Fara í efni

Frábært hlaup hjá Önnu Berglindi í Portúgal

Anna Berglind með verðlaunapeninginn í Lissabon.
Anna Berglind með verðlaunapeninginn í Lissabon.

Anna Berglind Pálmadóttir, kennari í VMA og ofurhlaupari, kórónaði frábært hlaupaár sitt í Lissabon í Portúgal í gær þegar hún hljóp þar maraþon á 3:04:13 sem er besti tími íslenskrar konu á árinu í þessari vegalengd og jafnframt er þetta áttundi besti tími kvenna á Íslandi samkvæmt skráðri afrekaskrá. Anna Berglind átti tíunda besta tíma kvenna í hlaupinu og þann besta í flokknum 35 ára og eldri.

Anna Berglind er tvöfaldur Íslandsmeistari kvenna í langhlaupum á árinu, annars vegar í heilu maraþoni og hins vegar hálfu maraþoni. Hún tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í maraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu en nokkrum dögum eftir það hlaup kom í ljós að vegna mistaka við framkvæmd hlaupsins fengust tímarnir þar ekki staðfestir. Anna Berglind ákvað því að við svo búið mætti ekki standa og skráði sig í heilt maraþon í Lissabon.

Sem kunnugt er gekk fellibylur yfir Portúgal um helgina og því þurfti að seinka startinu í hlaupið. Veðrið gekk þó fljótt yfir á meðan á hlaupinu stóð og var ekki til verulegra vandræða. Brautin þótti skemmtileg og stuðningur fólksins sem fylgdist með hlaupinu var til mikillar fyrirmyndar.

Hópur Íslendinga hljóp í Lissabon um helgina. Frá Akureyri hlupu auk Önnu Berglindar Kristín Kristjánsdóttir og Haukur Pálmason, bróðir Önnu Berglindar. Sigurður Gestsson, eiginmaður Kristínar, tók þessar myndir  í Lissabon.