Fara í efni

Brautskráning og skólaslit Verkmenntaskólans á Akureyri í Hofi 21. maí 2011

Brautskráning og skólaslit Verkmenntaskólans á Akureyri fóru fram í frábærum húsakynnum í Hofi 21. maí 2011.  Veitt voru verðlaun fyrir góðan námsárangur og blómvendi fengu nokkrir nemendur fyrir góða og virka þátttöku í skólastarfi.

Brautskráning og skólaslit Verkmenntaskólans á Akureyri fóru fram í frábærum húsakynnum í Hofi 21. maí 2011.  Veitt voru verðlaun fyrir góðan námsárangur og blómvendi fengu nokkrir nemendur fyrir góða og virka þátttöku í skólastarfi.


Tónlistaratriði veittu gestum gleði og hlýju á köldum degi.  Hjalti Jón Sveinsson skólameistari flutti hnitmiðaða ræðu og fer hún hér á eftir:  

Ágætu brautskráningarnemar, aðstandendur, samstarfsfólk og aðrir gestir.  Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á brautskráningu Verkmenntaskólans á Akureyri hér í Hofi þar sem við erum nú í annað sinn.

Reyndar var fjöldinn sem brautskráðist héðan rétt fyrir jólin talsvert minni, eða 90 manns. En það er von okkar að við getum notað þetta glæsilega hús okkar Akureyringa líka undir þessa athöfn að vori þó fjöldinn sé nánast helmingi meiri en þó aðeins með því að nota báða salina; Hamraborgina sem við erum stödd í núna og Hamra hér við hliðina.  - Og á þessum hátíðardegi er snjór og frost en þannig var vorið 2006 að þegar við vorum rétt að ljúka við að stilla okkur upp til myndatöku utan við skólann fór að snjóa og það snjóaði síðan alla helgina. Ég er aftur á móti sannfærður um að í dag eru allir með sól í hjarta.Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur nú sem endranær starfað af miklum krafti og allir starfsmenn hafa lagst á eitt til þess að árangurinn yrði sem bestur hvort sem er á sviði gæða þeirrar þjónustu sem við veitum eða rekstrar stofnunarinnar.  Í vetur hófu um 1300 nemendur nám á haustönn og 1230 á vorönn eftir að um 90 manns brautskráðust í desember. Í dag er þessi hópur mun stærri eins og venja er á vorin eða 175 nemendur af hinum ýmsu brautum skólans.
Hópurinn gefur ágæta mynd af þeirri breidd í námsframboði sem Verkmenntaskólinn á Akureyri býður upp á  Það er von okkar að sá hluti hópsins sem hefur aflað sér starfsréttinda standi vel undir þeim og kunni sitt fag á meðan hinir, stúdentarnir, uppfylli þær kröfur sem gerðar verða til þeirra stefni þeir á áframhaldandi nám á háskólastigi eins og þeir hafa nú rétt til.
Iðnaðarmennirnir eiga reyndar sveinsprófið eftir þar sem þeir þurfa að sanna bæði verklega og bóklega þekkingu og færni sína og etja kappi við félaga sína víðs vegar af landinu. Er það ekki síður prófsteinn fyrir skólann en fyrir nemendurna en staðreyndin er sú að nemendur okkar hafa jafnan staðið sig með prýði á sveinsprófum og oft skarað fram úr.
Í dag er líka að brautskrást fjölmennur hópur nemenda af starfsbraut. Er það von okkar að skólanum hafi tekist að búa þá vel út í lífið og þeir fari héðan með gott veganesti eftir fjögurra ára veru í skólanum. Svo mikið er víst að það hefur veitt mér mikla ánægju um leið og það hefur verið mér mikil uppörvun að eiga þess kost að fylgjast með þroska þeirra og framförum þennan tíma.

Rekstrarumhverfi íslenskra framhaldsskóla hefur verið afar erfitt á síðustu misserum en stjórnvöld hafa fyrirskipað umtalsverðan niðurskurð eða lækkun útgjalda í opinberum rekstri sem mun verða óhjákvæmilegur á næstu árum á meðan íslenska þjóðin freistar þess að ná vopnum sínum á ný. Í ár þurfum við að reka skólann fyrir nær 100 milljónum færri krónur en árið 2009 og á næsta ári er farið fram á enn meiri niðurskurð útgjalda. Er því sannarlega við ramman reip að draga ef skólanum er ætlað að halda uppi sömu þjónustu og hingað til.
Síðastliðnar annir hefur verið hagrætt í rekstri Verkmenntaskólans á Akureyri með margvíslegum hætti; meðal annars með því að fækka hópum í stórum námsgreinum og fjölga nemendum í þeim hópum sem eftir hafa staðið. Af þessum sökum hefur kennslumagn í ákveðnum greinum minnkað umtalsvert og álag á suma kennara aukist um leið og kennslumagn í heildina hefur minnkað. Þá hefur fyrirkomulagi ræstinga verið breytt í sama tilgangi en í báðum tilvikum hefur það jafnframt verið haft að leiðarljósi að þjónusta sé skert sem allra minnst. Hið sama gildir um orkunotkun og hvaðeina hefur verið skoðað í þeim tilgangi að hugsanlega megi draga úr útgjöldum og hagræða í rekstrinum. 
Kröfur um sparnað í íslenskum framhaldsskólum hafa löngum verið ofarlega á blaði hjá stjórnvöldum og komu þær til löngu áður en íslenskt efnahagshrun átti sér stað. Þegar þar var komið sögu hafði verið hagrætt í rekstri skólanna um mörg hundruð milljónir króna á árunum á undan. Það var því ekki af miklu að taka og nú er svo komið að farið er að reyna á sársaukamörk bæði nemenda og starfsfólks. Lengra verður tæpast gengið.
Hvað sem öðru líður er mikilvægt að Verkmenntaskólinn á Akureyri geti þrátt fyrir allt gegnt meginhlutverki sínu; sem verður að bjóða ungu fólki á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu upp á fjölbreytt verk- og bóknám. Þá hefur skólinn gegnt mikilvægu hlutverki fyrir nágranna okkar bæði í austri og vestri og höfum við verið stolt af því.


Mig að þakka þeim nemendum sem eru að kveðja okkur nú og hafa verið gestir okkar hér á Akureyri meðan á skólagöngunni hefur staðið. Akureyri er ýmist kallaður skólabærinn fyrir norðan eða höfuðborg hins bjarta norðurs.  Bæði heitin eiga vel við að mínum dómi. Ánægjulegt er að eiga þess kost að geta tekið á móti nemendum sem koma víða að. Heimavistin sem VMA og MA reka í sameiningu hefur mótað samfélag sem við getum verið stolt af og hýsir 350 nemendur þar af helminginn héðan. Þessir vetrargestir glæða samfélagið bæði hér í bænum og í skólunum um leið og þeir víkka sjóndeildarhring okkar.

Ég get ekki annað en fundið til með stjórnendum og starfsfólki litlu framhaldsskólanna í nágrenninu eins og á Húsavík. Þar hefur farsæll framhaldsskóli starfað um árabil og sinnt mjög vel þörfum nærsamfélagsins að minnsta kosti á sviði bóknáms og að nokkru leyti verknáms einnig. Ef heldur fram sem horfir verður honum gert ókleift að gegna hlutverki sínu og yrði það óbærileg blóðtaka fyrir samfélagið þar. Þetta gæti gerst víðar og spurningin er sú hvort stórir skólar á borð við VMA geti komið til aðstoðar á einhvern hátt. Við erum sannarlega tilbúin til þess en til þess að svo megi verða þurfa stjórnvöld að móta sér stefnu um það hvort þessir skólar, eins og á Húsavík,  eigi að fá að lifa í óbreyttri mynd eða ekki. Við gætum örugglega lagt hér hönd á plóginn með margvíslegum hætti til þess að farsælu skólastarfi blæði ekki út en til þess að svo megi verða þarf að líkindum að búa til nýtt rekstrarform.

En þrátt fyrir brimskafla og blikur á lofti reynum höfum við haldið dampi og ég held að skólastarfið hafi sjaldan verið jafnkröftugt og í ár og kemur það fram í mörgum og mismunandi birtingarmyndum. Í því sambandi má nefna allan þann sköpunarkraft sem víða má finna stað í vinnu nemenda í hinum ýmsu deildum. Má þessu sambandi nefna listnámsbrautina sem hefur verið að vaxa og dafna ár frá ári. Á dögunum héldu nemendur hennar sýningu á lokaverkefnum sínum í verksmiðjuhúsunum á Hjalteyri þar sem gat að líta myndlist,  fatahönnun og fatasaum, kveðskap, videóverk og tónlist.  Sjón var sögu ríkari og kom það mér til dæmis á óvart þegar ég skoðaði og velti á milli handa minna og fletti bókum; þar sem að finna mátti listilega gerðar teikningar, ljóð og prósa allt í senn. Blandað var saman ritlist og myndlist á skemmtilegan hátt. Maður getur ekki annað en fyllst stolti þegar maður virðir fyrir sér þessi verk nemenda. Hver og einn fær að láta sköpunargleði sína og sköpunarþörf þroskast og mótast undir dyggri handleiðslu kennara sinna.

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni hversu vinna hefur dregist mikið saman á starfsvettvangi byggingarmanna eftir mikla uppgangstíma á árunum 2000-2008. Það fór heldur ekki á milli mála hér í skólanum þegar best lét en þá vorum við með allt að 50 nemendur í grunndeild byggingargreina. Það er því greinilega tímanna tákn að aðeins 10 hafa sótt þar um skólavist næsta haust. Skýringanna má leita til minnkandi umsvifa á þessu sviði atvinnulífsins sem þýðir að meistarar halda að sér höndum; hafa sagt upp fjölda manns og af sjálfu sér leiðir að þeir taka ekki iðnnema á samning.
Ég tel einboðið að farið verði í það sem fyrst að koma á því kerfi sem ný lög um framhaldsskóla gera ráð fyrir og lúta að því að framhaldsskólarnir sjálfir skipuleggi vinnustaðanám iðnnema. Komi það í stað hins svokallaða meistarakerfis sem gerir ráð fyrir því að iðnnemar séu á samningi og í vinnu hjá meisturum á námstíma sínum í að minnsta kosti þrár annir. Í stað samnings hjá meistara myndi skólinn skipuleggja vinnustaðanám með því að gera námssamninga við ákveðin fyrirtæki eins og í byggingargreinum. Skólinn tryggði nemandanum þjálfun á hverjum stað sem miðaði að því að hann hlyti sem fjölbreytilegasta kennslu og þjálfun sem tryggði að hann uppfyllti örugglega kröfur námskrár um færni, hæfni og þekkingu. Meistarar þyrftu þá ekki að skuldbinda sig til þess að hafa næga vinnu fyrir nemandann af mismunandi tagi allan námstímann. Á þennan hátt væri unnt að sjá til þess að nemendur fengju bestu fáanlega vinnustaðaþjálfun á sínu sviði með því að tryggja nauðsynlega fjölbreytni annars vegar og það að faglegum kröfum yrði mætt í hvívetna. Þetta myndi gera okkur jafnframt kleift að geta leitað fanga um vinnustaði víðar en á nærsvæði skólans auk þess sem aðsókn í verknám yrði ekki eins háð aðstæðum á vinnumarkaði og nú er raunin. Einmitt nú, þegar atvinnuástandið er eins og raun ber vitni, á ungt fólk, og aðrir sem ekki hafa lokið skilgreindu námi, að sækja sér menntun til þess að standa betur að vígi og vera tilbúnir fullmenntaðir þegar hjól atvinnulífsins fara að snúast á ný. Við verðum að vona að þess verði ekki langt að bíða.


Það er sama hvar borið er niður; mennt er máttur og á erfiðum tímum er tækifæri til þess að nota tímann í þessum tilgangi. Menntunin er það sem gerir okkur sterk og æ meiri kröfur eru gerðar um fagmenntun og háskólamenntun þegar fólk er ráðið í störf. Góð menntun af hvaða tagi sem er gerir okkur samkeppnisfærari bæði hér heima og erlendis. Að mennta sig tryggir að við eigum þess fremur kost að geta valið um störf. Þeir sem ekki hafa öðlast menntun verða að taka því sem býðst hvort sem þeim líkar það betur er verr. Ég segi þetta oft við þá nemendur sem eru að missa flugið og eru að hugsa um að hætta í skólanum. Oft duga engar fortölur, því miður, en þá segi ég jafnframt að ef viðkomandi snýst hugur þá sé aldrei of seint að byrja í námi á ný; því að tíminn vinnur alltaf með þeim sem eru í skóla.
Það eru mikil forréttindi að eiga kost á að stunda nám í skóla á borð við  Verkmenntaskólann á Akureyri.

Félagslíf í vetur hefur verið fjörugt að vanda og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því. Nemendur hafa haldið hvern stórviðburðinn á fætur öðrum, eins og glæsilega árshátíð og söngkeppni, þar sem mörg hundruð ungmenni komu saman og skemmtu sér án vímuefna.
 Vil ég nota tækifærið og þakka stjórn Þórdunu, nemendafélags skólans, fyrir gott starf í vetur og samvinnu í hvívetna, og öllum hinum fjölmörgu sem hafa átt hlut að máli. Þá eiga fulltrúar kennara í félagslífi nemenda, forvarnarfulltrúi einnig og fleiri starfsmenn  heiður skilinn fyrir þeirra stóra þátt í því að skapa þennan metnaðarfulla skólabrag og vera unga fólkinu okkar til ráðgjafar og aðstoðar.
Þá get ég ekki látið hjá líða að nefna frækilega frammistöðu nemenda á starfsbraut en stór hópur þeirra, eða 15, er að brautskrást í dag. Þau hafa verið einstaklega iðin og áhugasöm að taka þátt ekki bara í félagslífinu innan skólans heldur einnig meðal starfsbrauta á öllu landinu. Má í því sambandi geta þess að eitt árið sigruðu þau í söngkeppni starfsbrauta með glæsibrag og fyrir stuttu stóðu þau sig mjög vel í stuttmyndkeppninni sem einnig er árlegur viðburður.

Gæði skóla ber að meta á faglegum grundvelli. Þar stendur Verkmenntaskólinn á Akureyri vel að vígi. Hér eru vel menntaðir kennarar í öllum stöðum og nánast allir með tilskilin kennsluréttindi í framhaldsskóla. Við erum líka svo lánsöm að yfirleitt sækja margir um þær kennarastöður sem auglýstar eru við skólann; en starfsmannavelta er reyndar mjög lítil. Í skólanum er jafnframt mikill mannauður í öðru starfsfólki og má segja að hér sé valinn maður í hverju rúmi. 
Fyrir fáum árum var tekið upp gæðakerfið ISO9001 hér í skólanum. Var okkur nauðsynlegt  að stíga þetta skref til þess að fá alþjóðlega vottun til þess að mega fullmennta og brautskrá  vélstjóra. Af þeim sökum var gæðakerfinu í fyrstu beint að því námi sem vélstjórnarnemar þurfa að taka við skólann. En fyrr en varði var svo komið að meira og minna allt skólastarfið var farið að lúta gæðakerfinu. Nú er svo komið að frá og með þessum mánuði erum við komin með hina alþóðlegu gæðavottun á gjörvallt skólastarfið að undaskildu fjarnáminu, en stefnt er að því að það verði komið undir þennan hatt áður en árið er á enda runnið. Þetta er að okkar mati stór áfangi og hafa útskriftarnemendur okkar nú fengið ISO-gæðastimpilinn á námsferilsblöð sín, sem gæti reynst þeim mikils virði síðar meir ef þeir sækja til dæmis um skóla erlendis. Af þessum áfanga getum við ekki annað en verið stolt.
Eftir því sem ég best veit eru Verkmenntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn í Kópavogi einu skólarnir í landinu sem náð hafa þessu marki.


Nú fer fram brautskráning og flutt er tónlistaratriði:
Kristrún Hildur Bjarnadóttir og Guðmundur Ingi KristjánssonVerðlaunaafhending

Þá er komið að afhendingu verðlauna til þeirra nemenda sem hafa skarað fram úr í hinum ýmsu greinum. Vil ég biðja samstarfskonu mína, Sigríði Huld Jónsdóttur, aðstoðarskólameistara um að leggja mér lið.

Anna María H. Sigmundsdóttir  hlýtur verðlaun fyrir bestan árangur í textílgreinum á listnámsbraut og hæstu meðaleinkunn á listnámsbraut.
Gefandi er Kvennasamband Eyjafjarðar (c.o. Margrét Baldursdóttir)

Erna Hermannsdóttir hlýtur verðlaun fyrir bestan árangur í  myndlistargreinum á listnámsbraut.
Gefandi er kanadíska sendiráðið í Reykjavík.

Erla Hrönn Harðardóttir fær verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ensku.
Gefandi er kanadíska sendiráðið í Reykjavík.

Úlfur Guðjónsson hlýtur einnig viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í ensku.
Gefandi eru Sérleyfisbílar Akureyrar.

Kristinn Björn Haraldsson  fær verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku.
Gefandi er verslunin Eymundsson á Akureyri.
Kristinn Björn fær einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur í þýsku. Gefandi er þýska sendiráðið í Reykjavík.

Erla Björk Haraldsdóttir fær verðlaun fyrir góðan árangur í þýsku.
Gefandi er þýska sendiráðið í Reykjavík.

Þorsteinn Helgi Valsson fær verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í viðskiptagreinum.
Gefandi er verslunin A4 á Akureyri.

Sigurjón Þórsson fær verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í sögu.
Gefandi er minningarsjóður um Albert Sölva Karlsson kennara.

Hugi Hlynsson fær verðlaun fyrir bestan árangur í raungreinum.
Gefandi er Gámaþjónusta Norðurlands.
Hugi  hlýtur einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði á stúdentsprófi.
Gefandi er Stefna Hugbúnaðarhús á Akureyri.

 og fyrir góðan árangur í þýsku.
Gefandi er þýska sendiráðið í Reykjavík.


Bjarni Salberg Pétursson fær einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum.
Gefandi er Háskólinn í Reykjavík.


Jórunn Karlsdóttir hlýtur verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum sjúkraliða.
Gefandi er Sjúkrahúsið á Akureyri.


Hjördís Ólafsdóttir  hlýtur verðlaun fyrir góðan árangur í spænsku.
Gefandi er Ferðaskrifstofa Akureyrar.

Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir  hlýtur viðurkenningu fyrir frábæran árangur í  samfélagsgreinum.
Gefandi er Nýherji á Akureyri.

Jóhann Birgisson fær viðurkenningu fyrir bestan árangur í faggreinum bifvélavirkjunar
Gefandi er Bílaleiga Akureyrar.

Herbert Hjálmarsson  hlýtur viðurkenningu frá Fagfélaginu fyrir bestan árangur í faggreinum í húsasmíði.

Björn Torfi Björnsson hlýtur viðurkenningu frá Fagfélaginu fyrir bestan árangur í faggreinum í húsgagnasmíði.

Þorgrímur Guðmundsson hlýtur verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum vélstjórnar. Gefandi er Norðurlandsdeild Verk- og tæknifræðingafélags Íslands.

... fyrir bestan árangur á stúdentsprófi
Gefandi er Íslandsbanki á Akureyri.

Þá vil ég kalla hingað upp Vilhjálm Konráð Ísleifsson.
Hann hlýtur sérstaka viðurkenningu fyrir að vera góður skólaþegn og hafa mætt 100% í allar kennslustundir frá því hann hóf nám við skólann fyrir fjórum árum. Hann er sannarlega öðrum fyrirmynd. Flugfélag Íslands á Akureyri gefur honum gjafabréf sem hljóðar upp á flugfar til Reykjavíkur og til baka.

Blómvendir:
Við afhendum ávallt nokkrum nemendum  sem  hafa starfað dyggilega að félagslífi í skólanum blómvönd sem þakklætisvott fyrir dugnað og ósérhlífni í þágu félaga sinna.
Ýmist hefur það ágæta fólk gegnt ábyrgðarstörfum fyrir nemendafélagið Þórdunu tekið eða lagt gjörva hönd á plóginn á einhverjum sviðum skólalífins.

Arnar Ingi Tryggvason
Arnór Ingi Hansen
Darri Arnarson
Erla Hrönn Harðardóttir
Grétar Bragi Hallgrímsson
Gunnar Sigfús Björnsson
Gylfi Heiðar Ómarsson
Herbert Hjálmarsson
Hugi Hlynsson
Kristinn Björn Haraldsson
Kristrún Hildur Bjarnadóttir
Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir
Ragnar Heiðar Sigtryggsson
Róbert Örn Guðmundsson
Sigurjón Þórsson
Ugla Stefanía Jónsdóttir.

Ávarp brautskráningarnema: Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir. Ávarp 20 ára stúdents: Þóra Víkingsdóttir. Ávarp 25 ára stúdents: Sigfús Karlsson.

Kveðja og skólaslit
Ágætu brautskráningarnemar.
Nú, sem endranær, á stund sem þessari, langar mig að brýna fyrir ykkur nokkur mikilvæg gildi eins og það að bera virðingu fyrir viðhorfum og skoðunum annarra. Að sýna samferðarfólki ykkar umburðarlyndi á lífsins leið og vera æðrulaus gagnvart því sem þið ráðið ekki við. Hlustið á sjónarmið annarra, þó að þið séuð ekki alltaf sammála, og gefið gaum að mismunandi sjónarmiðum samferðafólks ykkar. Umgangist alla þá er á vegi ykkar verða af sömu alúð háa sem lága.
Það er til að mynda ekkert það starf svo ómerkilegt að það eigi ekki skilið af vera leyst af hendi af fyllstu alúð og samviskusemi. Verið trú yfir því sem ykkur er treyst fyrir í stóru sem smáu.
Verið þakklát fyrir land ykkar, þjóð og tungu. Njótið þess að búa hér norður við ysta haf þó svo þið munið mörg að líkindum verja einhverjum árum æfi ykkar við nám og störf fjarri uppruna ykkar. Hvert sem þið farið og hvað sem þið gerið skuluð þið vera foreldrum ykkar trú og fósturjörð.

Ég vil við þetta tækifæri þakka starfsfólki skólans skólaárið 2010-2011 fyrir góða samvinnu og vel unnin störf. Allir  hafa lagt sitt af mörkum til skólastarfsins með sóma og þar með búið nemendur okkar út með gott veganesti.
Skólanefndinni þakka ég samstarfið og formanni hennar, Trausta Þorsteinssyni.

Þar eð mér hefur verið veitt námsorlof næsta skólaár mun Sigríður Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari, leysa mig af hólmi og Benedikt Barðason áfangastjóri setjast í hennar stól. Óska ég þeim og öðru samstarfsfólki velgengni á meðan ég verð í burtu.

Að svo mæltu segi ég Verkmenntaskólanum á Akureyri slitið og óska ykkur öllum gæfu og gengis.