Fara í efni

Forrita raflagnakerfi

Birkir Aðalsteinsson (t.v.) og Óttar Jónsson.
Birkir Aðalsteinsson (t.v.) og Óttar Jónsson.
Tölvur gegna lykilhlutverki á flestum sviðum samfélagsins. Rafkerfi eru þar ekki undanskilin. Tölvustýringar eru í auknum mæli notaðar við raflagnir í húsum og því er hluti af námi rafvirkja fólginn í því að forrita og setja upp slík kerfi. Þetta er kennt í áföngum í VMA sem kallast „Forritanleg raflagnakerfi.“

Tölvur gegna lykilhlutverki á flestum sviðum samfélagsins. Rafkerfi eru þar ekki undanskilin. Tölvustýringar eru í auknum mæli notaðar við nýlagnir í húsum og því er hluti af námi rafvirkja fólginn í því að forrita og setja upp slík kerfi. Þetta er kennt í áföngum í VMA sem kallast „Forritanleg raflagnakerfi.“

„Það er ekki spurning að forritun er framtíðin í þessu,“ segir Akureyringurinn Óttar Jónsson, nemandi í rafvirkjun, sem lýkur námi í rafvirkjun núna um jólin. Hann segir að áhugi á þessum fræðum sé í genunum enda starfi bæði faðir hans og afi í raftæknigeiranum. „Stefnan er að halda áfram hér í VMA og taka tæknistúdentinn en síðan hef ég velt fyrir mér að fara til Danmerkur og læra raftæknifræði,“ segir Óttar.

Félagi hans, Birkir Aðalsteinsson, frá Auðnum í Hörgárdal, útskrifast einnig sem rafvirki í desember. Hann er þó ekki viss um að hann starfi sem rafvirki í framtíðinni, tíminn muni leiða það í ljós. Ekki sé ósennilegt að hann sveitagenin beini honum í nám í landbúnaðarfræðum á Hvanneyri. Hvað sem verði muni námið í VMA þó nýtast honum gríðarlega vel.

Rafvirkjun er sjö anna nám í skóla og til sveinsprófs bætast við 28 vikur á námssamningi.

Hér eru nokkrar myndir af nemendum í áfanganum „Forritanleg raflagnakerfi“, sem Davíð Ingi Guðmundsson kennir.