Fara í efni

Bókasafnið er hjartað

Nemendur í verkefnavinnu á bókasafni VMA.
Nemendur í verkefnavinnu á bókasafni VMA.

Oft er sagt að bókasafnið sé hjartað í hverjum skóla og það er nokkuð til í því. Eðli málsins samkvæmt er bókasafn VMA stútfullt af fróðleik og þær Sigríður Sigurðardóttir og Rannveig Karlsdóttir, sem þar starfa, eru boðnar og búnar að miðla öllum mögulegum upplýsingum til notenda safnsins og aðstoða þá eins og þær geta.

Eins og gefur að skilja er bókasafn VMA skólabókasafn en t.d. Amtsbókasafnið á Akureyri er almenningsbókasafn. Sigríður Sigurðardóttir segir að fyrst og fremst sé skólabókasafnið byggt upp fyrir nemendur og starfsfólk skólans og starfsemin hljóti að laga sig að kennsluaðferðum og þörfum í skólanum. Hins vegar sé leyst úr óskum safnnotenda, utan skólans, sé þess nokkur kostur. Efni safnsins er skráð inn í bókaskrá bókasafna á Íslandi, Leitir.is. Á þeim vef kemur fram hvaða hluti safnkostsins er ekki lánaður út fyrir veggi skólans. „Amtsbókasafnið á Akureyri er almenningsbókasafn og jafnframt prentskilasafn sem þýðir að það fær allt prentefni sem gefið er út á Íslandi. Hjá okkur er í meira mæli horft til kennslutengds efnis sem nýtist vel við vinnu nemenda og kennara. Við leitumst við að kaupa inn efni, bæði innlent og erlent, innan okkar fjárhagsramma, samkvæmt óskum kennara skólans og nemenda. Við fáum verkefna-/ritgerðalista hjá kennurum og það er okkar skylda að fylgjast vel með útgáfu á nýjum bókum og tímaritum. Sömuleiðis reynum við að fylgjast vel með nýju efni á netinu, sem kann að nýtast nemendum og kennurum í tengslum við verkefnavinnu eða jafnvel áhugamál,“ segir Sigríður. Sem fyrr segir er keypt inn bæði innlent og erlent efni á safnið. Um er t.d. að ræða handbækur og ýmsar uppflettibækur sem nýtast vel.

Kunnara er en frá þurfi að segja að það hefur orðið gjörbreyting í upplýsingaflæði með tilkomu netsins og því er bókin í dag ein af fjölmörgum leiðum sem fólk hefur til þess að nálgast upplýsingar. Sigríður telur að þrátt fyrir netbyltinguna muni bókin eftir sem áður halda velli og verða mikilsverður þáttur í að veita upplýsingar, ásamt öðrum miðlum. „Hér áður fyrr þurftum við að kenna nemendum á tölvur en núna lýtur kennslan ekkert síður að því að kenna þeim að nota bækur. Sjálf trúi ég á framtíð bókarinnar. Um tíma var tilfinningin sú að hún væri að líða undir lok og tölvubyltingin væri alfarið að taka yfir en mér finnst sá tími liðinn og sé fyrir mér að fólk læri að stjórna notkuninni og nýta það besta úr ólíkum miðlum sér til gagns og gamans. Það er mín tilfinning að bókin verði eftir sem áður mikilvægur þáttur í að veita fólki upplýsingar, ásamt öðrum miðlum,“ segir Sigríður.

Á netinu er óendanlega viðamikill banki með allskyns upplýsingum. Sigríður segir mikilvægt og á það sé lögð áhersla í safnafræðslu í VMA að kenna nemendum svokallað „upplýsingalæsi“. Í því felst að benda á bestu mögulegu heimildirnar sem í boði eru á hverjum tíma. Í öllu upplýsingaflóði netsins sé afar mikilvægt að benda notendum á hvaða heimildir séu traustar og hverjar síður traustar eða óáreiðanlegar.

Hér eru gagnlegar leiðbeiningar fyrir nemendur VMA um meðferð heimilda og heimildaskráningu (unnið af íslenskukennurum og starfsfólki bókasafnsins).

Hér má sjá fróðlega samantekt á heimasíðunni um sögu bókasafns VMA. 

Frá upphafi hefur safnið fylgst vel með tækninýjungum og -þróun í skólanum og utan og tekið þátt í þeim.  Adam Óskarsson sá til þess á sínum tíma að bókasafnið tengdist strax tölvuneti skólans og það fékk sér fljótlega skráningarkerfi. Þá var farið að að nota margmiðlunarefni um leið og það kom á markaðinn og „í gamla daga“  þegar skólinn fór að nota gagnvirku prófin tók bókasafnið þau upp í safnkennslunni og svona hefur þetta haldið áfram að þróast. 

Nemendur VMA hafa aðgang að ýmsum gagnlegum vefsvæðum á netinu þar sem þeir geta aflað sér upplýsinga.  Fyrst skal nefna Leitir.is, sem er bókaskrá VMA og flestra bókasafna á Íslandi. Þessi síða er opin alls staðar endurgjaldslaust og ekki þörf að skrá sig inn.

Aðrar gagnlegar vefsíður eru:

Hvar.is - rafrænar áskriftir að m.a. heildartexta 20.000 tímarita um allt milli himins og jarðar, opið íslenskum IP-tölum.

Snara.is - orðabækur allra tungumála sem kennd eru í skólanum og margt fleira, t.d. nöfn Íslendinga, Íslandsatlas og Matarást.

Timarit.is - frjáls aðgangur að íslenskum dagblöðum og tímaritum á stafrænu formi

Alfræðibókin Britannica Academic er aðgengileg endurgjaldslaust í gegnum hvar.is

Greinasafn Mbl  - vegna áskriftar VMA að greinasafninu, er unnt að lesa yngri greinar en þriggja ára í skólanum.

Framhaldsskoli.is - námsvefur fyrir framhaldsskólanema þar sem m.a. er að finna gagnvirkar æfingar, skýringar á myndböndum og fleira. VMA er áskrifandi að þessum vef og því geta nemendur farið inn á hann á sínum IP-tölum innan veggja skólans.

Þá er þess að geta að á bókasafni VMA er hægt að fá aðgangsorð að rafrænum aðgangi að greinum tímarita eins og New Scientist, Newsweek og Gestgjafanum. 

Nánari upplýsingar um bókasafnið er að finna hér á vef skólans.