Fara í efni

Ég stökk út í djúpu laugina!

Helena Ósk Padmavati Hilmarsdóttir.
Helena Ósk Padmavati Hilmarsdóttir.

Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Þetta eru í stuttu máli þau skilaboð sem Helena Ósk Padmavati Hilmarsdóttir, nemandi á síðustu önn á íþrótta-og lýðheilsubraut vill leggja áherslu á.

Helena hóf nám í VMA haustið 2017 og var fyrsta árið á starfsbraut. Innritaðist síðan á íþrótta- og lýðheilsubraut haustið 2018 og núna, tæpum fjórum árum síðar, er hún á lokasprettinum í námi sínu til stúdentsprófs. Árið 2020 gerði Helena hlé á námi sínu.

Lesblinda hefur alla tíð verið Helenu nokkur fyrirstaða en hún segist hafa tekist á við hana og notið skilnings í VMA, m.a. fengið lengdan próftíma og hljóðupptökur af prófum. „Hljóðbækur hafa verið mér mikilvægt hjálpartæki í náminu og ég hef aðgang að Hljóðbókasafni Íslands. Þar get ég m.a. hlustað á lestur námsbóka sem ég þarf að lesa í skólanum.“

En lesblindan er ekki það eina sem Helena hefur þurft að takast á við í lífinu. Hún er með CP hreyfihömlun (Cerebral Palsy) í hægri hluta líkamans, bæði fæti og hendi. Um helmingur þeirra barna sem greinast með CP eru fyrirburar – og það á við um Helenu. Hún fæddist í borginni Kalkútta á Indlandi, sem er í austurhluta landsins, nálægt landamærum að Bangladesh, en var ættleidd og kom til Íslands þegar hún var rúmlega fjögurra mánaða gömul.

Þrátt fyrir hreyfihömlunina heldur Helena sínu striki og hefur í gegnum árin stundað ýmsar íþróttir. Hún æfði sund á yngri árum hjá Óðni, var í frjálsíþróttum hjá UFA og núna segist hún fara oft í viku í líkamsrækt, enda kalli líkaminn á reglulegar æfingar. Að lyfta lóðum og að stunda aðra hreyfingu sé henni nauðsynlegt til þess að vinna á móti hreyfihömluninni.

Dagleg hreyfing er ekki aðeins eitthvað sem Helena þarf á að halda, íþróttir og hreyfing er hennar áhugamál. Auk þess að stunda reglulega hreyfingu hefur hún aðstoðað Dýrleif Skjóldal í sundþjálfun hjá Óðni og segist njóta þess mjög. „Eftir að hafa verið á fyrsta árinu á starfsbraut í VMA vildi ég fara á námsbraut sem gæfi mér góðan grunn fyrir það sem mig langaði til þess að læra í framtíðinni. Þess vegna valdi ég íþrótta- og lýðheilsubraut. Ég vildi stökkva út í djúpu laugina og það gerði ég. Það var auðvitað svolítið erfitt en ég hafði alltaf að leiðarljósi að mig langar að mennta mig í framtíðinni og það er allt hægt ef maður hefur metnað. Fyrir mig er það sigur að sjá núna fyrir endann á náminu í VMA og ég er ótrúlega stolt. Það er allt hægt ef maður hefur trú á sjálfum sér. Ég vil vera fyrirmynd annarra; fyrst ég get gert þetta, þá geta aðrir gert þetta líka,“ segir Helena og leggur áherslu á orð sín.

Helena segist ekki hafa farið til Indlands síðan hún fór þaðan til Íslands á fyrsta ári. Stefnan sé hins vegar að fjölskyldan fari þangað áður en langt um líður. „Ég hef alltaf talað opinskátt um að ég sé ættleidd og það hafa foreldrar mínir einnig gert. Með árunum hefur áhugi minn á ýmsu er lýtur að ættleiðingum aukist og þess vegna valdi ég að fjalla um ættleiðingar í lokaverkefninu mínu til stúdentsprófs, sem ég mun kynna á lokaverkefnisdeginum í maí,“ segir Helena.

En hvert stefnir Helena að stúdentsprófi loknu? Hún hefur velt ýmsu fyrir sér en til að byrja með segist hún hafa áhuga á að fara til Danmerkur í lýðháskóla. Síðan langi hana til þess að læra einkaþjálfarann í Keili og einnig hafi hún velt fyrir sér að læra íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík.