Fara í efni

Erum hér til að hjálpa

Hannesína Scheving og Jóhanna Bergsdóttir.
Hannesína Scheving og Jóhanna Bergsdóttir.

„Almennt vil ég segja að ég er mjög ánægð með hversu vel nemendur eru að standa sig í náminu við þessar sérstæku aðstæður í samfélaginu. Við erum stolt af krökkunum okkar og þeir eiga mikið hrós skilið,“ segir Hannesína Scheving, skólahjúkrunarfræðingur VMA, og undir það tekur Jóhanna Bergsdóttir, skólasálfræðingur, en báðar eru þær í stoðteymi skólans ásamt námsráðgjöfunum Svövu Hrönn Magnúsdóttur og Helgu Júlíusdóttur og forvarnafulltrúa skólans, Valgerði Dögg Oddudóttur Jónsdóttur. Í hverri viku hittast þessar fimm fagkonur til að fara yfir málin og stilla saman strengi.

Covidþreytan hefur aukist að undanförnu
Jóhanna segir að sem betur fer hafi nemendur haldið áfram að leita til sín eftir að nám margra færðist að miklu leyti í fjarnám. „Ég hef gefið nemendum val um að koma til mín í skólann eða hitta mig í vefviðtali. Meirihluti þeirra sem til mín leita hefur kosið að hitta mig i skólanum, jafnvel þótt þeir séu að öllu leyti heima í fjarnámi og komi því ekki að öðru leyti í skólann. Mér finnst að áhyggjur nemenda sem til mín leita séu öðruvísi en sl. vor. Núna finnst mér áberandi að nemendur hafa áhyggjur af því þeir séu ekki að standa sig nógu vel í fjarnáminu og séu að missa af einhverju og hafi ekki nægilega góða yfirsýn.
Kvíði nemenda sem afleiðing af ástandinu er greinilegri en hann var sl. vor. Hins vegar finnst mér þunglyndi ekki vera eins áberandi og oft áður. Nemendur nefna við mig að eftir að þeir fengu ekki lengur að koma í skólann og námið færðist í fjarnám sé upplifunin sú að þeir séu lokaðir inni og jafnframt finnst þeim mjög erfitt að geta ekki hitt vini sína. Vissulega eru nemendur að tala saman á netinu en það kemur ekki í staðinn fyrir að hittast.
Frá því í haust hafa bæst við 64 nemendur á skrá hjá mér, auk þeirra sem koma til mín í opna tíma og/eða líta hér inn á öðrum tíma til þess að spjalla. Að jafnaði hafa tæplega sextíu nemendur leitað til mín á hverri önn en nú þegar eru þeir komnir á sjöunda tuginn. Einnig hafa foreldrar samband við mig sem hafa áhyggjur af börnum sínum og þá bregst ég að sjálfsögðu við því.
Mér heyrist almennt að nemendur hafi ekki beint áhyggjur af afleiðingum þess að smitast af veirunni, heldur miklu frekar að smita aðra sem síðan gæti leitt til þess að mögulega þyrfti að loka skólanum. Undanfarnar tvær vikur hef ég fundið fyrir mikilli covidþreytu hjá nemendum og líka kennurum, þetta tekur bara verulega á,“ segir Jóhanna.

Mikilvægt að nemendur nýti þau úrræði sem bjóðast
Hannesína er með reglulega viðtalstíma, eins og hér má sjá, og segir hún að nemendur leiti til hennar með hin ýmsu mál. Stundum geti hún leyst úr málunum á staðnum eða vísað nemendum áfram á réttan stað í heilbrigðiskerfinu. „Ég hef sagt við nemendur að þeir eigi ekki að hika við að leita til okkar með hvað sem er. Ég er með viðtalstíma hér í skólanum og einnig á heimavistinni tvisvar í viku þar sem nemendur sem þar búa hafa aðgang að mér og geta rætt við mig um það sem á þeim brennur. Í þeim takmörkunum sem eru núna hafa margir íbúar á heimavistinni farið heim síðustu daga og vikur en úr þessu rætist vonandi aftur,“ segir Hannesína og bætir við að auk þjónustu fagfólks í VMA séu ýmis önnur úrræði í boði. Meðal annars nefnir hún unglingamóttöku á Heilsugæslustöðinni á Akureyri, sem sé opin milli kl. 12 og 16. Þangað geti ungt fólk leitað til þess að ræða um og fá bót á ýmsum málum.

„Það er vert að undirstrika að innan skólans geta nemendur leitað til okkar með símhringingum eða tölvupóstum ef eitthvað bjátar á; vanlíðan, kvíði eða eitthvað annað. Við erum til staðar til þess að hjálpa. Það er líka mikilvægt að við fáum vitneskju um ef nemendur eru með sjúkdóma eins og sykursýki eða bráðaofnæmi. Ef eitthvað bregður út af getur verið lífshættulegt ef ekki er brugðist strax rétt við. Þess vegna verð ég sem skólahjúkrunarfræðingur að vita af þessum nemendum. Ég hef fengið upplýsingar um nokkra þessara nemenda en ekki alla. Ég biðla til nemenda eða forráðamanna þeirra að láta okkur vita,“ segir Hannesína Scheving.