Fara í efni

Frábær árangur VMA-nema í "Leiktu betur"

Bronslið VMA í
Bronslið VMA í

Verkmenntaskólinn tók í vikunni í fyrsta skipti þátt í leiklistarkeppni framhaldsskólanna, „Leiktu betur“, og gerði sér lítið fyrir og hreppti þriðja sætið. Þetta er sannarlega flottur árangur og er til marks um þá grósku í leiklistinni sem nú er í skólanum og kom heldur betur í ljós í sýningu Yggdrasils á 101 Reykjavík.

Það voru einmitt krakkar sem tóku þátt í 101 Reykjavík sem skráðu sig til leiks í „Leiktu betur“ fyrir hönd VMA. Aðdragandinn var skammur og lítill tími gafst til æfinga. VMA-krakkar náðu þó einni æfingu ásamt leiklistarkrökkum í Leikfélagi MA, sem einnig tók þátt í keppninni.  Upp úr hádegi sl. fimmtudag var haldið suður og brunað beint í Borgarleikhúsið þar sem keppnin fór fram um kvöldið.

„Leiktu betur“ gengur út á spunaleik og vita keppendur ekki fyrirfram hvað þeir eiga að leika. Þegar keppendur hafa fengið spunaefni sitt í hendur fá þeir aðeins 10 sekúndur til þess að leggja höfuðið í bleyti og síðan leika þeir í þrjár mínútur.

VMA-nemar stóðu sig frábærlega á sviði Borgarleikhússins og uppskáru þriðja sætið í keppninni.Menntaskólinn við Hamrahlíð sigraði í keppninni og Kvennaskólinn varð í öðru sæti.

„Þetta var mjög skemmtilegt og við erum auðvitað alveg hæstánægð með þennan árangur,“ segir einn af spunameisturunum, Egill Bjarni Friðjónsson. Auk hans voru í spunaliðinu  Valþór Pétursson, Sindri Snær Konráðsson og Brynja Ploy. Kristín Tómasdóttir var til vara. Einnig var Ragnar Bollason, formaður Yggdrasils, leikurunum til halds og trausts.

Fyrir árangurinn fékk bronsliðið fjóra miða á veitingastaðinn Metró og sömuleiðis fjóra miða í Gaflaraleikhúsið.