Fara í efni

Fjölbreytt lokaverkefni vélstjórnarnema

Vélstjórnarnemarnir tólf sem kynntu verkefni sín.
Vélstjórnarnemarnir tólf sem kynntu verkefni sín.

Tólf nemendur á vélstjórnarbraut kynntu lokaverkefni sín sl. föstudag og þar með var settur einn af punktunum yfir i-ið í náminu í VMA. Nemendur kynntu átta verkefni, fjögur þeirra voru einstaklingsverkefni og fjögur verkefni voru unnin af tveimur nemendum hvert. Óhætt er að segja að verkefnin hafi verið fjölbreytt, eins og vera ber, og um leið áhugaverð. Gaman var að sjá hversu margir voru viðstaddir kynninguna sl. föstudag. Hér má sjá nokkrar myndir sem voru teknar við þetta tækifæri og hér eru fleiri myndir sem Hilmar Friðjónsson kennari tók við þetta tækifæri.

Strekkjarabúnaður fyrir lengju á botntrolli 
Aðalsteinn Ásgeir Ólafsson og Guðmundur Helgason

Ávinninginn af strekkjarabúnaðinum sögðu Aðalsteinn Ásgeir og Guðmundur m.a. að væri minni slysahætta. Þeir sögðust hafa aflað sér upplýsinga áður en þeir fóru að stað í hönnunina með m.a. heimsóknum í nokkur fyrirtæki – t.d. Fjarðanet á Ísafirði, Straumrás, Ásverk og Ísfell á Akureyri. Strekkjarabúnaðinn teiknuðu þeir í þrívídd. Byrjuðu að teikna í Inventor sem fyrirtæki eins og Marel og Skaginn 3X vinna mikið með. FAB-Lab námskeið varð hins vegar til þess að þeir fóru að nota Fusion forritið og var ætlunin að vatnsskera plötur. Það reyndust hins vegar vera vandkvæði á samskiptum milli skurðarvélarinnar og forritsins og því urðu þeir að nota þriðja forritið – Autocad. Plötur fengu þeir að gjöf frá Slippnum, strekkjarinn kom frá Samherja, auk efnis frá VMA. Þá zinkhúðaði FerroZink fyrir þá hluta búnaðarins. Að lokinni smíði á strekkjaranum var hann settur í prufu og reyndist ljómandi vel.

 

Kennsluefni í reglunartækni
Aldís Eir Hansen

Aldís réðst í það verkefni að gera viðauka við kennslubókina Reglunartækni 1. Markmið hennar var að gera námsefnið skiljanlegra, gera textann áhugaverðari og einfaldari og um leið að bæta eigin þekkingu á reglunartækni og kannski annarra líka. Aldís sagðist hafa lesið kennslubókina í reglunartækni gaumgæfilega, hún studdist við eigin glósur sem hún tók niður í kennslustundum í áfanganum og las bækur á netinu. Útbjó síðan beinagrind að styttri og hnitmiðaðri útgáfu af bókinni, útfærði textann og teiknaði skýringamyndir í Autocad. Yfirfór textann síðan með kennurum. Kennslubókin var 160 bls. en styttri og hnitmiðaðri útgáfa Aldísar var um 30 bls.

 

Innmötun á blikki í sax fyrir smíði á einangrunarhólkum fyrir frystikerfi
Aron Ernir Guðmundsson og Veigar Þór Jóhannesson

Markmið Arons Ernis og Veigars Þórs var tvíþætt. Annars vegar höfðu þeir áhuga á því að efla kunnáttu sína og færni í tölvuteikningu og hins vegar að auka framleiðslugetu á einangrunarhólkum. Núna er framleiðsla á hólkunum tveggja manna verk og tímafrek. Hönnunin var unnin í Fusion 360 og var útkoman þrívíddarprentuð í FAB-Lab. Gróf kostnaðaráætlun leiddi í ljós kostnað upp á um fjórar milljónir króna.

 

Olíunotkun fiskiskipa á siglingu
Benedikt Orri Pétursson og Friðrik Karlsson

Benedikt Orri og Friðrik höfðu áhuga á að vinna lokaverkefni sem tengdist sjávarútvegi enda segja þeir að hugur þeirra stefni þangað. Þeir leituðu liðsinnis Samherja, enda hafa þeir báðir starfað hjá fyrirtækinu og þekkja því vel þar til. Samherji hafði mikinn áhuga á verkefninu og lagði þeim lið. Niðurstaðan var að mæla olíunotkun í togskipinu Björgu EA. Þeir fóru í vettvangsferð í byrjun og skoðuðu vélarrúm Bjargar hátt og lágt. Síðan fóru þeir í tvígang um borð og mældu olíunotkun. Megin niðurstaða þeirra félaga var að ekkert eitt keyrsluform væri best fyrir mismunandi snúningshraðasvið skipsins. Þeir lýstu verkefninu sem áhugaverðu og það hafi opnað augu þeirra betur en áður fyrir ýmsum þáttum sem ráði olíunotkun skipa.

 

Slípiband – hönnun og smíði
Jón Ingi Ólafsson

Markmið Jóns Inga var að smíða bandslípivél sem nýtist í bæði fín- og grófvinnu með breytilegan snúningshraða. Hugmyndina fékk hann með því að skoða myndbönd á netinu og notaði Fusion 360 til þess að teikna. Slípivélina smíðaði Jón Ingi að öllu leyti og er hún sterkilega byggð.  Prófílar eru úr vélarstáli, hjólin voru rennd úr álöxlum og hjarir og mótorplatti skorinn úr plötustáli. Tíðnibreytir fyrir 2.2 kW motor. Tíðnisvið 0-65 Hz, 1 fasi inn, 3 fasar út. Þriggja fasa riðstraumsmótor. Jón Ingi sagði vélina virka mjög vel, mótorstærðin væri heppileg og titringur lítill.

 

Kennsluefni í olíufræðum - þýtt og staðfært
Sindri Vagn Sigurgeirsson

Sindri Vagn réðst ekki á lágan garð. Hann taldi sárlega vanta kennslubók á íslensku um olíur og því ákvað hann að ráðast í að snúa enskri bók um olíur á íslensku. Hann sagði að þetta hafi verið lærdómsríkt verkefni en jafnframt stærra í sniðum en hann hefði gert sér grein fyrir. Hann sagðist hafa þurft að afla sér mikilla  upplýsinga, enda væri mikið um flókin ensk hugtök í þessum geira. Að lokinni textavinnunni kom að því að setja bókina upp og teikna skýringamyndir. Meðal þess sem fjallað er um í bókinni er olíuhreinsun og framleiðsla á eldsneytisolíu, hugtök, staðlar og gæðastjórnun, eldsneytisundirbúningur, olíugreining, olíurannsóknir um borð í skipum, heilsa og öryggi, umhverfismál, íblöndunarefni og seigjubreytitölur. Enska kennslubókin var um 120 bls. en útgáfa Sindra Vagns er um 80 bls.


Francis vatnsaflstúrbína - uppgerð og prófun
Íris Arngrímsdóttir

Íris sagði að hugmyndin að verkefninu hafi í raun komið frá Ingimar Árnasyni, kennara í VMA. Hún sagði að verkefnið hafi litast af því faðir hennar væri túrbínusmiður. Verkefnið fólst í því að gera upp og prófa Francis vatnsaflstúrbínu sem föðurbróðir Írisar smíðaði fyrir um þrjátíu árum. Jafnframt sagði Íris að markmið sitt með verkefninu hafi verið að auka þekkingu sína á vatnsaflsvélum, enda starfi hún hjá Landsvirkjun, og síðast en ekki síst að auka hæfni sína í að tölvuteikna. Túrbínuna teiknaði Íris í Fusion 360 og segir hún að það hafi komið mjög vel út.

 

Rafsegull fyrir hlaupakött – hönnun og smíði
Elvar Örn Jóhannsson Rist og Þórður Mar Árnason

Elvar Örn og Þórður Mar sögðu að hönnun og smíði á rafsegli fyrir hlaupakött hafi verið lærdómsrík. Á leiðinni hafi þeir rekist á nokkra veggi, sem jafnframt hafi verið lærdómsríkt. Leitin að réttu efnunum tók töluverðan tíma en að lokum fundust þau samkvæmt góðum ráðum úr atvinnulífinu. Að lokum varð útkoman eins og til var sáð – rafsegullinn snarvirkaði – samkvæmt myndbandi sem þeir félagar sýndu á kynningunni.