Fara í efni

Fengu tvær öflugar súluborvélar að gjöf

Fulltrúar VMA og Blikk- og tækniþjónustunnar.
Fulltrúar VMA og Blikk- og tækniþjónustunnar.
Í gegnum tíðina hafa fjölmörg fyrirtæki lagt Verkmenntaskólanum lið á einn eða annan hátt. Ekki síst hefur atvinnulífið stutt við starfsemi verknámsdeilda skólans með ýmsan búnaði sem hefur komið að góðum notum við kennsluna. Nýjasta gjöfin eru tvær öflugar súluborvélar, sem Blikk- og tækniþjónustan ehf. á Akureyri, færði málmiðnaðardeild skólans.

Í gegnum tíðina hafa fjölmörg fyrirtæki lagt Verkmenntaskólanum lið á einn eða annan hátt. Ekki síst hefur atvinnulífið stutt við starfsemi verknámsdeilda skólans með  ýmsan búnaði sem hefur komið að góðum notum við kennsluna. Nýjasta gjöfin eru tvær öflugar súluborvélar, sem Blikk- og tækniþjónustan ehf. á Akureyri, færði málmiðnaðardeild skólans.

„Við viljum gjarnan standa þétt við bakið á málmiðnaðardeildinni, enda er það okkar hagur að hún gangi vel og þeir sem hér læra séu vel undirbúnir fyrir það að fara út á vinnumarkaðinn. Liður í því er góður tækjabúnaður og nemendur þjálfist í að nota sambærileg tæki og þeir koma til með að nota þegar þeir fara að vinna við fagið. Fyrir okkur sem starfa í þessu fagi hér á Akureyri er málmiðnaðardeild VMA mjög mikils virði. Til marks um það eru núna hjá okkur þrír nemar í blikksmíði sem allir hafa lært hér í skólanum,“ segir Sveinn Björnsson hjá Blikk- og tækniþjónustunni. Hörður Óskarsson, brautarstjóri  málmiðnaðarbrautar, segist vera mjög þakklátur fyrir þessa góðu gjöf, vélarnar muni koma að góðum notum í kennslunni.

Nýverið var lokið við að setja upp reyksog í kennslurými málmiðnaðarbrautar – loftræstikerfi frá rafsuðubásum. Þeir Blikk- og tækniþjónustumenn settu kerfið upp, sem er mun öflugra en það gamla, enda var það barn síns tíma, sett upp þegar húsnæðið var tekið í notkun fyrir þrjátíu árum.  „Til stóð að setja kerfið upp sl. haust, en það náðist ekki og því voru frídagarnir í kringum jól og áramót nýttir í það. Þetta er algjör bylting. Nýja kerfið gerir það að verkum að nú getum við andað að okkur hreinu lofti. Áður var alltaf töluverð mengun hér innanhúss sem fylgdi rafsuðunni,“ segir Hörður.

Eftir nokkra lægð hefur aðsókn að námi í málmiðngreinum aukist aftur og voru um sextíu nemendur innritaðir sl. haust í grunndeild málmiðngreina. Á annað hundrað nemendur koma á einn eða annan  hátt við sögu í deildinni á þessari önn.

Á meðfylgjandi mynd eru fulltrúar VMA og Blikk- og tækniþjónustunnar við aðra súluborvélina. Frá vinstri: Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari, Stefán Finnbogason, kennari, Hörður Óskarsson, kennari og brautarstjóri og fulltrúar Blikk- og tækniþjónustunnar, Valþór Brynjarsson og Sveinn Björnsson.