Fara í efni

Fundað í WorkQual í Hereford

Þrír af fjórum fulltrúum VMA í Hereford.
Þrír af fjórum fulltrúum VMA í Hereford.

Annar fundur í verkefninu WorkQual - Workmentoring within a Quality Management System, sem er verkefni sem VMA stýrir innan Erasmus+ áætlunar ESB, var haldinn í Hereford á Englandi skömmu fyrir páska.  Fundinn sóttu af hálfu VMA Jóhannes Árnason, sem annast erlend samskipti innan VMA og stýrir WorkQual af hálfu skólans, Ari Hallgrímsson  brautarstjóri matvælabrautar,  Guðmundur Ingi Geirsson, kennari rafiðngreina og Hrafnhildur S. Sigurgeirsdóttir        gæðastjóri.

Síðastliðið haust fékk VMA styrk til þess að stýra þessu alþjóðlega þróunarverkefni innan Erasmus+ áætlunarinnar. Fyrsti fundurinn í verkefninu var haldinn í VMA um miðjan nóvember sl. og annar fundur í verkefninu var síðan í Hereford.  Verkefninu verður síðan fram haldið á þessu og næsta ári. Samstarfsaðilar VMA í verkefninu eru stofnanir í Noregi, Finnlandi, Hollandi, Frakklandi og Englandi.

WorkQual verkefnið felur í sér að taka saman og staðla það nauðsynlegasta sem þarf að gera og hafa tilbúið þegar skólar senda nemendur í vinnustaðanám.  Til dæmis má nefna að sjúkraliðanemar í VMA fara í vinnustaðanám á sjúkrastofnunum, bæði innanlands og utan.  Aðrar námsbrautir senda nemendur ýmist í stuttan tíma til að kynnast vinnustöðum eða að nemar fara á lengri námssamning í iðngreinum. 

Á fundinum í VMA í nóvember sl. var rætt um fyrirkomulag verkefnsins og hvað þurfi að undirbúa og hverju þurfi að ganga frá þegar nemendur fara í vinnustaðnám.  Ennfremur var haldið málþing þar sem fengin voru nokkur innlegg um það hvað þarf að passa þegar skólar senda nemendur á vinnustaði. 

Í Hereford var rætt áfram um vinnustaðanámið frá ýmsum hliðum; val á vinnustöðum og að fá þá til samstarfs, að undirbúa annars vegar vinnustaðinn og hins vegar nemandann fyrir vinnustaðanámið, vinnustaðanámið sjálft og loks námsmat og mat á vinnustaðanáminu.

Jóhannes Árnason hefur haft fyrir venju að skrifa ferðasögur þegar hann fer vegna samstarfsverkefna.  „Okkur finnst að fundurinn í Hereford hafi tekist vel.  Margir af hinum þátttakendunum hafa mikla reynslu af því að fylgjast með nemendum á vinnustöðum.  Við fórum yfir fjölmargt sem þarf að hafa í huga þegar verið er að skipuleggja þetta og við lærum mjög mikið.  Okkur finnst að þetta verkefni falli mjög vel að þeim breytingum sem er líklegt að verði á næstunni í íslenskum framhaldsskólum.  Ef skólarnir eiga að taka ábyrgð á öllu námi nemenda, bæði í skólanum og í þjálfun á vinnustöðum, þarf að undirbúa það og tileinka sér skipulag og vinnubrögð við slíkt.“

Sem fyrr segir lýkur WorkQual verkefninu á næsta ári. Næsti fundur í verkefninu verður í Harderwiijk í Hollandi í september. Síðan verður fundað í Nantes í Frakklandi í apríl að ári liðnu og lokafundurinn verður í Þrándheimi í september 2016.