Fara í efni

Aftur á bókasafnið eftir ársdvöl í Svíþjóð

Hildur Friðriksdóttir.
Hildur Friðriksdóttir.

Hildur Friðriksdóttir starfar á bókasafni VMA með Hönnu Þóreyju Guðmundsdóttur, sem veitir því forstöðu. Hildur hóf störf á bókasafni VMA haustið 2016 með Sigríði Sigurðardóttur, bókasafnsfræðingi, og starfaði þar til vors 2019 þegar Hildur fékk ársleyfi frá störfum og var sl. vetur í Svíþjóð. Þaðan kom hún í síðasta mánuði og hefur tekið upp þráðinn á bókasafninu, auk þess að halda utan um erlend samskipti fyrir hönd skólans.

Guðfræði og kaffi
Hildur lauk BA-prófi í nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2013 og viðbótarnámi í menntunarfræðum við sama skóla árið 2016. Áður hafði Hildur stundað nám í trúarbragðafræði í Gautaborg í Svíþjóð á árunum 2000-2001 og í framhaldinu var hún í guðfræði í Háskóla Íslands á árunum 2001-2003. Hildur segist aldrei hafa haft í hyggju að þjóna sem prestur enda sé hún ekki trúuð í þeim skilningi. Hins vegar hafi hún mikinn áhuga á mannlegu eðli og trúarbrögðum frá ýmsum hliðum. „Mig skorti gulrótina til þess að klára guðfræðinámið,“ segir Hildur. Til hliðar við guðfræðina vann hún hjá Sigmundi og Berglindi í Te og kaffi og segist algjörlega hafa heillast af kaffi- og teheiminum. Hún fór að kynna sér ýmislegt er tengist þessum geira og fór m.a. á kaffismökkunarnámskeið til Ítalíu. Hildur aflaði sér dómararéttinda og dæmdi í tvígang á heimsmeistaramótum kaffibarþjóna, í Kaupmannahöfn og Köln í Þýskalandi.

Á þessum árum eignuðust Hildur og Snorri Björnsson, eiginmaður Hildar, sem hefur til margra ára verið kennari við VMA, eldri dótturina, Þuru. Í kjölfarið flutti fjölskyldan til Akureyrar og hefur búið þar síðan. Hildur hélt áfram þar sem frá var horfið í kaffibransanum og stofnaði eigin kaffiverslun og kaffibar við Hafnarstræti í samstarfi við Sigmund og Berglindi í Te og kaffi. Fyrirtækið rak hún í tvö ár og segir það hafa verið afar skemmtilegan tíma. Hún hafi haft stóran og tryggan kúnnahóp sem kunni vel að meta þessa nýbreytni í veitingaflórunni í bænum. Fyrirtækið seldi Hildur síðan og það færðist yfir í Pennann.

Til starfa á bókasafni VMA
„Ég get alveg viðurkennt að þegar ég sótti um starfið á bókasafni VMA á sínum tíma hugsaði ég með mér að það væri nú líklega að bera í bakkafullan lækinn að fara að vinna hér, enda hafði Snorri eiginmaður minn kennt hér lengi og mamma var íslenskukennari í VMA árum saman. Hún kom hér til kennslu annað árið sem skólinn starfaði og kenndi til 2018. Ég kom því oft hér inn fyrir dyr með mömmu og átti jafn erfitt með að rata um skólann þá og nú,“ segir Hildur og brosir. „Fyrsta veturinn var ég í hlutastarfi á bókasafninu og síðan bættust við erlend samskipti, sem Jóhannes Árnason hafði lengi haft á sinni könnu. Það var alveg frábært að fá tækifæri til þess að vinna með Sirrý hérna á bókasafninu og síðan með Hönnu núna. Þetta er skemmtilegt og lifandi starf, það er einstaklega gefandi að vinna með ungu fólki á degi hverjum. Verkefni bókasafna eru fjölbreytileg og hafa breyst í tímans rás, söfnin eru ekki bara geymslustaðir fyrir bækur, þau gegna ótal mörgum öðrum hlutverkum. Fyrst og fremst erum við að þjóna nemendum með heimildaleit, verkefnavinnu og margt fleira. Það eru engir tveir dagar eins," segir Hildur.

Erlend samskipti
Auk starfsins á bókasafni VMA vinnur Hildur að erlendum verkefnum sem skólinn tekur þátt í. Þetta eru evrópsk verkefni af ýmsum toga og einnig samstarfsverkefni norrænu ríkjanna. Vegna covid 19 hefur reynst óhjákvæmilegt að fresta mörgum verkefnum, enda hafa fulltrúar þátttökulandanna í þeim hist reglulega og borið saman bækur sínar og nemendur í skólum þátttökulandanna hafa farið á milli þeirra í vettvangsheimsóknir. Covid 19 gerir það að verkum að þessum heimsóknum hefur öllum þurft að fresta um óákveðinn tíma. Engu að síður er unnið að nokkrum verkefnum, að því leyti sem það er unnt, á fjarfundum í gegnum veraldarvefinn.

Hildur segir að vitaskuld sé leitt að ekki sé sé unnt að vinna að þessum samstarfsverkefnum sem stendur en vonandi rætist úr þegar lífið færist aftur í eðlilegt horf. Meðal þeirra verkefna sem til stóð að VMA tæki þátt í sl. vor tengist matarhefðum. Matvælabraut VMA er þátttakandi í þessu verkefni með skóla í Frakklandi. Til stóð að hópur franskra kennara og nemenda kæmi í VMA sl. vor og að sama skapi færi hópur úr VMA til Frakklands til þess að kynna sér matarhefðir þar. Af þessu gat ekki orðið en Hildur segir að mögulega verði unnt að koma þessum heimsóknum á næsta vor. Það fari þó vitaskuld allt eftir því hvaða stefnu covid 19 heimsfaraldurinn taki.  Annað verkefni sem VMA tekur þátt í er framhald af verkefni sem skólinn tók áður þátt í og lýtur að tengslum vinnustaða og skóla. Og þriðja verkefnið sem er í undirbúningi lýtur að iðnmenntun í dreifðum byggðum. Því verkefni hefur verið frestað um hálft ár en auk VMA taka þátt í því skólar í Belgíu, Rúmeníu, Króatíu og Slóveníu.

Hildur nefnir að í gegnum þetta erlenda samstarf hafi komið margt mjög jákvætt. Til dæmis hafi nemendur í matreiðslunámi í VMA átt þess kost að starfa á frönskum veitingahúsum, í öðru tilfelli var um að ræða Michelin stjörnu veitingahús, hárgreiðslunemar hafi farið til Noregs í vinnustaðanám og það sama megi segja um sjúkraliðanema, sem hafa farið bæði til Danmerkur og Finnlands í vinnustaðanám. Svona mætti áfram telja. Þessi erlendu samskipti víkki út sjóndeildarhringinn, sem sé afar mikilvægt og þroskandi fyrir alla.

Eitt ár í Svíþjóð
Síðasta árið var Hildur með eldri dótturinni, Þuru, í Svíþjóð Þura æfði sund hjá Sundfélaginu Óðni og þegar hún komst á framhaldsskólaaldurinn vildi hún takast á við nýjar áskoranir og æfa íþrótt sína við bestu aðstæður. Hún ákvað að fara til Kungsbacka í Svíþjóð, sem er skammt frá Gautaborg, þar sem er ný og glæsileg innisundlaug og aðstæður allar hinar bestu. Hildur, sem var formaður Sundfélagsins Óðins um tveggja ára skeið, segir að niðurstaðan hafi verið að fara með Þuru til Svíþjóðar og vera henni til halds og trausts fyrsta árið. Þær mæðgur voru því í Kungsbacka sl. vetur og fram á sumar og Snorri og yngri dóttirin, Steingerður, héldu heimili á Akureyri. Þrátt fyrir að Hildur sé nú komin heim er Þura áfram í Kungsbacka og iðkar þar sína íþrótt og stundar nám í framhaldsskóla.

Hildur segir að það hafi vissulega verið stórt stökk út í djúpu laugina þegar fjölskyldan ákvað að þær mæðgur færu til Svíþjóðar. Þegar þær hafi lagt af stað fyrir um ári síðan hafi hún ekki verið búin að fá vinnu en fljótlega hafi úr því ræst, hún hafi tekið að sér móðurmálskennslu og tengsl barna af íslenskum uppruna við sína skóla. Einnig hafi hún unnið í afleysingum á sambýli fatlaðra. Þegar upp hafi verið staðið hafi hún verið í meira en hundrað prósent vinnu. Hildur segir að það hafi verið ánægjulegt að rifja upp sænskuna sem hún lærði sem barn í Svíþjóð og aftur síðar þegar hún fór þangað í nám, sem fyrr greinir, og almennt megi segja að þetta ár hafi verið einstaklega skemmtileg áskorun og kærkomið að taka stökkið út fyrir þægindarammann um skeið. En að sama skapi hafi verið ánægjulegt að koma aftur heim og fara í hina daglegu rútínu á bókasafninu í VMA.