Fara í efni

Brautskráningarhátíð í Hofi

Brautskráningarhópurinn í Hamraborg í Hofi.
Brautskráningarhópurinn í Hamraborg í Hofi.
Eins og vera ber var mikill hátíðarbragur á brautskráningu nemenda frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í Menningarhúsinu Hofi síðdegis í gær. Brautskráðir voru 109 stúdentar, 38 iðnnemar, 8 af starfsbraut, 13 vélstjórar, 14 meistarar, 9 sjúkraliðar og 1 af 3ja ára listnámsbraut. Í það heila voru skírteinin 193 því margir nemendur útskrifuðust í fleiri en einni grein.

Eins og vera ber var mikill hátíðarbragur á brautskráningu  nemenda frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í Menningarhúsinu Hofi síðdegis í gær. Brautskráðir voru 109 stúdentar, 38 iðnnemar, 8 af starfsbraut, 13 vélstjórar, 14 meistarar, 9 sjúkraliðar og 1 af 3ja ára listnámsbraut. Í það heila voru skírteinin 193 því margir nemendur útskrifuðust í fleiri en einni grein.

Iðnnemarnir 38 skiptust sem hér segir á greinar: 3 kjötiðnaðarmenn, 3, matartæknar, 6 bifvélavirkjar, 10 húsasmiðir, 2 húsgagnasmiðir, 5 rafvirkjar og 9 stálsmiðir.

Við upphaf útskriftarathafnarinnar í Hofi, meðan nemendur gengu í salinn, spilaði Vilhjálmur Ingi Sigurðarson í trompet og hann gerði það sömuleiðis þegar nemendur gengu úr salnum að útskriftinni lokinni.

Myndir sem teknar voru við brautskráninguna má sjá hér

Útskriftarræða skólameistara

Í fyrri hluta útskriftarræðu sinnar ræddi Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari, um starf Verkmenntaskólans í vetur. „Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur nú sem endranær starfað af miklum krafti og allir starfsmenn hafa lagst á eitt um að árangurinn yrði sem bestur – hvort sem er á sviði gæða þeirrar þjónustu sem við veitum eða rekstrar stofnunarinnar.  Í vetur hófu rúmlega 1300 nemendur nám á haustönn og 1230 á vorönn eftir að um 90 manns brautskráðust í desember. Í dag er þessi hópur mun stærri eins og venja er á vorin eða 169 nemendur af hinum ýmsu brautum skólans. Flestir eru stúdentarir okkar, 109 talsins en síðan koma nemendur af starfsbraut og svo vélstjórar, sjúkraliðar, meistarar í iðngreinum, bifvélavirkjar, kjötiðnaðarmenn, matartæknar, bifvélavirkjar, húsasmiðir, húsgagnasmiðir, rafvirkjar og stálsmiðir.
Hópurinn gefur ágæta mynd af þeirri breidd í námsframboði sem Verkmenntaskólinn á Akureyri býður upp á.  Það er von okkar að sá hluti hópsins sem hefur aflað sér starfsréttinda standi vel undir þeim og kunni sitt fag á meðan hinir, stúdentarnir, uppfylli þær kröfur sem gerðar verða til þeirra stefni þeir á áframhaldandi nám á háskólastigi eins og þeir hafa nú rétt til.
Iðnaðarmennirnir, flestir hverjir, eiga reyndar sveinsprófið eftir þar sem þeir þurfa að sanna bæði verklega og bóklega þekkingu og hæfni sína og etja kappi við félaga sína víðs vegar af landinu. Er það ekki síður prófsteinn fyrir skólann og meistara þeirra en fyrir nemendurna – en staðreyndin er sú að nemendur okkar hafa jafnan staðið sig með prýði á sveinsprófum og oft skarað fram úr.
Í dag er líka að brautskrást fjölmennur hópur nemenda af starfsbraut. Er það von okkar að skólanum hafi tekist að búa þá vel út í lífið og þeir fari héðan með gott veganesti eftir fjögurra ára veru í skólanum. Svo mikið er víst að það hefur veitt okkur mikla ánægja um leið og það hefur verið okkur mikil uppörvun að eiga þess kost að fylgjast með þroska þeirra og framförum þennan tíma.
Á nýliðnu skólaári hefur mikill kraftur verið í skólastarfinu og mörg verkefni, sem ekki beinlínis tengjast hinum daglegu skyldum, hafa verið innt af heni. Má þar nefna að mikil áhersla hefur verið lög á að treysta samstarf og samskipti VMA við grunnskóla- og háskólasviðið annars vegar og hins vegar við atvinnulífið. Aldrei hefur verið meiri þörf fyrir það en nú að allir þessir aðilar tali sama og allir viti hvað hinn er að gera og hugsa.
Þá hefur veturinn verið óvenjuerlilsamur af þeim sökum að við höfum átt í samstarfi við fjölmarga erlenda skóla og  menntastofnanir; bæði á vettvangi Evrópusambandsins og Norðurlandanna. Höfum við af þeim sökum tekið á móti fjölmörgum nemendum, kennurum og skólastjórnendum og sent fólk frá okkur í sama mæli til þeirra. Þetta er okkur dýrmæt reynsla og þó að við búum hér norður við ysta haf þá erum við ekki eyland, síður en svo.“

Skólameistari vék síðan að nýrri aðalnámskrá Mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir framhaldsskóla, en í henni eru eru lagðir til grundvallar svokallaðir lykilþættir sem skólum ber að hafa hliðsjón af í öllu sínu starfi; sem eru læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Sagði Hjalti Jón að undanfarna mánuði hafi menn unnið að því að tileinka sér þessi hugtök og innleiða lykilþættina í skólanámskrá Verkmenntaskólans.
„Það hugtak sem ég hef átt í svolitlum vandræðum með að tileinka mér er sjálfbærnin en og hef verið að reyna á undanförnu að skilja það til hlítar. Af þeim sökum langar mig að leggja í fáum orðum út af því við þetta tækifæri. 
Í aðalnámskránni segir meðal annars um hugtakið sjálfbærni: Menntun til sjálfbærni miðar að því að gera fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags. 
Algengasti skilningur á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til afkomendanna í ekki lakara ástandi en við tókum við því og við leitumst við að mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. 
Í samfélagslegu tilliti snýst hugmyndafræðin um jöfnuð, innan kynslóðar og á milli kynslóða. Til þess að ná jöfnuði þurfum við að viðhafa lýðræðisleg vinnubrögð, hafa skilning á fjölbreytileika mannlífs og tryggja að fjölbreyttri menningu mismunandi hópa sé gert jafn hátt undir höfði. Í margbreytileika felst styrkur sem getur unnið bug á fátækt, stuðlað að friði og tryggt lífsskilyrði og lífsgæði fyrir alla hvar í heiminum sem þeir búa. Að gera sér grein fyrir mikilvægi eigin velferðar og annarra er forsenda sjálfbærrar þróunar. 
Í sjálfbærnimenntun felst að skapa samábyrgt samfélag þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði allra jarðarbúa; náttúru og umhverfi; lýðræði, mannréttindum og réttlæti; jafnrétti og fjölmenningu; velferð og heilbrigði; og efnahagsþróun og framtíðarsýn. 
Í sjálfbærnimenntun felst einnig að börn og ungmenni takist í námi sínu á við margvísleg álitamál og ágreiningsefni. Kennsla og starfshættir innan skólans skulu fléttast saman við það viðhorf að markmið menntunar sé geta til aðgerða. Í því felst þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og því að stuðlað sé að áhuga og vilja til þess að börnin og ungmennin taki þátt í samfélaginu. Þess má geta að fyrir nokkrum dögum síðan tókum við móti góðum gesti sem kom alla leiðina frá Melbourne í Ástralíu. Hann heitir William Thomas og er verkefnisstjóri á sviði sjálfbærni í skólastarfi í framhaldsskóla í heimaborg sinni. Nýlega fékk hann styrk úr virtum sjóði sem kenndur er við  sir Winston Churchill, hinn afntogaða fyrrum forsrætisráðaherra Bretlands, til þess að rannasaka innleiðingu sjálfbærni í skólastarfi á Norðurlöndunum. Því voru góð ráð dýr þegar kom að því að ræða við William um hvernig við ynnum í anda sjálfbærnihugtaksins í Verkmenntaskólanum á Akureyri.
,,Veistu það,” sagði ég við hann þegar við vorum búin að ganga með honum um skólann, ,,ég held að sjálfbærnin hér sé ekki síst fólgin í því að ef skóla á borð við  Verkmenntaskólann á Akureyri, nyti ekki við þá væri samfélagið hér ekki jafnöflugt og það er. ,,Já, þú segir nokkuð,” sagði sérfræðingurinn frá Ástralíu. 
Frá mínum bæjardyrum séð tryggir Verkmenntaskólinn á Akureyri sjálfbærni nærsamfélagsins á svo margvíslegan hátt, það er að segja, að það sé sjálfu sér nægt um svo margt. Nefna má atvinnulífið í þessu sambandi; ef VMA brautskráði ekki á ári hverju tugi vel menntaðra iðnaðarmanna og fólk með starfsmenntun af öllu tagi, þá væri það ekki nærri eins kröftugt og raun ber vitni. Í þessu samhengi má einnig nefna háskólann okkar hér á Akureyri; enginn framhaldsskóli á jafnhátt hlutfall nemenda við HA eða um 18%. Það skiptir okkur hér fyrir norðan miklu máli að geta boðið upp á sem fjölbreyttast nám; ekki bara fyrir unga fólkið á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu; því að í VMA þjónustum við miklu stærra svæði bæði fyrir vestan okkur og austan - um 25% nemenda eiga lögheimili utan Eyjafjarðarsvæðisins. 
Verkmenntaskólinn á Akureyri gegnir þýðingarmiklu hlutverki sem mótvægi við skóla á  höfuðborgarsvæðinu. Seint verður ofmetið mikilvægi hans fyrir nærsamfélagið og  landsbyggðina yfirleitt; en eins og við vitum þá heyjum við eins og aðrar stofnanir og fyrirtæki norðan heiða daglega skilmingar við stjórnvöld með það fyrir augum að jafnræðis sé gætt við skiptingu fjár og gæða á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar.“

Óásættanleg kjör kennara
Skólameistari vék síðan að umræðu um menntamál og kjörum kennara, sem hann sagði óásættanleg.
„Í nýafstaðinni kosningabaráttu var afar sjaldan minnst á menntamál. Heimilin og heilbrigðiskerfið voru aðalumfjöllunarefnið og baráttumál framboðanna snerust aðallega um þau. Álag á starfsfólk í heilbrigðiskerfinu bar oft á góma og sífelldur niðurskurður fjármuna á þeim vettvangi. Staðreyndin er sú að hið sama á við menntakerfið. Það olli óneitanlega vonbrigðum á meðal okkar skólafólks að enginn skyldi nota tækifærið – nema reyndar annar stjórnarflokkanna nokkrum dögum fyrir kosningar; en þá fóru að hljóma auglýsingar um að tímabært væri að leiðrétta laun kennara. Mikið rétt – þau hafa verið óásættanleg um langt skeið enda hafa kennarar dregist aftur úr viðmiðunarhópum innan Bandalags háskólamanna um 16 prósent – og það er engu líkara en hér sé um að ræða eitthvert náttúrulögmál því að þessi tilhneiging hefur ævinlega verið til staðar. Í þá bráðum tvo áratugi sem ég hef gegnt starfi skólameistara hér og á Laugum í Reykjadal hafa kennarar deilt um laun sín við ríkisvaldið. Oft hef ég sagt að þessi áratugalanga kjaradeila og langvarandi óánægja með laun hafi spillt fyrir faglegu starfi og starfsánægju og um leið hægt á nauðsynlegri  þróun skólakerfisins. Lág laun kennara eru líkast til í góðu samræmi við fjárveitingar til framhaldsskólastigsins sem hafa verið markvisst skornar niður síðan þremur árum fyrir efnahagshrunið eða frá árinu 2005. Á sama tíma hefur stöðugt meira fjármagni verið varið til fullorðinsfræðslunnar, sem einnig er nauðsynleg, en með fullorðisfræðslukerfinu er orðið til nýtt skólastig á Íslandi á síðustu árum; sem í raun býður aðallega upp á nám á framhaldsskólastigi. 
Nú er til dæmis verið að verja umtalsverðu opinberu fé til verkefnisins ÍSLAND 2020 sem meðal annars er fólgið í því að efla menntun fólks í atvinnulífinu en um 30% þeirra eru aðeins með grunnskólapróf. Mikil áhersla er lögð á verk- og tækninám í þessu tilliti en engu að síður virðist þess sérstaklega gætt að framhaldsskólarnir, eins og Verkmenntaskólinn á Akureyri, öflugasti tækniskólinn utan höfuðborgarsvæðisins, fái ekkert af þessum fjármunum; þó að ekki væri nema til þess að hann gæti tekið þátt í en það sem aðallega háir okkur nú er að undanfarin ár hefur skólinn ekki haft ráð á að endurnýja nauðsynleg tæki og búnað til þess að geta haldið í við þróun í atvinnulífinu. Reyndar er verið að úthluta svolitlum upphæðum til þróunar nýrra námsbrauta í starfsnámi; en aðeins fyrir nemendur á framhaldsskólaaldri og ekki síst til handa þeim sem eru yngri en 18.“

Að þjóna nærsamfélaginu         
Hjalti Jón segist vera þeirrar skoðunar að VMA sinni nærsamfélagi sínu vel og sé í góðu sambandi við umheiminn. 
„En hvernig skilgreinum við nærsamfélagið? Það getur verið svo afstætt en ég leyfi mér að nefna fyrst hið svokallaða EYÞINGSSVÆÐI.
Okkur bíður að mínu mati mikil áskorun sem er fólgin í því að gera nágrönnum okkar í Þingeyjarsýslum kleift að sækja verk- og tækninám hingað í VMA, bæði fólki á vinnumarkaðinum og ungmennum á framhaldsskólaaldri. Vaðlaheiðargöngin eru nú í burðarliðnum en með tilkomu þeirra verður rutt úr vegi síðustu hindruninni á þeirri vegferð að gera EYÞINGSSVÆÐIÐ að einum mennta- og atvinnuvettvangi. Það er von mín að með samstarfi við Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Þekkingarnet Þingeyinga á Húsavík og Framhaldsskólann á Húsavík muni okkur takast að þróa raunhæfa leið í þessum efnum. Ef nágrannar okkar í austri ætla sér að fara koma á fót virkjunum og orkufrekum iðnaði er tæknimenntað fólk lykilatriði. Um gæti verið að ræða lotunám í VMA í verklegum áföngum, fagbóklega kennslu í gegnum fjarfundabúnað en kennslu bóklegra greina í heimabyggð. Í lok síðasta árs sóttu þessir aðilar sameiginlega um svokallaðan IPA-styrk til Evrópusambandsins – sem fékkst því miður ekki. En umsóknarferlið var mjög lærdómsríkt og nú búum við að því að hafa talað saman og stillt saman strengi okkar. Það er von mín að þetta þróunarverkefni geti af þeim sökum orðið að veruleika áður en langt um líður. Það er afar brýnt að allir aðilar hér á norðuaustursvæðinu taki höndum saman.“

 Brottfall og ótti við stærðfræði
„Við stöndum frammi fyrir því verkefni núna að reyna eins og frekast er kostur að koma til móts við fleiri nemendur en okkur hefur tekist hingað til. Allt of mörg ungmenni hrekjast burt úr framhaldsskólum með brotna sjálfsmynd án þess að okkur hafi tekist að koma þeim nokkuð áleiðis á menntabrautinni. Óhætt er að segja að hræðsla unglinga við stærðfræði sé í allt of mörgum tilvikum ein meginástæðan fyrir því að nemendum tekst ekki að ljúka framhaldsskólanámi eða gefast upp á því. Sem betur fer ljúka flestir þeim stærðsfræðieiningum sem gerð er krafa um á hinum ýmsu námsbrautum; sumir án þess að stærðfræðin hafi þvælst fyrir þeim; en aðrir eftir illan leik og margar tilraunir. Okkur er mikil nauðsyn á því að vekja áhuga þeirra nemenda sem koma til okkar úr grunnskóla með þá hugmynd í kollinum að stærðfræðin sé með öllu óviðráðanleg. Margir eru svo illa haldnir af þessari vantrú á eigin getu; að þeir reyna ekki einu sinni.
Það er okkar hlutverk að koma nemendum til þroska og koma til móts við þá eins og frekast er kostur. Okkur má ekki standa á sama um árangur þeirra. Í svokölluðum kennslukönnunum sem lagðar eru fyrir nemendur VMA reglulega í hinum ýmsu greinum og viðhorfskönnunum á kemur fram að þeir meta kennara meðal annars eftir því hvort þeim þykir að þeir séu áhugasamir um gengi þeirra í náminu. Því meir sem kennara er umhugað um það, því hærri einkunn fær hann. Betri árangur nemenda í stærðfræði er sameiginlegt áskorun okkar stjórnenda og kennara á næstunni. Og umfram allt ber okkur að kappkosta að halda þeim í skólanum og reyna af öllu megni að koma í veg fyrir að þeir hverfi brott vegna þess að okkur tókst ekki að laða fram hæfileika þeirra. Okkur getur stundum verið einkar lagið að velta okkur upp úr veikleikunum í stað þess að ýta undir og laða fram styrkleikana.
Ég vil leyfa mér að vitna í svar eins nemanda við spurningunni um hvað einkennir góðan kennara fyrir utan það að kunna fag sitt vel: „Að hann sé góður í samskiptum, jákvæður, hafi húmor og láti nemendum líða vel.”

Félagslíf og fjölmiðlaumræða
Hjalti Jón sagði félagslífið hafa verið með ágætum í skólanum í vetur sem endranær.
„Það getur verið vandasamst að ganga á hæfilegum hraða í gegnum gleðinnar dyr og má segja að við höfum verið áþreifanlega minnt á það á nýliðnu skólaári. Skemmtanir nemenda VMA komust á vefmiðlana nokkrum sinnum á haustönninni þó svo að við teldum tilefnin ekki vera annað en í mesta lagi ,,ekki-fréttir”. Í fréttaflutningi gætti mikils hroka, jafnvel hræsni og vanvirðingar á því sem ungmenni leyfa sér að hafa gaman af ekki síður en hinir sem eldri eru. Til þess að reka af sér slyðruorðið efndu nemendur okkar til landssöfnunar meðal framhaldsskólanema á öllu landinu í þágu stríðshrjáðra barna í Sýrlandi og gátu sér gott orð fyrir. Þetta var svar þeirra við neikvæðri og vægast sagt illgjarnri umræðu skömmu áður. Við vorum stolt af þessu framtaki þeirra sem fékk á dögunum viðurkenningu frá Samfélags- og mannréttindaráði Akureyrarbæjar.
Á vorönn fóru fram hefðbundnir viðburðir á borð við söngkeppni og árshátíð sem voru öllum til sóma sem áttu þar hlut að máli. Við höfum státað af því að halda vímulausar skemmtanir í skólanum og þekkjast varla tilvik þar sem við höfum þurft að hafa afskipti af nemendum sökum ölvunar eða neyslu fíkniefna. Þó brá svo við á svokallaðri dimmissíon útskriftarnema á dögunum að undantekning varð á; sem landsfrægt varð. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þá uppákomu – en að gefnu tilefni er ljóst að við munum í samráði við næsta brautskráningarhóp endurskoða framkvæmd dimmissíonar og skerpa á auðskildum reglum og lögum sem gilda á þeim vettvangi sem öðrum innan skólans.
Oft höfum við kvartað undan því að fjölmiðlar séu ævinlega reiðubúnir að gera sem mest úr neikvæðum fréttum þegar slíkt sé í boði – aftur á móti hafi þeir minni áhuga á að koma á framfæri jákvæðum fréttum af skólastarfi. Til þess að bæta úr þessu ákváðum við um áramótin að birta eina frétt af skólastarfinu alla virka daga á vorönninni á heimasíðu skólans. Raunin varð sú að fréttirnar urðu 115 og birtust á 93 virkum skóladögum. Þessi áætlun gekk því eftir og vel það  og eru allir sammála um að tilraunin hafi gengið framar vonum. Fréttirnar hafa verið fjölbreyttar og má segja að þær hafi ekki síst komið okkur sjálfum á óvart, bæði nemendum og starfsfólki skólans. Þær hafa jafnframt ratað víða og oft orðið til þess að vekja áhuga fjölmiðlafólks sem hefur síðan gert frekari grein fyrir mörgum skemmtilegum og fróðlegum þáttum í starfi skólans. Ekki síst hafa verið áberandi fréttir af hvers  konar afrekum nemenda okkar bæði í námi og félagslífi og framúrskarandi vinnu kennara og annars starfsfólks. Við höfum ekki þurft að setja okkur í neinar sérstakar stellingar af þessu tilefni heldur hefur hér verið um að ræða lifandi fréttaflutning af okkar daglega starfi.“

Ávarp til brautskráningarnema
„Ágætu brautskráningarnemar.
Nú, sem endranær, á stund sem þessari, langar mig að brýna fyrir ykkur nokkur mikilvæg gildi – eins og það að bera virðingu fyrir viðhorfum og skoðunum annarra. Að sýna samferðarfólki ykkar umburðarlyndi á lífsins leið og vera æðrulaus gagnvart því sem þið ráðið ekki við. Hlustið á sjónarmið annarra og gefið gaum að mismunandi sjónarmiðum.
Það er til að mynda ekkert það starf svo ómerkilegt að það eigi ekki skilið af vera leyst af hendi af fyllstu alúð og samviskusemi. Verið trú yfir því sem ykkur er treyst fyrir – í stóru sem smáu.
Þá vil ég biðja ykkur að bera virðingu fyrir og vera trú uppruna ykkar og heimabyggð – fara vel með tungumálið sem þið innbyrtuð með móðurmjólkinni. Nýtið hæfileika ykkar. Það er alltaf hægt að bæta sig og munið að svo lengi lærir sem lifir – að það er aldrei of seint að byrja á nýju verkefni; og þegar nám er annars vegar þá vinnur tíminn ævinlega með manni.
Loks vil ég þakka samstarfsfólki mínu fyrir vel unnin störf á önninni og undirbúning og framkvæmd þessarar hátíðar okkar í dag.

Ágætu gestir.
Brautskráningarnemum og aðstandendum þeirra, starfsfólki og öðrum gestum óska ég gleðilegs sumars og þakka öllum fyrir þessa góðu stund hér í Hofi.“

Tónlistaratriði, ávörp og brautskráning
Á milli atriða fluttu þrír nemendur við VMA tónlistaratriði. Þetta voru þau Védís Á Beck Valdemarsdóttir, flauta, Jóhann Freyr Óðinsson, gítar og söngur og Valdís Eiríksdóttir, söngur.
Að þessu sinni brautskráðust 169 nemendur brautskráðir frá skólanum eins og áður segir af hinum ýmsu námssviðum og brautum.
Kennslustjórar afhentu nemendum prófskírteini sín: Jónas Jónsson  kennslustjóri samfélagsfræðasviðs, Borghildur Blöndal kennslustjóri raungreinasviðs, Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir, kennslustjóri starfsbrautar, Arna Valsdóttir  kennslustjóri listnámsbrautar, Baldvin Ringsted  kennslustjóri tæknisviðs og Ingimar Árnason  kennslustjóri fjarnáms.

Ávörp við brautskráninguna fluttu annars vegar nýstúdentinn Hlynur M. Árnason og hins vegar 25 ára stúdent frá VMA, Sigfús Aðalsteinsson, kennari á Akureyri.

Verðlaun og viðurkenningar
Aðalbjörg G Gunnarsdóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi áranagur í íslensku á stúdentsprófi. Gefandi er Eymundsson á Akureyri.

Pétur Örn Helgason hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í ensku. Gefandi er Kanadíska sendiráðið í Reykjavík. Pétur Örn fékk jafnframt viðurkenningu fyrir frábæran árangur í þýsku. Gefandi er Þýska sendiráðið í Reykjavík.

Atli Freyr Einarsson hlaut einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur í þýsku frá Þýska sendiráðinu í Reykjavík.

Halldór Darri Guðjónsson fékk verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum. Gefandi er Norðurorka. Halldór Darri hlaut einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í dönsku. Gefandi er Danska sendiráðið í Reykjavík.

Gréta Óladóttir fékk sömuleiðis viðurkenningu fyrir góðan árangu í dönsku frá Danska sendiráðinu.

Sigrún Birna Kristjánsdóttir fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í samfélagsgreinum. Gefandi er Minningarsjóður um Albert Sölva Karlsson, kennara.

Elfur Sunna Baldursdóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í textílgreinum á listnámsbraut. Gefandi er Kvennasamband Eyjafjarðar.

Ragnheiður Vilma Ingvarsdóttir  hlaut einnig viðurkenningu  fyrir framúrskarandi árangur í textílgreinum á listnámsbraut. Gefandi er Kvennasamband Eyjafjarðar

Sigurður Heimir Guðjónsson  hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í listgreinum.  Gefandi er Kanadíska sendidráðið í Reykjavík.

Ragnheiður Vilma og Sigurður Heimir fengu jafnframt verðlaun fyrir bestan árangur á stúdentsprófi. Gefandi er Flugfélag Íslands.

Sara Jane Friðriksdóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í spænsku. Gefandi er Ferðaskrifstofa Akureyrar.

Anna Kristín Halldórsdóttir fékk viðurkenningu fyrir bestan árangur í efnafræði. Gefandi er Efnafræðingafélag Íslands. Anna Krístín fékk einnig verðlaun  fyrir bestan árangur í raungreinum frá Háskólanum í Reykjavík. Um er að ræða vegleg bókaverðlaun sem veitt verða þeim nemanda sem hlýtur hæstu meðaleinkunn í raungreinum af náttúrufræðibraut í hverjum framhaldsskóla. Auk þess fá verðlaunahafar sem kjósa að hefja nám við Háskólann í Reykjavík nýnemastyrk og niðurfelld skólagjöld fyrstu önnina í námi. Anna Kristín fékk sömuleiðis verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði. Gefandi er Gámaþjónusta Norðurlands.

Axel Sigurjón Eyjólfsson og Unnar Bjarki Egilsson hlutu verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum vélstjórnar. Gefandi er Norðurlandsdeild Tæknifræðingafélags Íslands. Axel Sigurjón og Unnar Bjarki hlutu jafnframt viðurkenningu frá félagi Vélstjóra og málmiðnaðarmanna fyrir framúrskarandi lokaverkefni.

Andri Sigurjónsson hlaut viðurkenningu frá Byggiðn, Félagi byggingamanna, fyrir bestan árangur í faggreinum í húsasmíði.

Guðrún Björg Eyjólfsdóttir hlaut viðurkenningu frá  Byggiðn, Félagi byggingamanna, fyrir bestan árangur í faggreinum í húsgagnasmíði.

Haukur Marteinsson hlaut viðurkenningu fyrir bestan árangur í faggreinum stálsmíði.

Gefandi er Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri.

Egill Stefán Jóhannsson fékk viðurkenningu fyrir bestan árangur í faggreinum bifvélavirkjunar. Gefandi er Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri.

Eygló Helga Þorsteinsdóttir fékk viðurkenningu fyrir bestan árangur í faggreinum matartækna. Gefandi er Lostæti á Akureyri.

Sigurlaug Stefánsdóttir, sjúkraliði, fékk viðukenningu fyrir bestan árangur í hjúkrunargreinum. Gefandi er Sjúkrahúsið á Akureyri.

Ívar Skarphéðinsson,  nemandi á Starfsbraut, hlaut viðurkenningu fyrir miklar framfarir í námi og góða mætingu. Gefandi er Nýherji á Akureyri.

Eftirtaldir nemendur fengu blómvönd frá skólanum fyrir að hafa starfað dyggilega að félagslífi í skólanum og fyrir dugnað og ósérhlífni í þágu félaga sinna. Ýmist gegndu þessir nemendur ábygðarstörfum fyrir nemendafélagið Þórdunu tekið eða lögðu gjörfa hönd á plóginn á einhverjum sviðum skólalífsins: 
Elísabet K. Kristmundsdóttir, Guðrún Ösp Erlingsdóttir, Hlynur M. Árnason, Pétur Elvar Sigurðsson, Sigurður Heimir Guðjónsson, Valdís Eiríksdóttir og Védís Á Beck Valdemarsdóttir.