Fara í efni

Efna til góðgerðarsöfnunar nk. laugardag fyrir múrsteinabörn í Pakistan

Þessir kraftmiklu nemendur standa fyrir söfnuninni
Þessir kraftmiklu nemendur standa fyrir söfnuninni

Nemendur í áfanganum félagsfræði þróunarlanda vinna lokaverkefni, sem að þessu sinni felst í því að safna fjármunum til styrktar svokölluðum múrsteinabörnum í Pakistan. Það hyggjast nemendur gera með því að efna til góðgerðarsöfnunar í Gryfjunni í VMA nk. laugardag 12. maí kl. 13:00-15:00.

Eins og nafn áfangans, félagsfræði þróunarlandanna, gefur til kynna er í honum fjallað um málefni þróunarlandanna og þá fátækt sem fólk í mörgum þessara landa glímir við frá degi til dags. Upp kom sú hugmynd hjá nemendum og Hrafnhildi S. Sigurgeirsdóttur, kennara þeirra, að hafa samband við nokkur hjálparsamtök og fá upplýsingar um hvar mikil þörf væri fyrir stuðning. Að vonum kom í ljós að víða er þörf á fjárhagslegum stuðningi en niðurstaða nemenda var að styðja við bakið á múrsteinabörnum í Pakistan sem ABC hjálparsamtökin styðja. Múrsteinabörnin eru börn sem þurfa að vinna við að búa til múrsteina úr leir, til þess að lenda ekki á götunni, eins og sjá má í þessu myndbandi sem nemendur settu saman. Yfirleitt skín sólin skært á daginn og fyrir vikið verður leirinn mjög heitur og vinnumenn þurfa að bera múrsteina á milli með berum höndum.  Í Sheikhupura héraðinu í Pakistan eru hundruð barna í þrælkunarvinnu og meðferðin á börnunum er svo slæm að þeim er ekki heimilt að sækja skóla og vinnudagurinn er alla jafna 16 klukkustundir á dag sex daga vikunnar.  

Til þess að leggja múrsteinabörnunum lið ákváðu VMA-nemendurnir, sem fyrr segir, að efna til góðgerðarsöfnunar í Gryfjunni í VMA nk. laugardag, 12. maí, kl. 13:00 til 15:00. Þar verður fatamarkaður, dósasöfnun, kökusala og síðan er opið fyrir frjáls framlög.

Stofnaður hefur verið reikningur í Íslandsbanka þar sem fólk getur lagt inn fjármuni og styrkt þannig málefnið:

0565-26-400734
kt 020895-3309 

Margt smátt gerir eitt stórt. Nemendur í félagsfræði þróunarlandanna heita á nemendur og kennara í VMA og alla aðra sem vilja leggja málinu lið við að safna fötum, bókum og einhverju öðru fyrir markaðinn á laugardaginn. Hægt er að skila fötum og bókum og öðru sem fólk er tilbúið að gefa á markaðinn í kassa upp á sviðið í Gryfjunni alla daga á meðan skólinn er opinn. Tekið skal fram að hann verður lokaður nk. fimmtudag, á uppstigningardag.

Hér eru nánari upplýsingar um þetta verkefni nemenda í félagsfræði þróunarlandanna.