Fara í efni

Gengu upp að Skólavörðu

Göngugarpar við Skólavörðu í Vaðlaheiði.
Göngugarpar við Skólavörðu í Vaðlaheiði.

Þessa fyrstu daga september hafa veðurguðirnir farið sérlega mildum höndum um okkur með góðum sumarauka, sem að sjálfsögðu er vel þeginn. Síðastliðinn þriðjudag, 4. september, gripu kennarar og nemendur í útivistaráfanga gæsina og nýttu góða veðrið til þess að ganga upp að Skólavörðu í Vaðlaheiði. Fleiri tóku þátt í gönguferðinni og nutu góða veðursins og útsýnisins yfir Eyjafjörð. Ekki þarf að orðlengja það að dagurinn var í alla staði hinn ánægjulegasti, enda fátt sem gefur meiri kraft og vellíðan en að anda að sér tæru fjallaloftinu. Anna Berglind Pálmadóttir kennari og Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari tóku myndir í gönguferðinni sem hér má sjá.

Þessi útivistaráfangi er kenndur af Önnu Berglindi Pálmsdóttur og Ásdísi Sigurvinsdóttur. Áhersla er lögð á að kynna útivist fyrir nemendum og hvernig hún nýtist við líkamsþjálfun. Fjölbreytt útivist er kynnt fyrir nemendum og gerð grein fyrir því hversu góð forvörn reglubundin hreyfing er.

Fimm slíkar útivistarferðir eru á dagskrá á önninni auk einnar göngu- eða hjólreiðaferðar sem nemendur velja. Í næstu viku er t.d. áætluð gönguferð í Fálkafell. Síðan er m.a. gönguferð um Krossanesborgir eða þátttaka í Flensborgarhlaupinu í Hafnarfirði, sem nemendur úr VMA hafa verið duglegir að taka þátt í undanfarin ár.