Fara í efni

Múrverk snýst um nákvæmni og millimetra

Níu af tólf nemendum sem nú eru að læra múriðn.
Níu af tólf nemendum sem nú eru að læra múriðn.

Eftir nokkurt hlé er röskur tugur nemenda í múriðn í VMA. Þeir taka grunnnámið í byggingadeildinni með t.d. þeim nemendum sem velja að fara í trésmíði en síðan skilja leiðir. Þessir nemendur eru komnir misjafnlega langt í faginu, sumir eru að byrja verknámið en aðrir hafa unnið í faginu töluvert lengi án þess þó að hafa lokið námi til sveinsprófs.

Þegar litið var inn í húsnæði byggingadeildar VMA voru nemendur í múriðn að læra gólflagnir með gamaldags írennsli, hvernig eigi að leggja í stiga, hæðarmæla o.fl. undir dyggri handleiðslu Bjarna Bjarnasonar múrarameistara. „Þetta er nákvæmnisvinna og snýst mikið um millimetra. Þegar við erum að vinna með múr eða steypu erum við með efni sem harðnar nánast í höndunum á okkur. Við höfum því oft ekki mikinn tíma og því þurfa vinnubrögðin að vera nákvæm og fumlaus,“ segir Bjarni og bætir við að verklegi hlutinn í námi múraranemanna sé tekinn í lotum og stundum sé kennslan í húsnæði byggingadeildar VMA á Eyrarlandsholti en stundum sé farið út í bæ og múrverkið kennt á byggingarstað.

Sjálfur hefur Bjarni starfað í múriðn síðan 1987. „Ég fór í þetta fyrir algjöra slysni. Ég hafði verið í  lögfræði í Háskóla Íslands og féll þar í almennri lögfræði. Ég hætti því í lögfræðinni, var blankur og vantaði vinnu. Ég datt inn í múrverkið og hef verið í því síðan,“ segir Bjarni. Hann segir að vissulega sé múrverkið nokkuð erfið vinna en staðreyndin sé sú að hver og einn múrari þrói með sér ákveðna vinnutækni sem geri vinnuna léttari. „Þetta er eins og íþrótt, æfingin skapar meistarann og gerir vinnuna léttari,“ segir Bjarni.

Þó að í grunninn breytist starf múrara ekki frá ári til árs er það þó þannig að töluverðar breytingar hafa orðið í faginu á liðnum árum. „Hefðbundnar innipússningar eru að stórum hluta dottnar út en að sama skapi hafa flísalagnir aukist verulega. Álagið á líkamann hefur minnkað en handverkið hefur ekki tekið stórum breytingum. Mér finnst þetta skemmtilegt starf og fjölbreytt. Aðstæðurnar eru aldrei eins og fólk kemur sem betur fer með allskyns hugmyndir og óskir og það eykur á fjölbreytnina. Það er gaman að sjá eitthvað eftir sig og fátt er skemmtilegra en að ljúka verki sem hefur tekist vel,“ segir Bjarni Bjarnason.

Hér eru nokkrar myndir af nemendum í kennslustund hjá Bjarna.