Fara í efni

Búið að velja Gettu betur lið VMA og æfingar hafnar

Tíminn líður og það styttist í Gettu betur – spurningakeppni framhaldsskólanna, sem er fastur liður í félagsstarfi framhaldsskólanna. Sem endranær mun keppnin hefjast í janúar 2022 þegar skólarnir keppa á Rás 2 RÚV en síðan færist hún á síðari stigum í Ríkissjónvarpið.

Aðalmenn í Gettu betur liði VMA á þessu skólaári hafa verið valdir. Aðalmenn í liðinu eru Inga Sóley Viðarsdóttir, nemi í hársnyrtiiðn, Viktor Helgi Gunnarsson, náttúruvísindabraut, og Stefán Pétur Sigurðsson, húsasmíðanemi. Varamenn eru Ásdís Einarsdóttir, fjölgreinabraut, Svavar Máni Geislason, nemandi í grunndeild matvæla- og ferðagreina, og Stefán Þórarinn Sigurðarson, nemandi á brautabrú.

Þjálfari Gettu betur liðsins í vetur er Anna Kristjana Helgadóttir, fyrrverandi formaður Þórdunu og fyrrverandi liðsmaður í Gettu betur liði VMA. Hún segir að æfingar Gettu betur liðsins séu nú þegar hafnar og æft sé að jafnaði tvisvar í viku. Núna gefist rýmri tími en oft áður til æfinga og tíminn verði nýttur vel til þess að undirbúa liðið sem best fyrir keppnina eftir áramót.