Fara í efni

Beint úr níunda bekk í rafmagnið

Sigurður Bogi Ólafsson.
Sigurður Bogi Ólafsson.

Þess eru nokkur dæmi að nemendur ákveða að fara í framhaldsskóla strax að loknum 9. bekk grunnskóla. Með öðrum orðum, sleppa 10. bekk grunnskóla og fara beint á fyrsta ár í framhaldsskóla. Þetta er þó ekki hægt nema að undangengnu mati grunnskólanns til þess að ganga úr skugga um að nemendurnir séu námslega nægilega vel búnir undir að fara í framhaldsskóla ári fyrr en almennt gerist.

Dæmi um nemanda sem fór þessa leið, þ.e.a.s. beint úr 9. bekk Naustaskóla á Akureyri í VMA, er Sigurður Bogi Ólafsson. Hann hóf nám sl. haust í grunnnámi rafiðngreina og er núna á annarri önn.

“Það sem kveikti í mér að fara á þessa námsbraut var að haustið 2016 kom ég hingað í VMA í vali í Naustaskóla. Okkur gafst þá kostur á að kynna okkur ólíkar verknámsbrautir hér og mér fannst grunnnám rafiðna mjög áhugaverð. Ég hafði áhuga á að koma hingað strax eftir níunda bekk, mér fannst grunnskólinn satt best að segja ekki vera nógu krefjandi. Ég horfði til þess að fara í verknám, ekki síst vegna þess að eftir að hafa verið meira og minna í eintómu bóknámi í níu ár langaði mig til þess að læra eitthvað verklegt. Þetta varð niðurstaðan og ég sé ekki eftir því. Námið er fjölbreytt og skemmtilegt og kennslan fín. Ég ætla mér að taka stúdentspróf líka því ég veit að það opnar mér fleiri leiðir. Það var mín niðurstaða að með því að ljúka bæði verknámi og stúdentsprófi stæði ég vel að vígi,” segir Sigurður Bogi.

Hann játar því að hann hafi í gegnum tíðina verið töluverður grúskari og því hafi ekki komið alveg á óvart að þessi námsleið hafi orðið fyrir valinu. “Ég tók til dæmis þátt síðustu árin mín í Naustaskóla þátt í legókeppni sem fólst í því að smíða róbót úr legókubbum.”

Sigurður Bogi að allt sem viðkomi raffræðinni í náminu finnist sér áhugaverðast, eins og er standi hugur hans til þess að fara í rafeindavirkjun að loknu grunnnáminu. Hér er Sigurður ásamt Gunnari Frímannssyni kennara í kennnslustund þar sem verkefni dagsins var að smíða lóðstöð. Hér má sjá nokkra nemendur glíma við verkefnið.

Til viðbótar við námið í VMA situr Sigurður Bogi ekki auðum höndum. Hann æfir alpagreinar skíðaíþrótta af krafti – fimm æfingar að jafnaði í viku á þessum tíma árs – og er þessa dagana einnig að vinna, ásamt öðrum, að tæknimálum vegna uppfærslu Leikfélags VMA á Ávaxtakörfunni sem verður frumsýnd í Hofi snemma í febrúar nk.

Dagskráin er því þéttskipuð og lykilatriði að nýta tímann vel.