Fara í efni

Ekki kennt í dymbilviku

Ekki verður kennt í VMA í dymbilvikunni, en hins vegar verður kennt bæði þriðjudaginn eftir páska og á sumardaginn fyrsta. Þetta er meðal þess sem var ákveðið á samráðsfundum stjórnenda skólans með fulltrúum nemenda og kennara í gær.

Ekki verður kennt í VMA í dymbilvikunni, en hins vegar verður kennt bæði þriðjudaginn eftir páska og á sumardaginn fyrsta. Þetta er meðal þess sem var ákveðið  á samráðsfundum stjórnenda skólans með fulltrúum nemenda og kennara í gær.

Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA, segir að mikilvægt sé að breið samstaða sé um hvernig skólaárinu verði lokið og því hafi í gær verið farið yfir málin með bæði fulltrúum nemenda og kennurum og niðurstaða þeirra funda væri sú að ekki verði kennt í dymbilviku. Hins vegar hefjist kennsla einum degi fyrr eftir páska en skóladagatalið geri ráð fyrir, þ.e. þriðjudaginn 22. apríl en ekki miðvikudaginn 23. apríl. Þá verður kennt á sumardaginn fyrsta, þ.e. fimmtudaginn 24. apríl. Þetta þýðir að í þeirri viku, þ.e. vikunni eftir páska, vinnast tveir viðbótar kennsludagar.

Kennslu hefði átti að ljúka samkvæmt skóladagatali föstudaginn 2. maí og fyrsti prófadagur mánudaginn 5. maí. Ákveðið hefur verið að síðasti kennsludagur verði fimmtudagurinn 8. maí og fyrsti prófadagur föstudagurinn 9. maí. 

Þá er þess að geta að laugardaginn 3. maí bjóða kennarar öllum nemendum upp á stuðningstíma í sínum fögum.

Dagsetning brautskráningar verður óbreytt frá upphaflegri áætlun, þ.e. laugardaginn 24. maí.

„Mitt mat er að það hafi náðst góð niðurstaða og ég er ánægður með hversu jákvætt hljóð er í nemendum. Mér finnst almennt að allir vilji leggjast á eitt um að ljúka skólaárinu á sem allra bestan hátt. Mér fannst vera góð mæting í skólann á fyrsta degi eftir verkfall og það er mín tilfinning að brottfallið hér í skólanum vegna þessa uppihalds í skólastarfinu verði hverfandi, sem gleður mig mjög. Mér fannst áhuginn og vinnuandinn skína úr hverju andliti hér,“ segir Hjalti Jón.

Skólameistari segir hins vegar alveg ljóst að ýmislegt sem til hafi staðið að ráðast í utan hinnar venjubundnu kennslu raskist vegna þeirra þriggja vikna sem ekki var kennt. Það eigi til dæmis við um ýmislegt er lýtur að þrjátíu ára afmæli VMA á þessu ári, en meðal annars stóð til að efna til sýningar um skólann af þessu tilefni á Glerártorgi. „Við munum bíða með hana til haustsins, sem er í góðu lagi. Við högum seglum eftir vindi eins og þarf,“ segir Hjalti Jón Sveinsson.