Fara í efni

Veit fátt betra en lyktina af gömlum bókum

Hildur Friðriksdóttir á bókasafninu í VMA.
Hildur Friðriksdóttir á bókasafninu í VMA.

Hildur Friðriksdóttir hóf störf á bókasafninu í VMA í upphafi haustannar. Þó hún hafi ekki áður starfað í skólanum þekkir hún þó vel til hans enda hefur móðir hennar, Kristín S. Árnadóttir, kennt þar nánast frá því að skólinn var settur á stofn og maður hennar, Snorri Björnsson, hefur kennt þar undanfarin sjö ár.

Hildur getur ekki varist brosi þegar hún rifjar upp að hún hafi þegar hún var yngri hreint ekki ætlað sér að verða kennari. En fyrir þremur til fjórum árum hafi hún skipt um skoðun og því hafi hún ákveðið að afla sér kennararéttinda og það gerði hún í Háskólanum á Akureyri. Hún kenndi menningarlæsi í æfingakennslu í Menntaskólanum á Akureyri og þá fékk hún kennarabakteríuna fyrir alvöru. Hins vegar liggja kennararastöður ekki á lausu í húmanískum fræðum, sem Hildur hefur menntað sig til, og því ákvað hún að sækja um stöðu á bókasafninu í VMA þegar hún var auglýst fyrr á árinu og fékk hana. Hún starfar sem sagt á bókasafninu í 75% starfi og segist alsæl með starfið. Það sé dásamlegt og hún vinni þar með frábærri samstarfskonu, Sirrý – Sigríði Sigurðardóttur.

Hildur er Akureyringur, dóttir Kristínar S. Árrnadóttur íslenskukennara, sem fyrr segir, og Friðriks Vagns Guðjónssonar læknis. Hún lauk stúdentsprófi frá MA árið 1998 og fór þá strax um haustið í sjö mánaða bakpokaferðalag með tveimur vinkonum sínum – til að byrja með voru þær allar þrjár í ferðalaginu en síðan hélt Hildur áfram ferðalaginu ein. Leiðin lá til Suðaustur-Asíu og síðan Ástralíu og Bandaríkjanna.  „Þetta var ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt í alla staði og ég sé sannarlega ekki eftir því að hafa farið í þetta ferðalag. Svo mikið er víst að ég mun hvetja dætur mínar til þess að sjá sig um í heiminum áður en þær fara í framhaldsnám þegar þar að kemur og stofna fjölskyldu,“ segir Hildur.

Haustið 1999 ákvað Hildur að fara í trúarbragðafræði í Svíþjóð en líkaði dvölin þar ytra ekki nægilega vel og kom aftur heim árið 2001. Fór þá í guðfræði í Háskóla Íslands og var þar önnur tvö ár og átti bara eftir að skrifa lokaritgerð. Sem raunar aldrei varð af. Hún eignaðist eldri dótturina Þuru árið 2003 og þá yngri, Steingerði, 2005. Hildur fetaði síðan alveg nýja slóð, stofnaði eigið fyrirtæki í Hafnarstrætinu á Akureyri, þar sem hún seldi kaffi og te. Nokkuð sem hafði ekki verið gert á Akureyri. Hildur segir að þetta hafi verið mjög skemmtilegur tími og jafnframt lærdómsríkur. Fyrirtækið var í góðu samstarfi við Te & kaffi í Reykjavík  en þar hafði Hildur unnið samhliða námi í HÍ. Þegar síðan Te & kaffi ákvað að setja upp kaffihorn í Pennanum Eymundsson keypti fyrirtækið reksturinn af Hildi og hún fylgdi með og kom hinum nýja rekstri í Pennanum Eymundsson af stað.

Eftir þetta var komið að enn einum nýjum kaflanum hjá Hildi. Hún skráði sig í nám í nútímafræði í Háskólanum á Akureyri árið 2011 og lauk því 2013. Einnig tók hún kennararéttindin í HA, sem fyrr segir, og nú er hún á lokasprettinum til meistaraprófs í félagsvísindum við HA. Viðfangsefni hennar í lokaverkefninu, sem felst í ritun vísindagreina á bæði íslensku og ensku, er svokallað hrelliklám og skoðar hún það frá ýmsum hliðum.

Til hliðar við 75% starf á bókasafni VMA kennir Hildur stundakennslu í trúarbragðafræði við kennaradeild HA. Hún segir afar skemmtilegt að vera innan um allan þann fróðleik sem sé að fiinna á bókasafninu. „Ég veit fátt betra en lyktina af gömlum bókum,“ segir Hildur og brosir. „Og mér finnst sérstaklega gaman að umgangast nemendur og hjálpa þeim að afla sér fróðleiks á bókasafninu. Það er virkilega skemmtilegt að grúska og reyna að leysa úr þeim spurningum sem við fáum frá nemendum,“ segir Hildur og bætir við að margar og ólíkar námsbrautir í VMA geri það að verkum að fjölbreytnin í heimildavinnu nemenda sé mun meiri en í hreinum bóknámsskólum. Það geri starfið enn áhugaverðara og fjölbreyttara.