent frá VMA árið 2001 og fór að því loknu til náms í Þýskalandi. Fyrr á þessu ári lauk hann doktorsprófi í sameindalíffræði í Stokkhólmi. Hann flutti í kjölfarið heim til Íslands og starfar nú hjá Íslenskri erfðagreiningu við erfðarannsóknir. Ásmundur var einn þeirra starfsmanna Íslenskrar erfðagreiningar sem voru í VMA í gær og fyrradag að safna lífsýnum fyrir ÍE.

„Ég er fæddur á Akureyri . Þegar ég var fimm ára gerðist faðir minn kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit og við bjuggum í Reykárhverfinu. Grunnskólann tók ég því á Hrafnagili,“ rifjar Ásmundur upp.  „Í VMA fór ég síðan haustið 1996 og ég valdi hann vegna þess að ég vildi hafa möguleika til þess að velja mér þá leið sem mig langaði að fara. Ég valdi að fara á náttúrufræðibraut og áfangakerfið hentaði mér mun betur en bekkjakerfið. Ég var einn vetur í Þýskalandi sem skiptinemi og því seinkaði mér í hinu hefðbundna námi í VMA um eitt ár. Ég lauk náminu hér vorið 2001.“

Ásmundur var ákveðinn í því að halda strax áfram námi og hann horfði út fyrir landssteinana. „Ég hafði ekki áhuga á því að fara til Bretlands eða Bandaríkjanna og danskan hefur alltaf verið mín slakasta námsgrein, þannig að Danmörk kom ekki til greina. Þýskaland var því niðurstaðan og ég sótti um nám í mannlíffræði og var einn af 25 nemendum sem voru teknir inn í það nám á þessum tíma. Það kom fljótlega í ljós að ég hafði fengið góðan grunn í VMA í greinum eins og til dæmis efnafræði. Á sama tíma og það var mikið fall í efnafræðinni í náminu í Þýskalandi gekk mér ágætlega að fóta mig í henni. Sömuleiðis hafði ég ágætan grunn í þýsku úr VMA og einnig hjálpaði það mér auðvitað að hafa verið skiptinemi í Þýskalandi einn vetur. Þegar ég horfi til baka var efnafræðikennslan í VMA þess eðlis að hún kveikti áhuga á þessu fagi og um leið komst maður yfir þann þröskuld að mikla fagið ekki fyrir sér. Ég hafði líka alltaf haft mikinn áhuga á líffræði og grunnurinn sem ég fékk hér í raungreinunum varð til þess að mig langaði til þess að halda áfram á þessari braut.
Ég var í fimm ár í þessu námi í Þýskalandi og undir lokin, árið 2005, var ég í hálft ár Erasmus skiptinemi á Karolinska sjúkrahúsinu Stokkhólmi. Í framhaldinu bauðst mér að fara þar í doktorsnám, sem ég þáði. Ég hóf því doktorsnám í Stokkhólmi í sameindalíffræði árið 2006 og lauk því í lok júní síðastliðnum,“ segir Ásmundur.

Leiðbeinandi og prófessor Ásmundar í doktorsnáminu á Karolinska er Íslendingur og þekkir vel til Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar.  Í gegnum þau tengsl starfaði Ásmundur hjá ÍE í nokkra mánuði á síðasta ári. Í framhaldinu bauðst honum síðan fullt starf hjá fyrirtækinu á liðnu sumri, sem hann þáði og flutti þá heim til Íslands eftir meira en áratug í námi í útlöndum.
„Ég starfa hjá tölfræðideild Íslenskrar erfðagreiningar og þar erum við að vinna úr þeim miklu gögnum sem fyrirtækið býr yfir. Sjálfur hef ég mestan áhuga á sjaldgæfum sjúkdómum. Í stórum dráttum erum við að rannsaka áhugaverða erfðabreytileika og leitumst við að tengja þá við sjúkdóma. Þessum upplýsingum komum við síðan á framfæri í m.a. vísindatímaritum. Þetta er afar áhugavert og fjölbreytt starf, enda eru hvergi annars staðar í heiminum til jafn góðar erfðaupplýsingar og hér á landi. Nú þegar er búið að raðgreina hátt í þrjú þúsund Íslendinga. Einnig er búið að taka svokallað hnit í erfðamengi meira en 100 þúsund Íslendinga. Þegar þetta er allt sett saman erum við með erfðaupplýsingar fyrir tæpan helming þjóðarinnar. Þetta er einstakt í heiminum. Við þetta bætast síðan bæði sjúkdóma- og ættfræðiupplýsingar,“ segir dr. Ásmundur Oddsson.