Fara í efni

Fyrst og fremst spenntur að takast á við þetta

Nú er á lokastigi undirbúningur keppenda Íslands fyrir Evrópumót iðn- og verkgreina – Euroskills en mótið verður haldið í Herning í Danmörku 9. – 13. september nk. Þrettán keppendur frá Íslandi mæta til leiks í Herning og auk þeirra verða 14 „expertar“ (sérfræðingar), keppendum til halds og trausts og munu þeir einnig dæma á mótinu.

Það er ekki hægt að segja annað en að rafdeild VMA eigi verðuga fulltrúa á Euroskills að þessu sinni því tveir fyrrverandi nemendur skólans keppa fyrir Íslands hönd, annars vegar Daniel Francisco Ferreira í rafvirkjun (húsarafmagni) og hins vegar Einar Örn Ásgeirsson í rafeindavirkjun. Tveir kennarar úr rafdeildinni í VMA verða síðan „expertar“ á mótinu og dæma í keppninni, Friðrik Óli Atlason og Þórhallur Tómas Buchholz. Fjórir aðrir kennarar úr rafdeildinni ætla að fara til Herning og fylgjast með keppninni sem og Benedikt skólameistari VMA.

Það er ekki lítið verkefni að undirbúa sig fyrir slíkt mót og þar leggja margir hönd á plóg. Í rafiðngreinum er Rafiðnaðarsambandið öflugur bakhjarl og vegna m.a. stuðnings þess hafa bæði Daniel Francisco Ferreira og Einar Örn Ásgeirsson getað einbeitt sér undanfarna mánuði að undirbúningum fyrir mótið í Herning.

„Síðustu þrjá mánuði hef ég eingöngu verið að undirbúa mig fyrir keppnina,“ segir Daniel Francisco Ferreira, en hann er bæði útskrifaður rafvirki og rafeindavirki frá VMA og það sama á við um Einar Örn.

„Ég hef verið í stöðugum og endurteknum æfingum, að setja upp verkefni og taka þau niður. Ég höfum fengið æfingaverkefni sem eru eins og verkefnið sem ég fæ í Herning að því frátöldu að 30% af því verða óvænt og eiga að koma manni á óvart. Það er því mikilvægt að vera vel undirbúinn. Mér skilst að það verði sextán þátttakendur í húsarafmagni. Fyrirfram veit ég ekki hvar ég stend í samanburði við hina þátttakendurna, það verður að koma í ljós. Fyrst og fremst er ég spenntur að takast á við þetta, þó svo að þessu fylgi líka ákveðið stress. En ég lít svo á að þetta sé frábært tækifæri fyrir mig og ég ætla að njóta þess. Fyrst og fremst vil ég skila því vel sem ég hef verið að æfa á undanförnum mánuðum. Í framhaldinu, eftir keppnina, er ég viss um að þessi reynsla mun nýtast mér mjög vel í starfi mínu sem rafvirki,“ segir Daniel Francisco Ferreira.

Auk allra þeirra miklu æfinga sem keppendur, þar á á meðal Daniel Francisco Ferreira, leggja á sig í aðdraganda keppninnar í Herning hafa íslensku keppendurnir verið vel undirbúnir andlega því það er mikið andlegt álag að fara í gegnum slíka keppni. Tíminn er takmarkaður og pressan umtalsverð í kastljósi áhorfenda.

Dr. Erlendur Egilsson sálfræðingur, sem unnið hefur um árabil með afreksíþróttamönnum og öðru keppnisfólki, hefur að undanförnu verið að undirbúa íslensku keppendurna fyrir mótið og hann verður þeim til halds og trausts á mótstað í Herning. Íslensku keppendurnir fara til Herning 7. og 8. september og keppnin sjálf stendur síðan í þrjá daga. Verkiðn stendur að framkvæmd þátttöku Íslands á Euroskills.