Fara í efni

VMA á „Mín framtíð 2023‟ í Laugardalshöllinni

VMA er á Mín framtíð 2023 í Laugardalshöllinni.
VMA er á Mín framtíð 2023 í Laugardalshöllinni.

Í dag, fimmtudaginn 16. mars, hefst í Laugardalshöllinni í Reykjavík „Mín framtíð 2023‟ - Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynning. VMA verður með kynningarbás í Laugardalshöllinni þar sem starfsemi skólans verður kynnt og í sama bás verður kynning á starfsemi Heimavistar MA og VMA. Þá munu nokkrir nemendur VMA taka þátt í Íslandsmóti iðn- og verkgreina.

Í bás VMA í Laugardalshöllinni verða Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari, Helga Júlíusdóttir námsráðgjafi, Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari, og Anna María Jónsdóttir, sviðsstjóri verknáms.

Þessi framhaldsskólakynning og Íslandsmót iðn- og verkgreina verður í dag og á morgun kl. 09:00-16:00 og kl.10:00-15:00 á laugardag. Dagskráin er fjölbreytt og áhugaverð.

Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynning hefur verið haldin annað hvert ár síðan 2007 fyrir tilstilli Verkiðnar, sem eru íslensk systursamtök EuroSkills samtakanna sem aftur eru aðili að WorldSkills International.

Keppt verður að þessu sinni í tuttugu og tveimur faggreinum. Þær eru: Bakaraiðn, bifreiðasmíði, bílamálun, fataiðn, forritun, framreiðsla, grafísk miðlun, gull- og silfursmíði, hársnyrtiiðn, húsasmíði, kjötiðn, matreiðsla, málaraiðn, málmsuða, pípulagnir, rafeindavirkjun, rafvirkjun, skrúðgarðyrkja, snyrtifræði, vefþróun, veggfóðrun og dúkalögn og múraraiðn.

Frá VMA eru þátttakendur í fjórum greinum; hársnyrtiiðn, málmsuðu, rafeindavirkjun og rafvirkjun.

Af hálfu VMA keppa í háriðn Kormákur Rögnvaldsson, Anna Birta Þórðardóttir, Inga Sóley Viðarsdóttir, Katrín Róbertsdóttir, Halldóra Helga Sindradóttir og Ása Lind Aradóttir. Þeim til halds og trausts verða kennararnir þeirra Harpa Birgisdóttir og Hildur Salína Ævarsdóttir. Einnig keppir Irena Fönn Clemmensen í einstaklingskeppni í flokki sveina og meistara. Hún brautskráðist  frá VMA árið 2020 og starfar á hársnyrstistofunni Adell á Akureyri.

Í rafiðngreinum keppa af hálfu VMA Daniel Francisco Ferreira (rafvirkjun), Einar Örn Ásgeirsson (rafeindavirkjun), Jakob Bjarki Hjartarson (rafeindavirkjun) og Baldur Ingimar Guðmundsson (rafeindavirkjun). Með þeim verða kennararnir Ari Baldursson, Óskar Ingi Sigurðsson og Þórhallur Tómas Buchholz.

Í málmsuðu verða fulltrúar VMA Anton Karl Kristjánsson og Hafþór Karl Barkarson. Með þeim verður Kristján Kristinsson kennari.  Keppt verður í húsnæði Iðunnar að Vatnagörðum 20 – í dag og á morgun. Suðustykkin verða síðan flutt upp í Laugardalshöll, þar sem þau verða dæmd á laugardag.

Gert er ráð fyrir að 27 skólar á framhaldsskólastigi kynni fjölbreytt námsframboð, bæði verklegt og bóklegt, og svari spurningum um námið og inntökuskilyrði. Ætla má að á bilinu 7-8000 grunnskólanemendur mæti í Laugardalshöll í dag og á morgun til þess kynna sér starf framhaldsskóla landsins.