Fara í efni

Framtíðarkokkarnir glíma við gellur og grísalundir

Önnum kafnir í eldhúsinu.
Önnum kafnir í eldhúsinu.

Ellefu nemendur stunda nú nám í 2. bekk í matreiðslu í VMA. Þetta er í annað skipti sem boðið er upp á kennslu í öðrum bekk en áður þurftu nemendur að taka 2. og 3. bekk náms í matreiðslu í Menntaskólanum í Kópavogi. Theódór Sölvi Haraldsson, matreiðslumeistari á Múlabergi á Hótel KEA og annar tveggja umsjónarmanna með náminu, segir afar mikilvægt fyrir veitingageirann á Norðurlandi að geta boðið upp á námið í VMA. Hann bindur vonir við að unnt verði áður en langt um líður að bjóða einnig upp á 3. bekkinn en í framhaldi af honum geta nemendur farið í sveinspróf.

Flestir ellefu nemendanna sem eru nú í 2. bekk í matreiðslu hafa lokið grunndeildinni í VMA. Níu þeirra eru frá Akureyri, einn frá Húsavík og einn úr Mývatnssveit. Skilyrði til þess að komast í 2. bekk er að vera á samningi undir handleiðslu meistara. Sumir eru langt komnir með samningstíma sinn, aðrir skemur.

Theódór Sölvi og Ari Hallgrímsson skipta kennslunni með sér. Theódór annast verklega hlutann aðra hverja viku og Ari hina og auk þess kennir Ari bóklegu fagnámskeiðin. Í verklega hlutanum segir Theódór að nemendur séu m.a. þjálfaðir í vinnubrögðum, útliti matarins og að sjálfsögðu bragði sem hefur 50% vægi þegar kemur að sveinsprófi. Nemendur eru bæði þjálfaðir í að elda heita og kalda rétti, eins og þeir þurfa að gera á veitingastöðum. Námið í 2. bekk í VMA er samræmt við námið í Kópavogi og því eiga nemendur að fá sambærilega kennslu á báðum stöðum og þjálfun í að elda svipaða rétti.

Þegar litið var við í eldhúsinu í VMA í gær var verkefni dagsins að elda tvo heita rétti – forrétt og aðalrétt. Í forrétt voru djúpsteiktar gellur en innbökuð svínalund í aðalrétt. Með réttunum var að sjálfsögðu borið fram meðlæti af ýmsum toga og þar gáfu nemendur hugmyndafluginu lausan tauminn. Útkoman var hin besta og ekki var annað að sjá en að matgæðingarnir sem voru kvaddir á staðinn kynnu vel að meta.

Nemendur skiluðu kennara og matreiðslumeistara, sem var fenginn til þess að koma utan úr bæ og meta réttina, smá lýsingu á sinni útfærslu. Í þessu tilfelli var Júlía Skarphéðinsdóttir dómari dagsins ásamt Theódór Sölva kennara. Ari Hallgrímsson kennari segir afar mikilvægt fyrir þá sem standa að náminu að vera í góðum tengslum við matreiðslumeistara á svæðinu, enda sé það gagnkvæmur hagur skólans og veitingageirans að vel takist til.