Fara í efni

VMA á fulltrúa á Euroskills í Herning - sem hefst í dag

Einar Örn Ásgeirsson, annar tveggja nemenda úr VMA sem keppa fyrir Íslands hönd í Herning. Mynd: Raf…
Einar Örn Ásgeirsson, annar tveggja nemenda úr VMA sem keppa fyrir Íslands hönd í Herning. Mynd: Rafiðnaðarsamband Íslands.

Spennan magnast óneitanlega, því í dag hefst Euroskills - Evrópumót iðn- og verkgreina í Herning í Danmörku og stendur það fram á laugardag. Frá Íslandi fara þrettán keppendur, þar af eru tveir fyrrverandi nemendur í VMA; annars vegar Daniel Francisco Ferreira í rafvirkjun (húsarafmagni) og hins vegar Einar Örn Ásgeirsson í rafeindavirkjun. Einnig verða fjórtán svokallaðir „expertar“ eða sérfræðingar íslensku keppendunum til halds og trausts og munu þeir einnig dæma á mótinu - í þeim hópi verða m.a. kennarar við rafdeild VMA.

Einars Arnar bíða áhugaverð verkefni í forritun, hönnun á tölvubrettum (PCB), smárásum og bilanagreiningar, svo eitthvað sé nefnt. Í viðtali við Einar á vef Rafiðnaðarsambandsins kemur m.a. fram undirbúningurinn fyrir mótið hafi verið honum mikill og góður lærdómur og segist hann stefna á háskólanám í forritun í framtíðinni. 

Einari og Daniel fylgja hlýjar óskir frá VMA um gott gengi á Euroskills.