Fara í efni

Stífar æfingar fram að Euroskills 2025

Einar Örn Ásgeirsson er hér við í æfingahúsnæði Rafiðnaðarsambandsins í Reykjavík í æfingum fyrir Eu…
Einar Örn Ásgeirsson er hér við í æfingahúsnæði Rafiðnaðarsambandsins í Reykjavík í æfingum fyrir Euroskills. Hér mun hann sitja meira og minna í sumar, að lokinni brautskráningu sem rafvirki frá VMA, fram að keppninni í Herning í september nk.

Fyrir rúmum tveimur árum kepptu Daniel Francisco Ferreira (rafvirkjun) og Einar Örn Ásgeirsson (rafeindavirkjun) fyrir hönd VMA í Íslandsmóti iðn- og verkgreina í Laugardalshöll. Báðir stóðu þeir sig með mikilli prýði og nú undirbúa þeir sig af fullum krafti fyrir Euroskills 2025 – Evrópumót iðn- og verkgreina sem fram fer í Herning í Danmörku 9.-13. september nk. 

Daniel er útskrifaður rafeinda- og rafvirki frá VMA en Einar Örn er útskrifaður rafeindavirki frá VMA og útskrifast frá skólanum núna í maí sem rafvirki.

Í Euroskills taka þrír keppendur frá Íslandi þátt í rafiðngreinum: Daniel keppir í húsarafmagni, Einar Örn í rafeindavirkjun og þriðji keppandinn er Gunnar Guðmundsson og keppir í iðnaðarrafmagni. Þjálfari Daniels er Maríanna Ragna Guðnadóttir, Þórhallur Tómas Buchholz, kennari í rafiðngreinum í VMA, þjálfar Einar Örn og þjálfari Gunnars er Sigurður Freyr Kristinsson.

Euroskills er haldið annað hvert ár, rétt eins og Íslandsmót iðn- og verkgreina, og vegna þess að þátttaka í Euroskills krefst mikils undirbúnings og þjálfunar segir Þórhallur Tómas kennari og þjálfari Einars Arnar að ákveðið hafi verið að fara þá leið að velja til þátttöku nemendur sem kepptu á Íslandsmótinu fyrir tveimur árum en ekki keppendur á Íslandsmótinu sem fór fram fyrir nokkrum vikum. Með þessu móti gefist þátttakendum kostur á að safna dýrmætri reynslu í sarpinn og æfa sig af kostgæfni fyrir keppnina á Euroskills.

Sannarlega leggja þátttakendur í rafiðngreinum frá Íslandi sálina í þátttöku á Evrópumótinu í september nk. Til marks um það tók Daniel nýverið þátt í keppni í rafvirkjun í Króatíu og þar stóð hann raunar uppi sem sigurvegari. Einar Örn er þessa viku í Turku í Finnlandi þar sem hann tekur þátt í Taitaja, landsmóti iðn- og verkgreina í Finnlandi, sambærilegu við Íslandsmót iðn- og verkgreina.

Sem fyrr segir er Þórhallur Tómas Buchholz þjálfari Einars Arnar og hafa þeir í vetur hist reglulega og farið í hin ýmsu atriði sem þurfa að vera á hreinu þegar komið er út í keppnina. Að lokinni brautskráningu sem rafvirki núna í maí fer Einar Örn suður yfir heiðar og verður þar í allt sumar að æfa sig fyrir keppnina. Rafiðnaðarsambandið er afar öflugur bakhjarl og leggur honum og hinum keppendum Íslands til mjög góða æfingaaðstöðu og gerir þeim og þjálfurum þeirra kleift að koma eins vel undirbúnir til Herning og kostur er.